top of page

Aðalfundur FSV 2021


Félag skógarbænda á Vesturlandi Aðalfundur 15.apríl 2021



Fundargerð:

Aðalfundur FsV var haldinn í húsnæði Skógræktarinnar á Hvanneyri og á Teams þann 15.apríl 2021.

Fundarstjóri og tæknimaður : Valdimar Reynisson

Fundarritari: Sigurkarl Stefánsson

Á fundarstað voru líka: Bergþóra Jónsdóttir formaður, Guðmundur Sigurðsson fráfarandi gjaldkeri og Guðmundur Rúnar Vífilsson fulltrúi FsV í Landsamtökum Skógareigenda (LSE)

TEAMS tengd voru um 20 félagar.

Farið var eftir áður útsendri dagskrá sem barst fundarmönnum tímanlega þannig að fundurinn telst löglegur.


1. Skýrsla formanns Bergþóru Jónsdóttur:

Óvenjulegt ár að baki. Þrátt fyrir COVID náðist að halda aðalfund 2020 í smá veirulægð. Einnig náði stjórnin að funda nokkrum sinnum.

Loftlagsmál eru þó mál málanna og tengist það okkar málum eins og m.a. kom fram í hinu ágæta blaði ,,Við Skógareigendur“ . Ýmsir möguleikar virðast vera að opnast varðandi bindingu kolefniseininga en þá þarf vottun að liggja fyrir. Ferlið í skógarkolefninu og kolefnisbrú er svipað. Allt undirstrikar að skógrækt sé mikilvægur þáttur í að ísland verði kolefnishlutlaust.

Vaxandi áhugi er á skógrækt og liggja fyrir margar umsóknir. Skipulagsmál flækja stundum málin og rakti Bergþóra stuttlega dæmið hjá Jakobi Kristinssyni á Hóli í Hvammsveit sem tókst eftir talsvert þóf að leggja Dalabyggð í kærumáli þar um.

Bergþóra er bjartsýn á komandi sumar og vonar að náist að halda upp á afmælið 23. júní og svo árshátíð í haust.


2. Reikningar félagsins:

Guðmundur Sigurðsson hafði sent þá á alla félaga fyrir fundinn. Afkoman er góð enda litlu hægt að eyða á COVID tímum. Alls eru eignir 724.740. Voru reikningar samþykktir.


3. Kynning á sameiningu búgreinarfélaga í Bændasamtök Íslands:

Jóhann Gísli Jóhannsson formaður LSE og Hlynur Gauti Sigurðsson framkvæmdastjóri LSE, kynntu marga fleti á því máli. J.G. taldi ávinning aðildar fyrir skógarbændur mikinn.Þar á meðal vegna hagstæðra skilyrða í sambandi við Kolefnisbrú. Skógarbændur yrðu deild/svið innann BÍ með fulltrúa frá öllum landshlutum. Hver deild sér um hluta af sínum fjármálum en stærri mál þarf að leggja fyrir aðalstjórn BÍ. Ef stór hluti skógarbænda gengur í BÍ þá geta þeir haft mikil áhrif innan samtakanna. Lægsta félagsgjald verður 20.000 kr og hentar það sennilega meiri hluta þeirra sem eingöngu eru skógarbændur en eru ekki í öðrum búgreinum. Í LSE eru 658 félagsmenn, þar af eru 198(30.1%) nú þegar í BÍ. Hætt er við að skógarbændur utan BÍ verði dálítið afskiptir. Fundarmenn báðu J.G. um að taka saman skriflega punkta um sameiningarmálin.


4. Skógræktin, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir:

Hún sagði heimsóknir til landshlutafélaga hafa gefist vel m.a. til Rúnars á Ferstiklu s.l. sumar. Landsáætlun í skógrækt er í vinnslu , hægt að skoða á skógargátt. Á síðasta ári voru gróðursettar 2.1 milljón plantna í skógrækt á lögbýlum. Þetta var heldur minna en vonir stóðu til m.a. vegna affalla á Lerki og Furu. Sumaráætlunin er upp á 2.8 milljónir plantna, þar af 940.000 á Vesturlandi og Vestfjörðum. Plöntueftirleit hefur verið bætt. Dreifingastöðvar þær sömu og í fyrra. Á Vesturlandi koma um 6 millj. kr. í slóðagerð og einhverjar upphæðir í umhirðu og skjólbelti. Jarðvinnsla er meiri á Vestur Landi en víða annars staðar. Yfirleitt er ekki mjög þétt plantað þar þ.a.er ekki mikil þörf fyrir snemmgrisjun. Samningum hefur fjölgað. Starfsstöð flyst frá Hvanneyri að Hvammi í Skorradal í sumar. Þar verða Ellert, Sæmundur, og Valdimar. Hraundís, Sigríður Júlía og Valgerður Jónsdóttir vinna í öllum landshlutum. Þá hafa verið skipulagsbreytingar m.a. vegna styttingar vinnuviku. Aukinn áhugi er á skjólbeltaræktun, þá á að skoða girðingamál ríkisins með hnitsetningu í huga.


5. Ákvörðun félagsgjalda:

Guðmundur gjaldkeri leggur til lækkun árgjalds í 4000 kr. ef við göngum í BÍ. Þetta er með fyrirvara um inngönguna. Samþykkt með meiri hluta atkvæða.


6. Kosning í stjórn:

Uppstillinganefndin, Halla og Hraundís lögðu til:

Aðalmenn: Bergþóra Jónsdóttir og Sigurkarl Stefánsson verða áfram í stjórn. Guðmundur Sigurðsson hættir. Laufey Hannesdóttir kemur inn.

Varamenn: Jakob K. Kristjánsson, Þröstur Theodórsson. Guðmundur Rúnar Vífilsson.

Skoðunarmenn: Aðalskoðunarmenn: Haraldur Magnússon og Guðmundur Sigurðsson.

Varaskoðunarmaður: Siguroddur Ragnarsson.

Bergþóra þakkaði stjórnarmönnum og endurskoðendum unnin störf. Þeim sem láta af störfum verður þakkað betur síðar.


7. Önnur mál:

Valdimar Reynisson: Minnti á að bíða ekki of lengi með snemmgrisjun sérstaklega með lerki og furu, á við þegar trén eru um 4-5 m há.

Bergþóra: Mælir með inngöngu í BÍ. Gott væri að gera skoðanakönnun meðal félagsmanna.

Borin var upp tillaga að ályktun aðalfundarins varðandi inngöngu í BÍ:,, Samþykkt aðalfundar FsV 15.apríl 2021:

,,Aðalfundur Félags skógarbænda á Vesturlandi, haldinn á Hvanneyri og á TEAMS 15. apríl 2021. Samþykkir: Að veita stjórn FsV fullt umboð til að samþykkja inngöngu Landsamtaka Skógareigenda (LSE) í Bændasamtök Íslands (BÍ)“

F.h. stjórnar: Bergþóra Jónsdóttir, formaður FsV „

Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Guðmundur Sigurðsson: Þakkaði fyrir liðin ár og starfið með félaginu. Hvetur til öflugs félagsstarfs , sumarferðar og árshátíðar í haust,þegar færi gefst vegna COVID.


Fundi slitið kl 20.02

Sigurkarl Stefánsson


Comentarios


bottom of page