Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, haldinn að Reykjum í Ölfusi 29. apríl 2022, kl 15
Fundur settur.
Fundarstjóri og fundarritari kosnir.
Alls voru 37 manns mætt á aðalfundinum.
Björn B. Jónsson formaður FsS setti fund og bauð gesti velkomna. Hann minntist látinna félaga og bað menn að rísa á fætur. Hann bauð velkomna gesti fundarins, þá Hlyn Gauta Sigurðsson starfsmann Skógardeildar BÍ og Jóhann Gísla Jóhannson formann Skógardeildar BÍ.
Formaður tilnefndi Ísólf Gylfa Pálmason fundarstjóra og Sigríði J. Sigurfinnsdóttur fundarritara. Var það samþykkt samhljóða.
ÍGP tók við fundarstjórn.
Skýrsla stjórnar og reikningar félagsins
Björn flutti ársskýrslu stjórnar, og fylgir hún hér neðan við fundargerðina.
Reikningar áranna 2020 og 2021
Hrönn skýrði reikninga 2020 og 2021. Vegna mistaka við uppsetningu reikninga 2020 var ekki hægt að skýra þá og fá þá samþykkta á síðasta aðalfundi.
Skýrsla stjórnar og reikningar bornir upp til atkvæða og var allt samþykkt.
Reikningar beggja áranna eru neðan við fundargerðina.
Kosningar
Kjósa átti um 1 aðalmann í stjórn til 3ja ára. Það var Hrönn Guðmundsdóttir sem átti að ganga úr stjórn. Hún gaf kost á sér áfram. Ekki komu önnur framboð og var hún samþykkt með lófaklappi.
Ísólfur Gylfi óskaði eftir að hætta í stjórn og var því kosið um nýjan aðalmann til 2ja ára. Rafn A. Sigurðsson gaf kost á sér, ekki komu fleiri framboð og var það samþykkt.
Þá voru kosnir 3. varamenn til 1 árs. Þessi gáfu kost á sér og voru þau samþykkt. Agnes Geirdal, Þórarinn Þorfinnsson og Ragnheiður Aradóttir, en hún kemur ný inn í stjórn.
Skoðunarmenn reikninga voru kosnir til 1 árs. Tilnefnd og samþykkt voru: Ragnar G. Ingimarsson og Sigríður Heiðmundsdóttir.
Upplýst var um það á fundinum að fulltrúi í stjórn Skógardeildar Bændasamtakanna er Hrönn Guðmundsdóttir.
Árgjald félagsins
Lagt til að árgjald verði 5 þúsund kr. sem er óbreytt frá fyrra ári.
Tillaga kom um að hækka árgjaldið í 6 þús. Umræða var um það, og þótti sumum óþarfi að vera að hækka, því góður sjóður er til.
BBJ sagði eftir fyrirspurn þar um, að við séum búin að eyða 300 þús í stefnumörkunina, og þurfum að eyða öðru eins.
Staðan sé góð, en hluti af eignum á að fara í afurða og markaðsmál.
Tillagan var dregin til baka.
Samþykkt 5 þús kr í árgjald.
Hallur Björgvinsson ráðgjafi Skógræktarinnar, fór yfir gróðursetningar vorsins og það helsta sem er á döfinni hjá Skógræktinni
Plöntusamningar Skógræktarinnar 2022, hljóðuðu upp á 6,3 milljón plöntur. Þar af fara 2,3 millj til Suðurlands.
Af því fara 620 þús plöntur til skógarbænda, en á síðasta ári plöntuðu sunnlenskir skógarbændur 777 þúsund plöntum, þannig að það er fækkun frá síðasta ári. Hekluskógar, Þorláksskógar og önnur verkefni á vegum Skógræktarinnar fá 1,7 millj. plantna.
Frést hefur af afföllum hjá framleiðendum nú í vor. Vonir eru til að góð afhending á plöntum skili sér í haustgróðursetningu.
Skógræktin hefur undanfarin ár keypt 75-95% framleiðslunnar en ný staða er komin upp þegar stór verkefni og einkaverkefni vilja rækta skóg með kolefnishugsjónina að leiðarljósi, og eru þar buissness menn á ferð. Framleiðendurnir í Sólskógum og Kvistabæ eru að stækka við sig og líkur á að ný stöð fari af stað.
Á Suðurlandi eru 86 virkar samningsjarðir, þar af 53 í skógrækt og 33 í skjólbeltarækt. Hlutfall trjátegunda skiptist þannig að stafafura er 27%, birki 25% og alaskaösp 24%. Lauftré eru nálægt helmingur á móti helming barrtrjáa.
Þessi skipting hefur verið svipuð síðustu árin, en greni var stærri hluti.
Varðandi millibil plantna í skógum bænda, þá þarf að taka hringmælingar af og til og laga ef plantað hefur verið of þétt, en það er nokkuð algengt að sé gert. Þá þarf að saga niður umframplöntur og ekki bíða með það of lengi. Mörkin eru að það eiga að vera 2500pl/ha. Það þarf að passa vel upp á þetta.
Hallur var spurður hvort einhverjar breytingar yrðu varðandi dreifingarstöðvar. Sagði hann það ekki vera.
Einnig var spurt hvort skógarbændur hafi forgang fram yfir ríkið?
Hallur telur það ekki vera, það er skorið niður hjá öllum.
Andrea Rafnar ráðgjafi í stefnumótun kynnir vinnu við framtíðarstefnu FsS
Andrea kynnt. Sagði hún frá vinnu sinni, sem hún kallar: Fræ til framtíðar.
Hún hefur verið að aðstoða stjórnina við að móta framtíðarstefnu félagsins.
Í byrjun febrúar hélt stjórn vinnufund með hugarflæði og í apríl, þegar leshóparnir hittust fyrst, þá var unnið með þeim. Því miður komu færri en við áttum von á á leshópafundinn. Við höfum lika hist á nokkrum fjarfundum. Ætlum næst að hittast í maí og aftur seinni partinn í ágúst.
Stefnan er síðan að kynna drög að framtíðarstefnu félagsins fyrir skógarbændum annars staðar á landinu í október.
Góðir hlutir gerast hægt, og mikilvægt að taka réttar ákvarðanir, og ekki ana að hlutunum.
Þarf að forgangsraða.
Andrea fór yfir það hvað stefnumótun er, hvar erum við, hvert stefnum við og hvernig ætlum við að komast þangað.
Fyrsti fasi er gildi, hlutverk/tilgangur, og svót greining.
Annar fasi er framtíðarsýn og markmið.
Þriðji fasi er síðan aðgerðir.
Andrea fór yfir hvernig vinnan var við hugarflæðið, hvernig við unnum að framtíðarsýn, hvernig viljum við sjá félagið okkar eftir 3, 5 eða 10 ár.
Svót greining er til að meta stöðuna eins og hún er í dag, styrkleikar, veikleikar, tækifæri og ógnanir.
T.d. getum við skoðað út frá því, hvernig við getum nýtt styrkleika okkar sem tækifæri.
Við þurfum að setja okkur markmið, skýr, mælanleg, raunhæf, tímasett, og aðgerðamiðuð.
Síðan stillum við upp aðgerðaáætlun. Þegar loks kemur að innleiðingunni hjá fyrirtækjum eða félögum, eftir svona vinnu, þá vill það oft misheppnast, og mikilvægt er að einhver sé ábyrgur fyrir framhaldinu.
Eftir það verður vonandi hægt að boða til almenns félagsfundar um stefnumótunina og bjóða öllum sem áhuga hafa upp á að taka þátt í vinnunni.
Lagabreytingar og tillögur
Stjórn gerir eftirfarandi tillögur að lagabreytingum;
1. grein laganna var þannig:
Félagið heitir Félag skógareigenda á Suðurlandi. Félagssvæði þess er Suðurland og Reykjanes.
Greinagerð: (nafni félagsins var breytt fyrir nokkrum árum, en var ekki fylgt eftir. Lagt er því til að nafn félagsins verði eins og það var upphaflega, þ.e.a.s. Félag skógarbænda á Suðurlandi).
Breytingatillagan var samþykkt og er því 1. grein laganna þannig:
1. grein
Félagið heitir Félag skógarbænda á Suðurlandi. Félagssvæði þess er Suðurland og Reykjanes.
3. grein laganna var þannig: Markmið félagsins eru: a) Að vera samtök og málsvari þeirra, sem áhuga hafa á að vinna að skógrækt og ræktun nytjaskóga á félagssvæðinu. b) Annast samskipti og samningagerð fyrir hönd félagsmanna við þá aðila sem félagsmenn óska eftir og tilefni er til. c) Að sjá til þess að félagsmenn eigi kost á fræðslu og leiðbeiningum í skógrækt eins og þörf er á á hverjum tíma. d) Að leita markaða fyrir skógarafurðir.
Breytingatillagan var samþykkt og er því 3. grein laganna þannig:
3. grein Tilgangur félagsins er: a) Að vera samtök og málsvari þeirra sem áhuga hafa á að vinna að hvers kyns trjá- og skógrækt og ræktun nytjaskóga og skjólbelta á félagssvæðinu´
b) Að tryggja að félagsmenn eigi kost á/hafi aðgang að fræðslu og leiðbeiningum í skógrækt, umhirðu skóga, vinnslu og nytjar eins og þörf er á á hverjum tíma.
c) Annast samskipti og samningagerð fyrir hönd félagsmanna við þá aðila sem félagsmenn óska eftir og tilefni er til.
d) Að horfa til framtíðar og styðja og hvetja til hvers kyns vinnslu skógarafurða.
Stjórn lagði fram eftirfarandi tillögur fyrir aðalfund 2022
1. Aðalfundur FsS haldinn að Reykjum 29. apríl 2022, skorar á stjórn félagsins að halda áfram vinnu við stefnumótunarvinnu fyrir félagið, sem lögð verði fram á næsta aðalfundi til samþykktar.
2. Aðalfundur FsS haldinn að Reykjum 29. apríl 2022, hvetur félaga FsS að mæta vel á fræðaþing og árshátíð skógarbænda sem verður haldið í Reykholti í Borgarfirði 22. október n.k.
Greinagerð:
Öll félög skógarbænda á landsvísu hafa ákveðið að halda árlegt fræðaþing og árshátíð skógarbænda.
Skógarbændafélögin munu halda þessa samkomu til skiptis. Fyrst vesturland 2022, vestfirðir 2023, norðurland 2024, austurland 2025 og suðurland 2026.
3. Aðalfundur FsS haldinn að Reykjum 29. apríl 2022, skorar á menntamálaráðherra að tryggja framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum til framtíðar.
Greinagerð.
Garðyrkjuskólinn á Reykjum hefur verið miðstöð grunn- og endurmenntunar fyrir skógarbændur á landsvísu síðustu áratugi. Mikil þekking og reynsla er því til staðar á Reykjum sem mikilvægt er að tryggja að haldist þar til framtíðar.
Tillögurnar voru allar samþykktar án athugasemda.
Aðrar tillögur
Aðalfundur FsS haldinn að Reykjum 29. apríl 2022, skorar á aðalfund LSE, sem halda á 16. maí n.k., að tryggja að allir félagsmenn í LSE eigi sama rétt til að gegna trúnaðarstörfum fyrir samtökin. Þar eru margir skógarbændur sem ekki eru í bændasamtökunum og einkennilegt að þeir sem ekki eru þar inni hafa ekkert um LSE að segja.
Sólveig Pálsdóttir skógarbóndi
Agnes styður tillöguna og hvetur fólk til þess líka.
Jóhann Gísli, formaður skógardeildar:
Þegar skógarbændur samþykktu að fara inn í Bændasamtökin var sett skilyrði að LSE yrði sett í „skúffu“ í þrjú ár meðan reynslutími á starf Skógrdeildar BÍ væri í gangi. Ef þetta hefði ekki verið samþykkt þá hefði það verið eriðara að framkvæma þessa breytingu.
Í rammasamningi eru 14 millj. í ár, helmingur fer til kolefnisbrúarinnar, Ef það hefði gerst þannig að LSE hefði fellt það að ganga í BÍ, hefði LSE sennilega ekki fengið neinn pening. Félagsgjald er 15 þús á ári.
Bændasamtökin hafa verið með 1 mann að vinna að málum skógarbænda, og eru mest að byggja upp kolefnisbrúna. Alls kyns fléttur, því margir vilja koma inn í þessi kolefnismál.
Hann hvetur alla til að ganga í bændasamtökin.
Umræða skapaðist um kolefnismál og peningamál í kring um það.
Ísólfur Gylfi spyr, viltu útskýra af hverju eigum við að ganga þarna inn?
JG Við höfum heilmikinn stuðning af öðrum greinum, ýmsar tengingar þarna inni, við komum miklu sterkari út í gegn um ráðuneytin. Á eftir að verða enn öflugra. Okkar stærsti galli er hvað við erum fá þarna inni.
Agnes. af hverju erum við svona fá þarna inni. JG erfitt að vita.
Jóhanna. Talað um að LSE verði skúffufélag í 3 ár, og hvað þá með peningamálin ef LSE verður lagt niður.
JG Þá ganga fjármunirnir til félaganna í hlutfalli við fjölda félaga
Agnes, félagar eru tortryggnir af því að félagslegu tenglsin hverfa.
Sigurður í Ásgerði. Samþykkir tillöguna, því hann segir að við eigum að vera sjálfstæð.
Jóhann Gísli; hann veit ekki hvernig allt verður ef ekki fjölgar í Bændsamtökunum.
Rafn. Þetta þarf að kynna betur.
JG Kynning gekk ekki eins vel og skyldi og er hægt að kenna covid þar um. Ekki var hægt að halda almenna kynningarfundi, nema á netinu.
Tillagan var borin upp og samþykkt með 9 atkvæðum en 3 voru á móti. All margir greiddu ekki atkvæði.
Leshópar FsS. Starf hópanna kynnt
Sigríður J. Sigurfinnsdóttir kynnti og sagði frá leshópunum.
Mælti hún með bókinni; Skógarauðlindin fyrir þátttakendur og fyrir skógarbændur almennt.
Björn B. Jónsson segist hafa fengið fyrirspurnir um hvort verði fleiri hópar, og upplýsir hann að það sé jafnvel möguleiki á einum hóp í viðbót.
Skógardagur og Jónsmessuganga
Björn B. Jónsson kynnti þá hugmynd að Jónsmessugangan yrði etv. í Þórsmörk að þessu sinni og það yrði þá dagsferð.
Einnig sagði hann frá því að skógardagur sem átti að vera í fyrra sé sannarlega enn á dagskrá, það sé magnað að halda svona dag. Planið er til og við reynum næsta haust að fara svona skógardags-ferð.
Skógardeild BÍ - Hlynur Gauti Sigurðsson starfsmaður BÍ
Gaman að sjá hvað mikið er að gerast hjá FsS, starfið hennar Andreu er magnað.
Fór yfir það hverjir eru í stjórn Skóg-BÍ (starfsheiti Skógardeildar Bændasamtakanna) núna, Jóhann Gísli Jóhannsson, Sigrún Þorsteinsdóttir, Guðmundur Sigurðsson, Hrönn Guðmundsdóttir og Sighvatur Jón Þórarinsson.
Verkefnin eru mörg og margvísleg. Skógarbændur skráðir í BÍ voru 149 um áramót og núna eru 178 félagar. Það er hlustað á okkur innan bændasamtakanna, þó við séum fá.
Bændasamtökin vilja hafa skógarbændur með í BÍ, því það eru þó nokkur atriði sem tengjast skógrækt beint. Skógrækt á heima með öllum búgreinum.
Bændasamtökin sættust á að hækka ekki árgjöld, því skógarbændur hafa litlar tekjur.
Hlynur sagði frá ýmsu sem er framundan;
Má þar nefna. Elmia wood, landbúnaðarsýninguna 14. okt og samkomu skógarbænda á landsvísu 22. okt. Hann vill sjá fleiri skógarbændur koma inn í bændasamtökin.
Skýrslan; “Horft fram á við” er mikilvægt innlegg.
Einnig það að unnið er að svansvottun, og ekki útilokað að vottunin muni ná yfir íslenskt timbur í framtíðinni.
Þá ræddi hann um plöntuframleiðslu, endurmenntun og samvinnu við skógræktina.
Einnig sagði hann frá Kolefnisbrúnni, en LSE á 51 % í henni.
Öll markmið Sameinuðu þjóðanna sameinast undir merkjum Kolefnisbrúarinnar.
Við erum að leggja upp í eflingu landbúnaðar með möguleikum á sölu kolefnisbindingar.
Kolefnisbrúin gengur út á það að binda kolefni úr andrúmsloftinu með trjám.
Nú er það að gerast að efnamenn, eða stórfyrirtæki vilja rækta skóg, og binda kolefni. Hafa jafnvel áður mengað og vilja núna hreinsa til eftir mengunina.
ÍG spyr á ekki ríkið kolefnisbindinguna eftir ríkisstyrkta skógrækt eins og Suðurlandsskóga ?
Svar, jú. Ekki er hægt að nota gömlu skógana í þetta. Það er ljóst.
En í nýskógrækt getur verið um að ræða sölu á kolefni.
Hlynur fór yfir ýmis mál varðandi vottun og hvernig þau mál eru að þróast.
Starfið framundan og önnur mál
Hrönn, fyrir hönd stjónar, þakkar Ísólfi Gylfa fyrir samstarfið. Hrönn sagði að stjórnarmenn ættu eftir að sakna hans, hann sér líka alltaf spaugilegu og skemmtilegu hliðarnar á öllum málum. Hann fékk Sýrenu að gjöf frá félaginu.
Ísólfur Gylfi þakkaði fyrir sig og samstarfið.
Björn B. Jónsson þakkar fundarstjóra fyrir góða fundarstjórn og góða veru í stjórninni. Jafnframt bauð hann Rafn velkominn til starfa í aðalstjórn.
Hlakkar til næsta árs og hausts, því margt skemmtilegt er framundan.
Það verður gaman ef við getum farið inn í Þórsmörk, og haft skógardag í haust.
Spenntur að framkvæma það sem framundan er.
Björn þakkar fyrir fundinn í dag og vonar að allir eigi góða heimferð.
Fundarslit kl 17:30
Sigríður J. Sigurfinnsdóttir
Comments