top of page

Ertu að hugsa um að kolefnisjafna þig?

Síðustu misseri hafa kolefnismál verið töluvert í umræðunni. Mörg ríki heims hafa sett sér mjög metnaðarfull markmið varðandi það að draga úr losun kolefnis útí andrúmsloftið og er það hið besta mál. Við þurfum hins vegar öll að gera okkur grein fyrir því hvað það er mikilvægt að við hefjum öflugar aðgerðir strax og fyrsta skref okkar á að vera að draga eins mikið úr losun og við mögulega getum. Þetta á bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Óraunhæft er við núverandi aðstæður að draga alveg úr losun og því þurfum við að grípa til mótvægisaðgerða. Þar kemur kolefnsbinding með skógrækt sterk inn.


Við, sem viljum ekki bara komast í núllið heldur komast yfir það, horfum því með jákvæðum augum til skógræktar sem bestu lausnarinnar hérlendis við bindingu kolefnis. Skógrækt hefur markvisst verið stunduð hér á landi í áratugi og mikið er til af góðum rannsóknum sem geta sýnt fram á kolefnisbindingu trjáa. Einnig er hægt að styðjast við þessar rannsóknir og áætla með nokkurri nákvæmni bindingu næstu ára og áratuga. Þessar rannsóknir sýna vel þá miklu bindigetu sem skógarnir búa yfir. Það má líka geta þess að skógar af öllum stærðum í öðrum löndum eru að gera mjög góða hluti við að hreinsa andrúmsloftið og má þar t.d. nefna Amzon skóginn, sem stundum hefur verið kallaður lungu jarðarinnar.


Fólk og fyrirtæki hafa með aukinni umhverfisvitund, farið að horfa til þess hvernig þau geta dregið úr sinni losun, minnkað kolefnissporið sitt. Margir eru orðnir mjög góðir í því að flokka og fyrirtæki eru byrjuð með „grænt-bókhald“ og gera metnaðarfullar umhverfisskýrslur. Ein leið til þess að koma sér „í núllið“ (eða yfir núllið) er að fjárfesta í kolefniseiningum. Þá er búið að reikna út losun, oft yfir ákveðið tímabil og hægt að kaupa sér kolefniseiningar fyrir því sem uppá vantar.


Hérlendis er markaður með þessar einingar frekar vanþróaður. Í dag er hægt að fá lausnir sem hafa lítinn rekjanleika og eru óvottaðar. Það er t.d. í boði sumstaðar að kolefnisjafna ákveðnar ferðir, bensínlítra og ýmislegt fleira. Það er mikilvægt að huga að heiðarleika gagnvart heimkynnum okkar, jörðinni, og ekki síður okkur sjálfum þegar við ætlum að kolefnisjafna okkur og að við kaupum einingar af ábyrgum aðilum, sem byggja sitt verkefni á rannsóknum og hafa sýnileika. Öryggi og traust er hér eitt af lykilatriðunum. Við kaup á kolefniseiningum er því mikilvægt að fólk og fyrirtæki spyrji sig þeirra spurninga hvort að verkefnið sem það er að kaupa af sé trúverðugt, hvort að nægar rannsóknir liggi að baki kolefnisbindingunni og hvort að peningurinn skili sér ekki örugglega í kolefnisbindingu.


Með því að vafra aðeins um Netið, þá er hægt að nálgast upplýsingar um þónokkuð mörg verkefni sem bjóða uppá kolefnisbindingu. Líklegt er að fleiri verkefni komi til með að bjóða uppá þessa leið af kolefnisjöfnin í náinni framtíð eftir því sem umhverfisvitund verður sterkari. Ef þú ert í þessum hugleiðingum, þá er gott að kynna sér verkefnið vel sem býður uppá kolefniseiningar og velja vandlega.


Kostir þess að fjárfesta í kolefniseinginum með skógrækt eru fjölmargir, fyrir utan hversu tré eru öflug að binda kolefni. Stefnt er að því að fljótlega verði hægt að votta kolefniseiningar sem „framleiddar“ eru með skógrækt. Með skýru og ströngu útektar og vottunarferli verður hægt að rekja einingarnar og ganga úr skugga um að þær séu örugglega til staðar. Þetta þýðir þá að ef þú fjárfestir í vottuðum kolefninseiningum, þá getur þú verið alveg viss um að þær eru að skila sínu í því að efla umhverfið okkar.


Það eru spennandi tímar framundan í kolefnismálum. Við þurfum öll að leggjast á eitt með að draga úr losun og fjárfesta í kolefnisbindingarverkefnum sem starfa af ábyrgð. Skógrækt er leiðandi á heimsvísu varðandi kolefnisbindingu og mikil tækifæri eru hérlendis við að byggja upp öfluga skóga sem binda kolefni með nokkuð einföldum hætti. Með því leggjum við okkar af mörkum við að kolefnisjafna okkur, og jafnvel koma okkur í plús.


Hafliði Hörður Hafliðason

Verkefnisstjóri Kolefnisbrúarinnar



Comentarios


bottom of page