„Það er umtalsvert búið að leggja til kolefnisjöfnunar núna,“ segir Jón Kristófer Arnarsson, garðyrkjusérfræðingur og dómari gróðursetningarkeppni í Ölfusi. Hann vonar að úr verði stór og mikill skógur. Keppnin var haldin í fyrsta sinn á dögunum en verður eflaust að árlegum viðburði.
Slegið var til trjáplöntunarkeppni í Ölfusi. Kolefnisbindingarkeppni mætti líka kalla hana því tilgangurinn er að hvetja til kolefnisbindingar með trjárækt. Í keppninni leiða saman (tré)hesta sína atvinnumenn í skógrækt og áhugafólk.
Þrjú lið kepptu til sigurs en atvinnumennirnir voru á vegum Skógrækarfélags Íslands og Félags garðplöntuframleiðenda en áhugafólkið var starfsfólk Plöntusamtaka Íslands.
Verði að árlegri keppni Jón Kristófer segir daginn hafa verið vel heppnaðan. Hann hafi í raun ekki átt erfitt með að dæma. „Þetta var svo jákvætt og skemmtilegt fólk sem tók þátt, það lögðu sig allir fram.“ Þá segir hann ástæðu til að halda slíka keppni árlega og þá jafnvel fá mismunandi hópa til þess að taka þátt. Til dæmis nefnir hann að gaman væri að sjá sveitarstjórnir og þingmenn takast á í trjágróðursetningu.
Allir geti lagt sitt af mörkum Erla Hjördís Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Þinn garður - þín kolefnisbinding, segir keppnina snúast um að hvetja bændur og almenning til að gróðursetja í þeim tilgangi að kolefnisjafna sig. Þá sé átt við tré, runna, blóm og matjurtir en allt bindur þetta kolefni. Erla segir að tilgangurinn sé að sýna fram á að allir geti lagt sitt af mörkum í loftslagsmálum. Matjurtir séu líka mikilvægt innlegg því það sem sé ræktað heima sparar innflutt matvæli. Komið er í veg fyrir kolefnislosun sem innflutningi fylgir.
Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.
Comments