top of page

Aðalfundi FsS 2025 lokið

Aðalfundur Félags skógarbænda á Suðurlandi var haldinn í Tryggvaskála Selfossi, fimmtud. 10. apríl s.l. Góð mæting var á fundinn, en nær fimmtíu manns mættu.

Formaður flutti skýrslu í upphafi fundar, en fundargerðin, ásamt skýrslu stjórnar, er birt eins og áður undir www.skogarbondi.is/sudurland.

 

Björn Bjarndal Jónsson kynnti verkefnið „Úr skógi“ sem snýst um að kanna og þróa úrvinnsluleiðir fyrir nytjaafurðir úr skógum með það markmið að finna leiðir til að skapa verðmæti úr þeim hráefnum sem fást við grisjun og nýtingu á trjám í íslenskum skógum.  Myndaður var samráðshópur sem samanstóð af sérfræðingum frá ýmsum sviðum, þar á meðal skógrækt, hönnun, iðnaði og fræðasamfélaginu.  Vinnuna leiddi verkfræðistofan EFLA. Í skýrslu sem starfshópurinn vann koma fram ítarlegar upplýsingar um m.a. skógadreifingu á Íslandi, tiltækt viðarmagn, timburgæði, innfluttar viðarafurðir, verð ofl.  Forval á hugmyndum var kynnt m.a. til nýtingar viðarafurða bæði sem óunnar og unnar timburvörur, til orkunýtingar, sértækar vörur, upplifun, ofl.  Margar skapandi, spennandi og áhugaverðar hugmyndir komu fram í þessum fyrsta fasa þessa verkefnis Úr skógi.

 

Sérstakur fyrirlesari fundarins var Böðvar Guðmundsson fyrrverandi skógarvörður á Suðurlandi. Flutti hann erindi um upphafsár sín hjá Skógrækt ríkisins. Böðvar sýndi fjölda mynda, bæði frá upphafsárum sínum 1966 sem sumarstrákur hjá Skógræktinni að Skriðufelli í Þjórsárdal og fram á daginn í dag.    Í lokin áréttaði Böðvar „mikilvægi þess að gæta vel að því að bæta inn í gróðursetningar, 2500 tré á hektara er lágmark til að fá upp almennilegan timburskóg“.

Hjörtur Bergmann formaður SkógBÍ ávarpaði  fundinn og kynnti starf Skógarbændadeildar Bændasamtakanna.  Ræddi hann m.a. um skipulagsmál og hversu misjafnar kröfur eru á milli sveitarfélaga sem eru verulega íþyngjandi fyrir skógarbændur.  Að lokum hvatti Hjörtur alla skógarbændur til að skrifa greinar í Bændablaðið og mæta á málþing skógarbænda sem verður haldið 11. október í Kjarnalundi á Akureyri.

 

Í lok fundar fór Björgvin Eggertsson frá Garðyrkjuskólanum Reykjum-FSU yfir starf Garðyrkjuskólans og endurmenntun í græna geiranum.  Í framhaldi af því kynnti hann samstarf milli atvinnulífs og endurmenntunar Garðyrkjuskólans á Reykjum ásamt samstarfsyfirlýsingar milli skólans og Bændasamtaka Íslands.

Sagði hann frá nokkrum áhugaverðum námskeiðum við skólann eins og húsgagnagerð, áhættumat trjáa, trjáfellingar, trjá- og runnaklippingar, jólatrjárækt, ofl.

Stjórn FsS er óbreitt. Björn Bjarndal Jónsson formaður, Ragnheiður Aradóttir ritari, Hrönn Guðmundsdóttir gjaldkeri og Sólveg Pálsdóttir og Októ Einarsson meðstjórnendur.

Varamnenn eru Rafn A. Sigurðsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir.

Hólmfríður kom inn í stað Agnesar Geirdal sem hættir nú eftir áralanga setu í stjórn.


Októ og Björn.

 


Fundargerð



Birt í Bændablaðinu apríl 2025
Birt í Bændablaðinu apríl 2025


Kommentare


bottom of page