top of page

Jónsmessuganga í Haukadalsskógi

Jónsmessuganga í Haukadalsskógi

 

Sunnudaginn 23.júní var árleg Jónsmessuganga Félags skógarbænda á Suðurlandi. Að þessu sinni var gengið um skóginn í Haukadal, fallegan og fjölbreyttan skóg sem byrjað var að planta í laust fyrir miðja síðustu öld. Það var danskur maður, Kristian Kirk, sem hafði keypt jörðina og gaf hana Skógrækt ríkisins árið 1940.


Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur á Suðurlandi og þar er aðstaða til útuvistar mjög góð. Mikið er af góðum göngustígum í fallegum skóginum og á þremur stöðum er grillaðstaða með borðum og bekkjum auk snyrtiaðstöðu.


Böðvar Guðmundsson, sem um langt árabil var skógarvörður í Haukadal, leiddi gönguna og fræddi göngufólk um sögu staðarins og gróður og var sérlega gaman og fróðlegt að hlusta á hann segja frá. Fór hann í stuttu máli yfir sögu Haukadals frá því stuttu eftir landnám til vorra daga. Síðan sagði hann frá gróðursetningum í skóginum og frumkvöðlum skógræktar á svæðinu. Böðvar er sjálfsagt sá maður sem þekkir sögu skógræktar í Haukadal best og var því sérstaklega gaman að fá hann til liðs og taka að sér að leiða gönguna.


Víða hefur verið komið upp minnisvörðum um frumkvöðlana og þá sem ruddu braut skógræktar í Haukadal og gaman að kynnast þeirri sögu. Meðal annars er stytta af Kristian Kirk við innkomu í skóginn og einnig er að finna minningarsúlur sem Guðjón Kristinsson listamaður hefur skorið meistarlega út í tré.


Að lokinni göngu var boðið uppá ketilkaffi og volgar kleinur að skógarmanna sið og fólk spjallaði og naut samveru í fallegum skógarlundi.


Höfundur: Björn Bjarndal Jónsson

Kaffiumræður í Haukadalsskógi


Skógarkaffi fær fólk til að tala


Hundar ræða um á hvaða tré sé best að pissa á.


Sigurður og Björn

Böðvar Guðmundsson


Minningarsúla í Haukadalsskógi eftir Guðjón Kristinsson.

Myndir tók Jóhanna Róbertsdóttir




Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu, 26.júní 2024


Comments


bottom of page