top of page

Aðalfundur FSV 2019


23. aðalfundur Félags skógarbænda á Vesturlandi

haldinn að hótel Hamri 27. mars 2019.


Fundur settur Formaður Bergþóra Jónsdóttir setti fund. Hún stakk upp á Melkorku Benediktsdóttur sem fundarstjóra og Höllu Guðmundsdóttur sem fundarritara. Það samþykkt og tók Melkorka við stjórn fundarins. Bergþóra las skýrslu stjórnar.

Skýrsla stjórnar Haldið var námskeið um Umhirðu í ungskógi – kennari var Hlynur Gauti. Þetta var gott og þarft námskeið fyrir alla skógarbændur. Ef vel á að takast í skógræktinni þarf umhirða að hefjast strax. FsV tók þátt í samstarfsverkefni SÍ, Skógræktarinnar og LSE „Líf í lund“ 23. júní sl. Markmið verkefnisins er að fá almenning út í skóg til að njóta umhverfisins, fræðast um skóga og skógrækt auk þess að skemmta sér með margvíslegum hætti. Viðburðurinn var í Selskógi í Skorradal og tókst með afbrigðum vel og var mæting góð þrátt fyrir mikla rigningu. Félagið mun einnig vera með í þessu verkefni í ár sem verður nú í Reykholti.

Aðal viðburður ársins 2018 var skógaferðin á Suðurland sem var í alla staði vel heppnuð. Margt var skoðað í þessari 2ja daga ferð. Fyrst var komið í Nátthaga til Óla og skoðuðum við hjá honum gróðrarstöðina, fræddumst um uppbyggingu hennar og baráttuna við vindinn. Óli er óþrjótandi viskubrunnur um tegundir og lífslíkur þeirra við ólíkar aðstæður. Hann hefur sótt efnivið víða um heim, komið til tegundum og kvæmum sem dafna ótrúlega vel í Nátthaga. Á Selfossi kom Björn Bjarndal í bílinn hjá okkur og leiðsagði okkur um Árnessýslu þar sem við hittum nokkra athafnamenn sem sýndu okkur ýmsar nýjungar í skógrækt. Á Snæfoksstöðum í Grímsnesi hittum „Digru Siggu“ sem er ný vél sem afgreinar trjáboli og fylgdumst við með hvernig hún virkar. Þarna var tæki sem þyrfti að vera aðgengileg öllum skógarbændum sem eru komnir að grisjun og fellingum.Við komum í Hrosshaga og gengum um skóginn með Siggu og Gunnari sem fræddu okkur um grisjun og skógarnytjar. Þar skoðuðum við líka glær kúluhús í skóginum sem leigð eru út til gistingar. Næst var komið við á Galtalæk þar sem Agnes og Sigurbjörg fóru með okkur um skóginn sinn, sýndu okkur vel hirtan skóg og ráðlögðu okkur hvernig góð umhriða á að vera. Þá var farið til Sigga í Ásgerði sem alltaf er að gera tilraunir og prófa eitthvað nýtt. Seinni daginn fór Hallur með okkur um Tumastaði, þann mikla skóg, og trjásafnið í Múlakoti sem er einstakt að sinni gerð. Síðan var farið í Gunnarsholt þar sem við fengum fræðslu um starfsemi Landgræðslunnar. Frá Gunnarsholti fórum við með henni Hrönn okkar um aðalstarfsvæði Hekluskóga. Fróðlegt var að sjá hversu góður árangur er víða á þessum sand- og vikurauðnum. Þá fórum við yfir í Þjórsárdal þar sem Skógræktin er með aðstöðu til viðarvinnslu og fylgdumst við með sögum og önduðum að okkur viðarilmi.

Hjördís Geirdal skrifaði um ferðina í Bændablaðið í haust og er hægt að skoða myndir úr ferðinni á fésbókarsíðu okkar - Félag skógarbænda á Vesturlandi.

Í október tóku skógarbændur þátt í landbúnaðarsýningu í Reykjavík. Við í FsV stóðum auðvitað vaktina og kynntum starf skógarbænda og Hraundís var með framleiðslu sína á ilmkjarnaolíum.

Aðalfundur LSE var á Hellu í byrjun október – þar mættu að vanda þó nokkrir úr okkar félagi. Spennandi tímar eru vonandi framundan sem fylgja skemmtileg verkefni. Nú er í umræðunni að skógarbændur taki að sér einhver verkefni sem skógræktin hefur sinnt. Eins er nokkuð ljóst að ný verkefni verða til sem við skógarbændur þurfum að sinna. Eftir áralanga bið eftir auknu fjármagni til skógræktar er von í brjósti. Einnig eru ný skógræktarlög í farvatninu en við vitum ekki hvað þau munum færa okkur.

Þröstur skógræktarstjóri heimsótti okkur í haust og fræddi okkur um fjórföldun skógræktar sem aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Í áætluninni er enn mesta áherslan á skógrækt á lögbýlum af hálfu ráðuneytisins. Þessi aukning gróðursetninga kemur aðallega til á næsta ári og árin þar á eftir. Það er ljóst að auka þarf verulega framleiðslu á skógarplöntum.

Reikningar lagðir fram Guðmundur Sigurðsson gjaldkeri félagsins fór yfir reikninga félagsins.

Tekjur ársins voru kr. 1.147.912 en töluvert er enn útistandandi af félagsgjöldum.

Gjöld ársins voru kr. 1.334964. tap ársins er því kr. 187.052. í sjóði eru kr. 538.154 Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.

Umræður um skil stjórnar, reikningra afgreiddir Guðmundur lagði fram tillögu frá stjórn FsV Aðalfundur FsV veitir stjórn heimild til að styrkja hvern fulltrúa frá félaginu sem mætir á aðalfund LSE um allt að 15000 kr.

Árgjald óbreytt frá fyrra ári.

Kosningar Í stjórn eru Bergþóra Jónsdóttir, Guðmundur Sigurðsson og Halla Guðmundsdóttir. Þau gefa öll kost á sér áfram og voru kosin áfram.

Í varastjórn voru kosnir Lúðvíg Lárusson, Rúnar Vífilsson og Sigurkarl Stefánsson. Skoðunarmenn reikninga eru þeir Haraldur magnússon og Pétur Jónsson og voru þeir endurkjörnir.

Erindi gesta. Ellert Arnar Marísson kynnti verkefni sitt, Viðarmagnsspá fyrir Vesturland. Ellert fór yfir tilurð verkefnisins, þ.e. að gera 30 ára viðarmagnsspá fyrir alla ræktaða skóga á Vesturlandi sem eru taldir hæfir til viðarnýtingar. Þetta var afar fróðlegt erindi sem vakti margar spurningar og umræður.

Hlynur Gauti Sigurðsson framkvæmdastjóri fór yfir helstu tillögur sem komu til stjórnar LSE á síðasta aðalfundi LSE. Hann ræddi um samstarf við Bændablaðið um fréttir og greinar tengdar skógrækt. Hann hvatti félagsmenn til að senda fréttir og myndir til birtingar.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sviðsstjóri auðlindasviðs Skógræktarinnar fór yfir skipurit og helstu verkefni Skógræktarinnar. Vegna aukinnar áherslu á kolefnisbindingu er að koma mun meira fjármagn inn á næstu árum. Nýjar girðingareglur eru komnar til framkvæmda og á eftir að skýrast betur hvaða áhrif þær hafa.

Önnur mál. Guðmundur Sigurðsson hættir sem skógræktarráðgjafi 1. apríl og við hans starfi tekur Valdimar Reynisson.

Halla sagði frá 2 fundum sem haldnir hafa verið vegna verkefnisins Líf í lundi. Frekari kynning mun birtast í fjölmiðlum þegar nær dregur.

Guðmundur Sigurðsson bauð félagsmönnum í skóginn til sín á afmælisdegi félagsins þann 23. júní.



Bergþóra þakkaði fundarstjóra, óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar og sleit fundi.

Halla Guðmundsdóttir fundarritari




bottom of page