Föstudaginn 26. júní sl. var haldinn skemmtilegur viðburður á Vestfjörðum. Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum (FsVfj.), ásamt skógargöngu og heilnæmum hádegisverði, var haldinn á Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Bjarnarfjörður er einstök náttúruperla í Kaldrananeshreppi, steinsnar frá Hólmavík. Fjölmargir félagsmenn voru mættir auk starfsfólks Skógræktarinnar og framkvæmdastjóra LSE. Eins og gjarnan vill verða í skógum lék veðrið við þáttakendur í skógargöngunni sem var fyrst á dagskrá. Í Bjarnarfirði hefur vaxið upp mikill skógur, bæði náttúrulegur og gróðursettur. Á Svanshóli er stunduð umfangsmikil og fjölbreytt skógrækt, en hvorki meira né minna en 26 trjátegundir vaxa á jörðinni. Stærstu trén eru komin vel á annan tug metra og tilheyra aspartilraun þar sem prófaðar eru mismunandi asparklónar við asparryði. Enn er verið að gróðursetja og bæta við flóruna á jörðinni. Eftir skógargönguna var kíkt í tvö gróðurhús. Í öðru þeirra er stunduð trjáplöntuframleiðsla og í hinu vaxa stórkostleg ávaxtatré eins og kirsuberja- og eplatré. Eftir göngutúrinn voru allir svangir og boðið var upp á gómsæta njólasúpu og salat ræktað í sveitinni. Loks hófst vel heppnaður aðalfundur þar sem farið var yfir fjölmörg mál, skeggrætt og kosið í stjórn FsVfj.. Skógargöngur eru afbragðs tækifæri til að hitta fólk, læra, skiptast á skoðunum og reynslu. Það er alltaf gaman að njóta náttúrunnar með góðu fólk og fá sér góðan mat á eftir. Það er ekki hægt að segja annað en að dagurinn hafi heppnast mjög vel. Stjórn FsVfj. vill koma á framfæri þökkum til allra gestanna og síðast en ekki síst þeim Höllu og Lóa á Svanshóli!
Félag skógarbænda á Vestfjörðum,
Naomi Bos
Ýmsar gerðir af greni vaxa upp á Svanshóli, s.s. svart- hvít- rauð- og eflaust græn. Þessi tré sem hér sjást eru farin að vaxa ágætlega.
Mynd: Naomi Bos.
Á Svanshóli er borhola með 40 gráða heitu vatni.
Mynd: Naomi Bos
Halla, skógarbóndi á Svanshólk leiðir fólk um allan sannleikann um skógræktina sína.
Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson.
Á Svanshól eru tvö óupphituð gróðurhús. Þar rækta þau upp skógarplöntur, ávexti og fleira.
Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson.
Veturinn var harður og það má glöggt sjá á þessum öspum sem brotnuðu í einu hretinu.
Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson.