Tillögur afgreiddar frá aðalfundi Landssamtaka skógareigenda 2018, sem haldinn var á Hotel Stracta, Hellu, 5.-7. okt 2018
Nýskógrækt og sveitafélög
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga að samræma afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar.”
Greinargerð:
Afgreiðsla á framkvæmdaleyfi vegna skógræktar er mjög mismunandi á milli sveitarfélaga og heftir það afgreiðslu mála og mismunar umsækjendum þar sem kostnaður er einnig mismunandi. Þar sem um sambærilega framkvæmd er að ræða hvar sem menn búa á landinu ætti afgreiðsla framkvæmdaleyfis að vera stöðluð eða sambærileg.
Flutningur til Landbúnaðarráðuneytis
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur þunga áherslu á að bændaskógræktin verði færð frá Umhverfisráðuneyti til Landbúnaðarráðuneytis.”
Rök:
Bændaskógrækt er eins og hver önnur grein landbúnaðar og því eðlilegt að hún sé undir Landbúnaðarráðuneytinu og fjármagn til hennar verði greitt út af Búnaðarstofu eins og annar stuðningur til landbúnaðarins.
Samþykkt að vísa tillögunni til stjórnar LSE með meirihluta atkvæða
Fimmtán daga fyrirvari
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, skorar á stjórn LSE að senda út tölvupóst/póst 15 dögum fyrir aðalfund LSE ár hvert, yfirlit framkvæmda stjórnar á þeim málefnum sem samþykkt voru á síðasta aðalfundi. Hafi ekki tekist að ljúka verkinu er beðið um stutta skýringu á stöðunni. Afgreiðslur mála verði aðgengilegar á heimasíðu.“
Greinargerð:
Til að flýta fyrir nefndarstörfum og gera vinnubrögð aðalfundarins skilvirkari er lagt til að þessari framkvæmd verði komið á enda þótt niðurstöður verkefna verði lesin upp í skýrslu formanns sést hver árangur hefur orðið af málefnavinnunni.
Kostnaðarmat skógræktar
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, felur stjórn LSE að kostnaðarmeta skógrækt og einkum afurðir skógarins við lokahögg.”
Greinargerð:
Taxtar við skógarvinnu eru háir á Íslandi samanborið við önnur lönd. Samt sem áður virðist það lítt duga til að laða ungt fólk að skógrækt og skógræktarvinnu. Að einhverju leyti er það vegna samkeppni við aðra vinnu og hafa ber í huga að Ísland er dýrt land. Mikill kostnaður þýðir væntanlega dýrara timbur þegar kemur að lokahöggi sem vinnur gegn okkur til lengri tíma litið. Það þurfa allir að vera meðvitaðir um hvert stefnir bæði varðandi nýliðun í greininni, umhirðu og viðargæði og síðan afurðaverð. Jafnframt er nauðsynlegt að peningalegt virði ræktunarinnar liggi fyrir við sölu á á skógræktarjörðum.
Verklag við uppgjör
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, beinir því til stjórnar LSE að fara með Skógræktinni yfir það fyrirkomulag sem er við úttektir framkvæmda og fjárhagsuppgjör við bændur.”
Greinargerð:
Umhugsunarvert er að í dag eru allar framkvæmdir og fjárhagslegt uppgjör við skógarbændur framkvæmdar af Skógræktinni. Þar er átt við áætlanagerð, útvegun plantna, framkvæmdir og fjárhagslegt uppgjör.
Girðingartillaga
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að eftirfarandi tillaga um girðingarmál verði samþykkt.
-Skýr ákvæði verði í skógræktarsamningum um girðingar, bæði nýjar og úreltar og hvernig eftirliti verði háttað.
-Ríkið standi við sínar skuldbindingar um fjárveitingar.
-Tekið verði tillit til þess hve auðvelt er að girða og halda við girðingum á viðkomandi skógræktarsvæði.
-Bændur fái efni og vinnu greitt strax við verklok.
-Skógræktin annist allt eftirlit.“
Greinargerð:
Í gegnum árin hafa verið ólíkar reglur um greiðslu á girðingarkostnaði eftir landshlutum. Nauðsynlegt er að samræma þær reglur. Friðun er forsenda skógræktar.Ekki hægt að reikna með styðstu mögulegu leið umhverfis skógræktarlandið, það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Taka verður tillit til aðstæðna á hverri jörð þegar meta á kostnað við girðingar t.d. með mismiklu álagi á girðingar á erfiðu landi.
Það er því lykilatriði að ríkið standi við þær áætlanir sem það gerir um fjárframlög til skógræktar.
Síðan þarf að finna lausn varðandi þær girðingar sem taka yfir stór svæði, jafnvel nokkrar jarðir en sú aðferð var algeng á svæði Héraðsskóga í árdaga þess verkefnis. Þar komu oft fleiri að s.s. sveitarfélög og Vegagerðin. Í sumum tilvikum liggja þessar girðingar yfir jarðir sem alls ekki eru í skógrækt og þeir bændur hafa því jafnvel engan hag af því að halda þeim við. Samninga sem til eru um þessar girðingar þarf að fara í gegn um og taka ákvarðanir í framhaldi af því.
Eftir einhver ár verða girðingarnar ekki nauðsynlegar til að verja ræktunina og þá þurfa að vera ákvæði í samningunum um hver ber ábyrgð á þeim og séu þær komnar úr notkun þarf að hreinsa þær upp úr landinu.
Greiðsla fyrir grisjun
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að LSE þrýsti á að Skógræktin sinni betur umhirðu í ungskógum og veiti meira fjármagni til snemmgrisjunar og slóðagerðar.”
Greinargerð:
Á undanförnum árum hefur umhirða ungskóga setið verulega á hakanum. Aðalfundur LSE skorar á stjórn LSE að þrýsta á Skógræktina að staðið verði við samninga og auknu fjármagni varið í fyrstu grisjun og slóðagerð í tengslum við hana. Verðmæti nytjaskóga byggist meðal annars á góðri umhirðu á fyrstu árunum.
Verkefnaflutningur frá Skógræktinni til LSE
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, felur stjórn LSE að hefja viðræður við Skógræktina um það, hvort tímabært sé, að LSE taki að sér ákveðin verkefni sem Skógræktin sinni í dag.”
Greinargerð:
Hugmyndir hafa verið uppi um, að LSE, sem samnefnari skógarbænda, gæti tekið að sér ákveðin verkefni, sem Skógræktin sinnir nú. Svo sem ráðgjöf og uppgjör við skógarbændur, upplýsingagjöf og fræðslu, eða jafnvel plöntuafhendingu. Í dag er allt ferlið í höndum Skógræktarinnar og spurning hversu æskilegt það er, eða hvort til greina komi að Skógræktin deildi út ákveðnum verkefnum til LSE.
Tilgangur LSE og aðildarfélagana
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, samþykkir að stjórn LSE skipi nefnd sem hafi það hlutverk að skilgreina betur hlutverk LSE og aðildarfélaga þess.
Skoðað verði sérstaklega:
1. Hvert er félagslegt hlutverk aðildarfélaga innan LSE.
2. Hver á aðkoma LSE og aðildarfélaga að vera í sölu skógarafurða.
3. Er stofnun sölufélags í nafni LSE eða aðildarfélaga tímabær.
Nefndin ber að skila niðurstöðu sinni á næsta aðalfundi LSE.“
Greinagerð.
Í framtíðarsýn Landssamtaka skógareigenda 2012-2022, samvinna -þekking - árangur" er ekki skilgreind undir liðnum "hlutverk" hver aðkoma samtakanna eða aðildarfélaga skal vera í afurða- og úrvinnslumálum skógarafurða. Er það mjög bagalegt, sér í lagi þar sem aðkoma skógarbænda til framtíðar verður í sölu á timbri og öðrum nytjum skóga.
Sömuleiðis er hvergi getið um hlutverk skógarbænda í félagslegu hlutverki Landssamtaka skógareigenda í stefnumótun samtakanna, né í lögum LSE. Mikilvægt er að bæta úr því til að stefna til lengri tíma sé skýr hvort sem er í afurðamálum skógarbænda eða félagslegu hlutverki skógarbændafélaga.
Kolefnismál
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, bendir á að samkvæmt þinglýstum samningi um skógrækt á bújörðum eiga landeigendur skóginn og þar með talda kolefnisbindingu í trjám og jarðvegi ásamt öðrum afurðum skógarins.
Stjórn LSE er falið að finna leiðir til sölu kolefnisbindingar í nytjaskógum bænda og til þess sé fengið yfirlit frá Skógræktinni yfir bindingu kolefnis á bújörðum með skógræktarsamninga.“
Greinargerð:
Í 1.gr. laga um landshlutaverkefi í skógrækt segir að skógurinn sé eign landeiganda og samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnar lýðveldisins Íslands er ekki hægt að taka af mönnum eignir nema bætur komi fyrir.
Þinglýsing á bindingu kolefnis
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, samþykkir að beina því til stjórnar LSE að vinna skýrar leiðbeiningar um hvernig skógarbændur geti staðið að þinglýsingu kolefnisbindingar á jörðum sínum þar sem fram komi aðgerðaferlið svo að allir skógarbændur sem vilja geti valið þessa leið.“
Greinargerð:
Þar sem einn skógarbóndi hefur þinglýst sölu á kolefnisbindingu á jörð sinni er full ástæða til að allir þeir sem vilja gera hið sama.
Áherslutrjátegundir við kolefnisbindingu
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, samþykkir að beina til Skógræktarinnar að nýttar verði afkastamestu kolefnisbindandi trjátegundir sem völ er á og hæfa hverri landgerð, og tryggja þannig að nýting fjármagns verði sem best.“
Nýtt greiðsluform
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að laun stjórnar sé ákveðin fyrir fram og að aðalfundur LSE ákveði launataxta fyrir þá stjórn sem mun vinna fram að næsta aðalfundi. “
Formaður með tvöföld laun
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að laun stjórnar verði óbreytt að öðru leyti en því að laun formanns verði tvöföld laun almenns stjórnarmanns. Greiðslur fyrir árið 2018: Almennur stjórnarmaður kr. 114.000, gjaldkeri kr. 125.000 og formaður kr. 228.000. Greiðslur fyrir árið 2019: Almennur stjórnarmaður kr. 120.000, gjaldkeri kr. 135.000 og formaður kr. 240.000. Síðan verði greiddir dagpeningar fyrir fundarsetu og nefndarstörf. “
Árgjöld
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að árgjöld til LSE fyrir 2019 verði óbreytt eða kr. 5000 á hverja jörð og kr. 1500 á hvern skráðan félaga. Eindagi félagsgjalda sé 1. nóvember.”
Greinargerð:
Tillagan felur í sér sama fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda og á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að innheimt félagsgjöld skili sér til LSE sama ár og þau eru innheimt hjá félögunum.
Fjárhagsáætlun
Fjárhagsætlun 2019
Fjárhagsáætlunin er á sér skjali
Fjárhagsáælun LSE fyrir starfsárið 2019