top of page

Aðalfundur FsS 2024

FUNDARGERÐ

Aðalfundur FsS - Stracta, laugardaginn 4. maí 2024


Aðalfundur FsS  -  Stracta, laugardaginn 4. maí  2024


1.       Fundarsetning

Í upphafi fundar er genginna félaga minnst.


  • Jón Hólm á Gljúfri í Ölfusi sat í stjórn FsS og var formaður um árabil.

  • Njörður Geirdal á Galtalæk í Biskupstungum var frumherji í skógrækt og byrjaði að rækta skóg fyrir 35 árum.

  • Margrét Þórðardóttir á Þverlæk í Holtum sat í stjórn sem ritari og starfaði einnig í LSH í nokkur ár.

  • Halla Bjarnadóttir Vatnsleysu í Biskupstungum.


Formaður, Björn Bjarndal Jónsson,  setur fundinn og býður gesti velkomna. Sérstakir gestir eru Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og Skóga og Hjörtur Bergmann Jónsson, nýkjörinn formaður Skógardeildar BÍ. Björn tilnefnir ritara, Ragnheiði Aradóttur og fundastjóra, Hrönn Guðmundsdóttur.  Fundastjóri tekur við stjórn fundarins.

 

2.       Ávarp: Ágúst Sigurðsson forstjóri Lands og Skóga

 

Ágúst heilsar og býður gleðilegs sumars. Segir frá sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar en Land og Skógur tók til  starfa 1. janúar 2024. Við erum komin í hring því upphaflega voru Skógræktin og Landgræðslan ein stofnun, sem tók til starfa árið 1907. Fyrsti starfsmaðurinn var Agnar Kofoed Hansen, en hann var skógfræðingur frá Danmörku. Ásamt honum vann Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslumaður hjá stofnuninni á sumrin.  Þeir virkjuðu landeigendur og bændur með sér í baráttunni við sandinn en það trúðu ekki allir á að það væri hægt að beisla sandinn og koma upp skógi.

 

Nú er öldin önnur og fullt af fólki með mikla þekkingu og reynslu hjá sameinaðri stofnun vinnur að starfinu og verkefnin dreifast á fleiri hendur. Í framtíðinni mun Land og Skógur þróast og stofnanirnar sem voru sameinaðar munu samþættast. Einhverjir hlutir munu breytast. Þetta er dreifbýlisstofnun með 140 starfsmenn og 18 starfsstöðvar hringinn í kringum landið. Fimm starfsstöðvar eru á Suðurlandi, Gunnarsholt, Þjórsárdalur, Haukadalur, Tumastaðir og Selfoss.

 

Stofnunin starfar eftir lögum um landgræðslu og skógrækt.  Eitt af mörgum verkefnum er að vernda og efla jarðveg og gróðurauðlindir landsins. Undir þeim flokki er starfið sem bændur sinna, Skógrækt á lögbýlum og Bændur græða landið. Einnig er hjá stofnuninni unnið að vöktun og  stefna mótuð auk fræðslu og að efla almenning. Auk þess er mikilvægt að binda kolefni og minnka losun.

 

Skógrækt á lögbýlum heldur áfram en Matvælaráðuneytið óskaði nýlega eftir að hvatakerfin yrðu tekin til endurskoðunar, farið yrði yfir hvernig hefur gengið og hvernig þróunin verður til framtíðar. Skógrækt á lögbýlum, Bændur græða landið og fleiri verkefni eru í skoðun.  Stofnunin er í miðjum klíðum að fara yfir þetta og leitað er álits hjá hagaðilum í þeirri vinnu.

 

Málfundir eru haldnir mánaðarlega innan stofnunarinnar til að fara yfir faglegan ágreining og ræða erfið mál. Fyrsti fundurinn var um hvatastyrkina. Fyrstu hugmyndum um hvatastyrkina verður skilað til ráðuneytisins í lok maí. Það er möguleiki að samræma og samþætta ýmsa þætti, til að nýta fjármunina betur og þar sem mest er kallað eftir þeim á hverjum tíma. Stofnunin mun halda áfram og bæta í og vill gera enn betur. Nánari fréttir munu koma mjög fljótlega.

 

Ný verkefni innan Lands og Skóga eru m. a. að kortleggja allt ræktunarland á íslandi. Það er gert til að meta hvar er heppilegt að vera með kornakra, tún, skóg o.s.frv.  Land og Skógur gerir þá greiningu á því hvað er heppilegast að hafa hvar, svo menn hafi eitthvað í höndunum. Hugsunin er að þetta verði samræmt fyrir allt landið. Það vantar jarðvegskort af Íslandi en það eru ekki til nægjanlega nákvæmar upplýsingar um þetta en vonast er til að hægt verði að komast af stað með það fljótlega.

 

Það er bjart yfir stofnuninni og dásamlegt að vera í forsvari fyrir fólki sem brennur fyrir sínu starfi. Mikil þekking og áhugi er innan stofnunarinnar. Við erum ekki ennþá komin í mark, enn eru lönd sem þarf að græða upp og það þarf að rækta meiri skóg. Enn er blástur á Rangárvöllum og enn er pláss fyrir meiri skóg.

 

Lokaorðin eru: Þetta getur Ísland.

 

              Fundastjóri opnar fyrir spurningar:

Hrönn Guðmundsdóttir spyr um Þorlákshafnarsand.  Landgræðslan hætti að nota lúpínu til landgræðslu fyrir nokkrum árum. Spurningin er, má nota lúpínu í framtíðinni, má hún vera undanfari annars gróðurs, það þarf að binda sandinn áður en gróðursett er í hann.  

Ágúst svarar.  Staðan á lúpínunni, ákveðið var fyrir mörgum árum að draga í land, lúpínan er of dugleg. Það var ákveðið að hætta í bili. Því hefur ekki verið breytt en hefur mikið verið til umræðu, við vitum að hún er frábær á mörgum stöðum. Vantar einna helst fyrirsjáanleika. Það er ekki sátt um hana almennt. Það á eftir að taka þetta fyrir á málfundi. Ágúst hefur rætt þetta við Árna Bragason og fleiri, við erum hvött til að endurskoða og nýta hana þannig að við höfum yfir henni vald. Gott dæmi um verkefni er að rækta upp sanda, til akuryrkju eða skógræktar, þá sé það gert þannig að henni séð sáð og plægð niður, sáð aftur og plægð aftur niður og svo kemur plantan sem á að taka við. Ekki loku fyrir það skotið að nota hana aftur og verið er að skoða fleiri belgjurtir.

Októ Einarsson spyr.  Þakkar fyrir innblásturinn, Ísland getur þetta. Við erum hér nokkur sem erum að rækta upp sanda. Höfum sóst eftir því hjá Landgræðslunni að fá lánuð eða leigð tæki til að dreifa kjötmjöli.  Skógræktin lánar tæki. Leiga gæti til dæmis verið með mannskap og öllu.

Ágúst svarar. Vissi ekki af þessu. Skilur að menn séu hikandi. Það þarf að stíga varlega til jarðar gagnvart þeim sem bjóða þjónustuna.  Ef það er engum til að dreifa þá er hægt að skoða þetta.

Bjarnheiður Guðmundsdóttir spyr. Hún er í forsvari fyrir skógræktarreit sem félagasamtök eru með, þau sóttu um hjá Vorviði, fengu úthlutað birki, greni og furu en vita ekkert um úthlutun, hvernig plöntur eða hvenær þær koma, allt í lausu lofti.

Ágúst svarar að óljóst hafi verið með fjármagn  en ákveðið var að halda áfram með verkefnið. Ólöf Inga hefur haldið utanum verkefnið, hún og Hrefna geta svarað þessu.

Sigurður Jónsson spyr.  Eignarréttur var ekki hátt skrifaður hjá Landgræðslunni hér einu sinni,  lönd voru tekin af bændum án þess að greiða fyrir, hvernig er þetta hjá nýrri stofnun, hvernig lítur Land og Skógur á þetta?

Ágúst svarar.  Eignarétturinn er ekki fótum troðinn hjá stofnuninni. Þessi mál sem um ræðir voru öll frá sama tímabili og það var þannig að menn tóku sig saman og báðu Sandgræðsluna um að taka yfir lönd og landið var  þá komið í eigu ríkisins. Umræðan er ósanngjörn og röng, hann þekkir ekki neinn starfsmann sem er að reyna að ásælast land sem ríkið á ekki. Sveinn Runólfsson svaraði í grein í Bændablaðinu og lýsti þessu vel. Einu dæmin þar sem eignarhald er óljóst er þar sem þinglýsingu var áfátt. Veit að þetta er í góðu lagi núna. Að stórum hluta hefur þetta verið ósanngjörn umræða.

Hrönn Guðmundsdóttir skorar á Ágúst að taka málþing um lúpínu því hún á heima á Þorlákshafnarsandi.

 

3.       Venjuleg aðalfundarstörf:

 

a.       Skýrsla formanns

 

Ársskýrsla Félags skógarbænda á Suðurlandi (FsS) fyrir starfsárið 2023-2024.

 

Góðir fundargestir.

Á starfsárinu sátu í sjórn FsS:

Björn Bjarndal Jónsson formaður, Ragnheiður Aradóttir ritari, Hrönn Guðmundsdóttir gjaldkeri, ásamt Sólveigu Pálsdóttur og Rafni A. Sigurðssyni meðstjórnendum.

Varastjórn skipuðu;

Agnes Geirdal, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir og Þórarinn Þorfinnsson, en skoðunarmenn reikninga eru Ragnar G. Ingimarsson og Sigríður Heiðmundsdóttir.

 

Á árinu voru haldnir níu stjórnarfundir, en fundargerðir stjórnar eru settar á heimasíðuna:  https://www.skogarbondi.is/sudurland.

Síðasta starfsár er fyrsta árið sem stjórn félagsins hefur stefnu til langrar framtíðar til að vinna eftir. „Fræ til framtíðar“. Nýja stefnan okkar hefur sett nokkurn svip á störf stjórnar,  en í stefnunni er að finna áherslur eins og á fjölskylduvæna skógrækt, afurða- og markaðsmál, aukna fræslu svo eitthvað sé nefnt.

 

Til að fylgja eftir stefnu félagsins skrifaði formaður grein um  stefnuna ,,Fræ til framtíðar“ sem birtist í Bændablaðinu  í júní á síðasta ári. Í framhaldi af greininni kom langt viðtal við formann og eiginkonu hans í Bændablaðinu. Viðtalið fór vel útfyrir umfjöllun um stefnuna, en engu að síður var vonandi réttur tónn í viðtalinu.

 

Nokkrir fundir og samkomur voru á árinu. Fyrst er að nefna hina árlegu Jónsmessugöngu, sem var haldin að þessu sinni hjá Steinunni og Ísólfi Gylfa að Uppsölum í Fljótshlíð.   Mikið ringdi þennan dag, en engu að síður tókst gangan vel og góð mæting var, þrátt fyrir veðrið.

Skógargangan að Uppsölum sýndi okkur fram á, það sem mörg okkar vissum fyrir, að aðstæður til skógræktar í Fljótshlínni er einstakar. Þar var sama hvaða tegundir tjáa við skoðuðum, alls staðar var vöxtur þeirri meiri, og vöxtulegri,  en við eigum að venjast á öðrum stöðum Sunnanlands. Nýslegnir göngustígar og góð leiðsögn var heldur ekki til að skemma fyrir góðri skógargöngu. Inni í gömlu húsunum beið  okkar síðan ylur og gott kaffi. Nutum við stundarinnar innandyra við spjall og skoðun á gömlum munum sem hefur verið komið fyrir af smekkvísi í gamla bænum. Hafi bændur á Uppsölum bestu þakkir fyrir ógleymanlegan dag.

 

Skógardagur, með öðruvísu skipulagi og áherslum, var haldinn á Suðurlandi 23. ágúst s.l. Farið var í ferð um nytjaskógrækt í uppsveitir Árnessýslu.  Heiti skógardagsins var  „Skógur nú og til framtíðar“

Ferðin var  kostuð af Félagi skógarbænda á Suðurlandi  og var frítt fyrir alla þátttakendur.

Markmið ferðarinnar var að fræða og fræðast um nytjaskógrækt á Suðurlandi. Þátttakendur gátu tekið þátt í skipulögum umræðum um valin málefni, eins og fram kom í dagskránni.

Farið var frá  Krónunni á Selfossi klukkan níu um morguninn upp að Reykjum á Skeiðum. Þar var  Hallur Björgvinsson með spurninguna „skila skjólbelti sínu hlutverki“ . 

Næsta var stoppað í Hrosshaga og rætt um „aðrar afurðir skóga“. Skógarbændur í Hrosshaga sögðu frá  öðrum nytjum skóga, en umræðum stjórnaði Ísólfur Gylfi Pálmason. Veitingar voru utanhúss í góðu veðri.

Að lokum var farið að Galtalæk og þemað þar var „að auka verðmæti nytjaskóga. Agnes Geirdal leiddi okkur um skóginn og umræðum stjórnaði Björgvin Eggertsson.

Við ketilkaffi og góðar veitinar var að lokum umræður um „nýjar áherslur Skógræktarinnar“. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Hrefna Jóhannesdóttir sviðsstjóri skógarþjónustu Skógrækatinnar fóru yfir svið.

Eftirfarandi fengu boð í ferðina, en nær 70 manns tók þátt.

Félagar í Félagi skógareigenda á Suðurlandi, starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi, fulltrúar rannsóknarstöðvar á Mógilsá, verktakar í skógrækt, fulltrúar Garðyrkjuskólans á Reykjum, fulltrúar Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, plöntuframleiðendur, fulltrúar SASS og uppbyggingarsjóðs Suðurlands, fulltrúar stjórnmálaflokka, fulltrúar náttúruverndar, þjónustuaðilar skógræktar, fulltúar skógræktarfélaga, fulltrúar Skógardeildar BÍ ásamt fjölmiðlum.

 

Iðnaðarsýning 2023 var haldin í Laugardalshöll dagana 31. ágúst til 2. september. Skógargeirinn, undir handleiðslu Hlyns hjá SkógBÍ,  tók sig saman með stuttum fyrirvara og skellti í bás með íslenskt timbur. Björn og Jóhanna stóðu vaktina einn dag fyrir hönd félagsins okkar og skynjuðu mikinn áhuga íslendinga á skógrækt.

 

Skógarbændafélögin og Skógardeild BÍ héldu málþing og árshátíð skógarbænda að  Varmalandi í Borgarfirð s.l. haust. Undirritaður ásamt tveimur heimamönnum og fulltrúa SkógBÍ sátu í undirbúningsnefnd fyrir málþingið. Margir fundir voru haldnir, sem skiluðu sér í frábæru málþingi um mat úr skógi. Löngu tímabært umræðuefni hér á landi. En það eru því miður ekki allir sem gera sér grein fyrir hvað skógarnir okkar geta verið góð matarkista.

Nokkrir skógarbændur úr okkar félagi sótti málþingið og árshátíðina.

 

Fræðslu- og umræðufundur var haldinn 9. mars s.l. að Reykjum.

Hallur Björgvinsson var með erindi um umhirðu skóga og Jón Þór

Birgisson fjallaði um skráningu í skógrækt.

Hrefnu Jóhannesdóttur skógarbóndi og sviðsstjóri ræktunar og nytja hjá Landi og skógum opnaði almennar umræður á fundinum um umhirði skóga, félagsstarfið m.m.

Góður fundur með nær 40 manns.

 

Deildarfundur Skógardeildar BÍ var haldinn í Hilton Nordica mánudaginn 12. febrúar s.l. Fulltrúar FsS voru Björn B. Jónsson, Hjörtur Bergmann Jónsson, Ragnheiður Aradóttir og Kári Steinar Karlsson.

Á fundinum var kosinn nýr formaður SkógBÍ. Stjórn FsS hafði tilnefnt Hjört Bergmann Jónsson til formennsku í skógardeild bændasamtakanna. Gekk það eftir og var hann kosinn

með öllum greiddum atkvæðum.

 

Fundir á vegum félagsins hafa ekki verið haldnir í Austur-Skaftafellssýslu síðan Suðurlandsskógar voru við lýði. Nú var breyting á.

Haldinn var almennur fundur um skógrækt á Hótel Höfn 23. apríl s.l. Fundarefni var  staðan í skógrækt í Sveitarfélaginu Hornafirði. Horft til framtíðar.

 

Farið var yfir starfsemi  Félags skógarbænda á Suðurlandi. Borja og Kári Freyr skógræktarráðgjafar hjá Landi og skógum sögðu frá stöðu mála í skógrækt í A-Skaftafellssýslu og framtíðarhorfur. Að lokum fjallaði Hjörtur Jónsson  formaður Skógardeildar BÍ um félagskerfi skógarbænda. Góð mæting var á fundinn og góðar umræður m.a um mikilvægi góðar umhirðu skóga.

 

Fésbókarsíðu Félags skógareigenda á Suðurlandi var viðhaldið á árinu og nokkur aukning hefur orðið á skráningu inn á síðuna. Það er verkefni að efla síðuna og verður eitt af verkefnun á „geralista ársins“ nýrra stjórnar.

 

Skógarpósturinn var sendur á alla félaga í júní í fyrra þar sem farið var yfir nýja stefnu félagsins, ásamt að dagskrá nýs starfsárs félagsins var tíunduð.

 

Ritari hefur uppfært félagalistann reglulega allt árið.  Þessari vinnu líkur aldrei og mikilvægt að halda félagatalinu eins réttu og möguleiki er, en félagar er minntir á að senda inn leiðréttingar um leið og breyting er á símanúmerum, heimilisfestu eða netföngum.

Félagar í dag eru 211 og hefur fjölgað vel á árinu. Gaman er að sjá að unga fólkið okkar, fólkið sem mun taka við í framtíðinni, er að skila sér inn.

 

Þrír leshópar störfuðu á síðasta starfsári. Hópstjórar í þessum leshópum eru Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Agnes Geirdal.

Gaman er að geta þess að hugmynd hefur komið upp að hóparnir fari á Elmiu Wodd skógarsýninguna í Svíþjóð á næsta ári.

 

Hér og nú er opnað fyrir skráningu í nýjan leshóp undir merkjum félags okkar. Miðað er við að 8 til 12 einstaklingar myndi nýja leshópinn. Ef það verður næg þátttaka þá verður nýja leshópnum  einnig boðið að koma með til Svíþjóða á næsta ári, ef af ferðinni verður.

Eins og flestum er kunnugt þá er hver leshópur starfandi í þjú ár.

 

Formaður hefur átt marga fundi á starfsárinu sem snúa að fræðslumálum.

Ekki hefur gengið eftir hröð uppbygging Garðyrkjuskólans eftir yfirfærslu hans frá LbhÍ yfir til FSU, eins og margir höfðu vonast til.

Kyrrstaða hefur verið í allri uppbyggingu á Reykjum,  hvort sem í húsnæði  eða innra starfi skólans. Vonir standa til að breyting verði á innan tíðar.

 

Engu að síður er kraftur í endurmenntun skógræktar. Grænni skógar II eru farnir af stað og í september fer af stað ný röð Grænni skóga I. Skráning er hafin hjá Björgvini Eggertssyni.

 

Nokkur önnur námskeið er einnig að vænta sem eru áhugaverð fyrir skógarbændur.

 

Móttaka skógarfólks

Alltaf er eitthvað um að tekið er á móti skógarfólki erlendis frá hér á okkar starfssvæði. Það hefur einnig verði á þessu starfsári og nú er unnið að skipuleggja námsferð sænskra skógarnema frá sænska skógarháskólanum í Umeå í Svíþjóð sem munu heimsækja okkur í september.

 

Eins og fram kom í upphafi máls míns þá er eitt af markmiðum nýrrar stefnu félagsins að vinna að afurða- og markaðsmáælum.

 

Í því skyni var sótt var um styrk hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, en umsóknarfrestur rann út 5. mars sl. Sótt var um styrk upp á tvær og hálfa milljón fyrir þriggja ára verkefni um afurða- og markaðsmál sem Félag skógarbænda á Suðurlandi mun standa fyrir.

 

Verkefnið, sem fékk nafnið „Úr skógi“ verður unnið í þremur þrepum á jafnmörgum árum:

 

Fyrsta árið:

Leitað verði að þeim vöruflokkum/úrvinnsluleiðum sem koma til greina í vinnslu skógarafurða.

Niðurstöður væntanlegra úrvinnsluleiða verði flokkaðar eftir:

a. Úrvinnsla úr timburbolum/timbri

b. Úrvinnsla úr verðminni bolum, greinum og afsagi á timbri

c. Úrvinnsla úr öðrum skógarafurðum eins og sveppum, laufi, berjum o.fl., jafnvel ferðaþjónustu.

 

Hver og ein skráning skal hafa stutta greinagerð um úrvinnsluleið og möguleika til árangurs í vinnslu við íslenskar aðstæður.

Að lokinni skráningu og flokkun verður gerð tafla með einkunargjöf á hverjum úrvinnslumöguleika fyrir sig, sem segir til um áherslu á frekari skoðun á framleiðslumöguleika vörunnar.

Skýrslugerð skal lokið fyrir miðjan janúar 2025. Stjórn FsS ákveður í byrjun febrúar 2025 með framhald verkefnisins.

 

Annað árið:

Þeir vöruflokkar sem fengu hæsta skor á fyrsta ári verkefisins verða skoðir frekar. Gerðir verða kostnaðar- og hagkvæmnisútreikningar á hverjum flokki/vöru fyrir sig. Taka skal til skoðunar hvort væntanleg vinnsla henti á Suðurlandi og hvort hráefni sé nægilegt til að hagkvæmni náist í úrvinnslu.

 

 

 

Þriðja árið:

Leita skal leiða til að finna áhugasama aðila til að setja af stað úrvinnslu á þeim skógarafurðum sem skoruðu hátt í hagkvæmisútreikningum eftir annað ár verkefnisins Úr skógi.

 

Fjórir aðilar eru tilbúnir að koma í stýrihóp um verkefnið. Stýrihópinn mun því skipa, ásamt Birni, Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri ræktunar og nytja hjá Landi og Skógi, Eva Björg Árnadóttir, sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar hjá LHÍ, Björk Gunnbjörnsdóttir, hönnuður, kennari og skógarbóndi og síðan Alexandra Kjeld hjá verkfræðistofunni Eflu.

 

Tekið skal fram að ekki fékkst styrkur að þessu sinni úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands,en það skiptir engu í þessu sambandi. Við mun sækja um aftur og aftur ef með þarf.

Fleiri styrkjamöguleikar eru einnig í boði eins og Lóa – nýsköpunarstyrkjakerfi fyrir landsbyggðina, sem er sjóður á vegum Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins.  Síðan eru einnig norrænir og evrópískir skjóðir sem koma vel til greina.

Að lokum þetta. Margt er að gerast jákvætt innan skógargreirans. Nýir skógarbændur koma inn og eins eru einkaaðilar og fyrirtæki að sækja í að gróðursetja trjáplöntur, þá aðallega til kolefnisbindingar.

En árlegur niðurskurður til bændaskógræktar undanfarin ár er umhugsunarefni. Nú á fyrsta ári nýrrar stofnunar, Lands og skóga, eru felldar út greiðslur til bænda eins og til slóðagerðar og áburðargjafar á eldri gróðursetningar. Þetta er að sjálfsögðu mjög bagalegt. Ekki er semsagt lengur staðið við samþykktar greiðslu í nytjaskógrækt á bújörðum.

 

En sá niðurskurður sem hefur verið undanfarin ár til Skógræktarinnar má hugsanlega skrifa að hluta á okkur skógarbændur.

 

Á meðan Landshlutaverkefnin voru við lýði hittu skógarbændur oftsinnis þingmenn og ráðherra, enda áttum við fulltrúa í öllum stjórnun landshlutaverkefnanna.   Á hverju ári var farið í fjárlaganefnd til að tala máli skógarbænda og nytjaskógaræktar. Félögin fimm gerðu þetta, ásamt stjórnarfólki stjórna landshlutaverkefnanna, sem oft á tíðum formaður Landssamtaka skógarbænda leiddi. Eftir að Landshlutaverkefnin voru lögð niður tók Skógræktin þennan hluta að sér og skógarbændur misstu sambandið við ráðamenn. Sömuleiðis settum við í skúffu Landssamtök skógareigenda og fólum stjórn bændasamtakanna að tala okkar máli, sem hefur því miður skilað þessum áranagri sem fellst í minnkandi fjármagni til bændaskógræktar. Við treystum því að nýr formaður SkógBÍ fái tækifæri að vinna að þessu brýna verkefni við að halda stjónvöldum upplýstum um mikilvægi nytjaskógræktar í landinu og að nægt fjármagn fáist til að markmið um bændaskóga náist.

 

Þarna er verk að vinna, mikilvægt verk sem verður að vinna og vinnast.

 

Undirritað:Björn Bjarndal Jónsson form. FsS

 

 

 

 

 

 

 

 

Gjaldkeri lagði fram reikninga og skýrði.

 

Fundurinn samþykkti þvínæst skýrslu stjórnar og reikninga.

             

 

b.       Kosningar

Kjósa á um tvo aðila í aðalstjórn.

Sólveig Pálsdóttir gefur áfram kost á sér í stjórn til þriggja ára.

Rafn A. Sigurðsson hverfur úr aðalstjórn og gefur kost á sér í varastjórn til eins árs.

Októ Einarsson kemur inn í aðalstjórn til þriggja ára, í staðinn fyrir Rafn.

Þórarinn Þorfinnsson hverfur úr varastjórn.

Rafn verður fyrsti varamaður, Agnes Geirdal annar varamaður og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir þriðji varamaður.

Lagt er til að áfram verði  sömu endurskoðendur, Ragnar G. Ingimarsson og Sigríður Heiðmundsdóttir.

Fundurinn samþykkir kosninguna.

 

c.       Árgjald félagsins

Á aðalfundi 2023 hækkaði árgjaldið úr 5000 krónum í 7500 krónur, gjaldkeri leggur til óbreytt félagsgjöld fyrir næsta starfsár.  Fundurinn samþykkir óbreytt félagsgjöld.

Bjarnheiður Guðmundsdóttir spyr hvort hluti af félagsgjaldinu fari til Bændasamtakanna eða rennur gjaldið allt til félagsins. Gjaldkeri svarar, félagar í Bændasamtökunum borga sitt gjald til samtakanna sjálfir en félagsgjald FsS fer að fullu til félagsins. Áður fóru tveir þriðju af félagsgjaldinu til LSE.

d.       Lagabreytingar

Tillaga um lagabreytingu, flutningsmaður er Októ Einarsson. Októ gerir grein fyrir tillögunni. Nú er gróðursetningartímabilið hafið og ekki góður tími til funda, tillagan gengur út á það að aðalfundur sé haldinn ekki síðar en 15. apríl ár hvert.  

Formaður styður tillöguna heilshugar. Ný stjórn þarf að skoða hvort réttur tími sé á laugardagsmorgni og hvaða fyrirkomulag henti best.  

Fundurinn samþykkir lagabreytinguna samhljóða.

e.       Almennar tillögur

 

Tillaga frá stjórn FsS:

Aðalfundur Félags skógarbænda á Suðurlandi haldinn á Hótel Stracta Hellu 4. maí 2024 skorar á stjórnvöld að standa við áætlanir um nytjaskógrækt á bújörðum. Mikill niðurskurður síðustu ára til samningsbundinna skógræktarverkefna á bújörðum kemur í veg fyrir að Land og Skógur geti staðið við  skuldbindingar til skógarbænda um allt land. Mikið er í húfi þar sem skógrækt á bújörðum er ein af forsendum kolefinsjöfunar í landinu  og uppbyggingu nýrrar auðlindar sem skógar landsins verða er fram líða stundir.

Formaður gerir grein fyrir tillögunni: Ef tillagan hlýtur samþykki fundarins verður hún send á deild skógarbænda Bændasamtakanna og hugsanlega send víðar. Tillagan á að vera hvatning til okkar að koma í veg fyrir árlegan niðurskurð síðan landshlutaverkefnin voru lögð af. Ríkið lækkar greiðslur árlega og er enn að því. Lækkunin er meiri en sem nemur verðbólgu.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

 

4.       Ávarp: Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður Skógardeildar BÍ

Hjörtur byrjar á að kynna sig. Býr í Þorlákshöfn og var kjörinn í vetur sem formaður SkógBí, kvæntur Hrönn Guðmundsdóttur.  Er með skógrækt á Læk í Ölfusi. Landið var örfoka, ísaldarjökulleir, rofabörð og móar. Fyrstu 10-15 árin gerðist ekkert en svo fór allt að gerast. Þar sem jarðvegur er erfiður og rýr tekur þetta tíma. Enginn lækur er að Læk.

Deildarfundur var í febrúar, mætti fólk frá öllum félögum. Land og Skógur er okkar samstarfsaðili. Búinn að vera að vinna í því að efla fjármagn í skógrækt á lögbýlum, taka fyrir í stjórn og funda með ráðherrum og þingmönnum og nefndum. Við þurfum að vera leiðinleg og gefa þeim ekki frið fyrir okkur. Þegar Landshlutaverkefnin voru við lýði voru svo margir sem lögðust á árarnar og þá gekk þetta betur, núna er það bara SkógBí sem er að djöflast í því að fá fjármagnið ásamt  Land og Skógi en þar innanbúðar eru svo mikið fleiri verkefni. Félögin geta hjálpað til, það er mýta að allt þurfi að fara í gegnum Bændasamtökin. Félögin geta líka unnið í þessum málum og hamrað á þessu. Stjórn Bændasamtakanna hefur verið á fundum og mikill skilningur innan samtakanna að herja á meira fjármagn. Óþolandi að fjármagnið skuli þynnast svona út. Krónutalan lækkar á milli ára.  Rökin okkar eru að svo víða um land eru skógar orðnir það stórir að það styttist í grisjun og umhirðu. Það þarf að vera hægt að koma stórum vörubílum inn í skógana, ef það er skorið niður til slóðagerðar  verður þetta ekki í lagi í framtíðinni og gríðarleg verðmæti sem fara í súginn. Mjög víða eru bara moldarslóðar, ófærir í rigningu. Nú er skógrækt á bújörðum í þeim fasa að það þarf að fara að nýta skóginn sem plantað var frá 1990 – 2010. Því þarf að setja fjármagn til að laga stíga svo þetta sé hægt.

Stefnumörkun, búið er að gera skoðanakannanir og grasrótin er spurð til að fá hugmyndir um stefnumörkun, hvetjum ykkur til að taka þátt í skoðanakönnunum.

SkógBí langar til að vera með í norðurlandasamtarfi en það kostar 200 þúsund krónur að gerast áheyrnarfulltrúi. Fullgild aðild kostar talsvert meira, Bændasamtökin taka vonandi að sér að borga fyrsta árið sem áheyrnarfulltrúi, svo þarf að fjármagna fulla aðild. Það ætlum við að sækja í gegnum rammaáætlun til ríkisins. 

Málþingið sl. haust heppnaðist gríðarlega vel, málþing í haust verður vonandi glæsilegt.

Verið er að skoða kolefnisbindingu í eldri skógum. Það var alltaf sagt að þetta væri ekki hægt, að selja einingar úr eldri skógum. Það er erfitt að skilja af hverju þetta er ekki hægt. Allt er þetta skráð nú þegar, uppá plöntu og dag, það hlýtur að vera hægt að finna leiðir til að finna núllpunkt og það sem vex eftir það ætti að vera hægt að selja. Kolefnisbinding er afurð skógarins, við sem eigum skógana hljótum að eiga allar afurðir hans. SkógBí er að skoða þetta með lögfræðingum. Það bendir allt til að hægt sé að laga þetta.

Félagsgjöldin í SkógBí, 30 þúsund á ári er í lægsta þrepi, það er með veltu undir 1,9 milljónir á ári. Það sem við fáum er rammasamningur upp á 18,5 milljónir, starfmaður, aðgangur að lögfræðingum, Bændablaðið heimsent.  Það er mikill ávinningur í að vera í SkógBí, eftir að LSE var lagt niður er SkógBí eina batteríið sem heldur uppi hagsmunum skógarbænda. Hvað ef við færum út, þá fengjum við ekki rammasamninginn.

 

Hverju höfum við áorkað:

Málþing

Ce útlitsflokkun á íslensku timbri svo það verði viðurkenndur burðarviður, er á lokametrunum.

Samstarf við marga, Land og Skóg, Húsnæðis og mannvirkjastofnun, arkitekta, skóla, stofnanir

Kolefnisbrúin, Butra er fyrsta verkefnið og er komið í gang, verið er að gróðursetja núna á fullu,  klárast vonandi í vor að planta í 20 hektara í gegnum Kolefnisbrúna.

 

Takk fyrir.

 

Fundastjóri opnar fyrir spurningar:

Bjarnheiður Guðmundsdóttir þakkar Hirti fyrir áhugaverða umfjöllun. Framfarir byggja á þekkingu og símenntun, Bændasamtökin hafa lagt niður starfsmenntasjóðinn sinn. Við viljum koma til skila gagnrýni á það og skorum á SkógBí að hlutast til.

Hjörtur svarar.  Er sammála þessu. Við sækjum fagþekkingu mikið til Lands og Skóga og við erum að djöflast í að fá aðild að norðurlandasamstarfinu því þar er þekking sem við fáum aðgang að. Starfsmenntasjóðurinn er styrktarsjóður þar sem bændur sækja um styrki til fræðslu og er fyrir alla bændur. Það er ljóður á ráði samtakanna að leggja niður þennan sjóð. Ekkert kom í staðinn.

 

5.       Starfið framundan

Formaður kynnir starfið framundan:

·     Jónsmessuganga FsS sem verður sunnudaginn 23. júní kl 14:00. Að þessu sinni verður farið í Haukadalsskóg þar sem gengið verður um neðsta hluta skógarins. Auðveld ganga.

·     Almennur félagsfundur með fræðsluefni snemma í haust.

·     Grænni skógar I  fara af stað 27. og 28. september

·     Í mars á næsta ári verður fræðslufundur í Heiðmörk í Reyjavík  í samstarfi í Skógræktarfélag Reykjavíkur. Áhersla; umhirða skóga, skógarnytjar og viðarvinnsla.

·     Nýr leshópur fer að stað í haust, ef næg þátttaka næst.

·     Skógarpósturinn mun verða sendur út.

·     Fésbókarsíða verður  uppfærð eða ný opnuð.

·     Unnið verður við verkefnið „Úr skógi“

·     Málþing Laugum Sælingsdal 11. október n.k.

·     „Jól úr skógi“ námskeið 25. október n.k.

 

 

6.       Umræður og önnur mál

Formaður greinir frá því að listi yfir stjórnarmenn FsS frá upphafi sé í smíðum.

Formaður þakkar Hrönn fundarstjóra og Ragnheiði ritara. Horfum björt til næsta starfsárs. ,,Úr skógi“  verður aðalverkefni ársins, það á eftir að fjármagna það en það er verkefnið sem framundan er. Þetta á eftir að skila árangri, viðbrögð hafa bara verið góð. Starf formanns næsta starfsár verður mikið til í þessu verkefni.

Formaður slítur fundi.

 

 

Ragnheiður Aradóttir, fundarritari






Comments


bottom of page