top of page

Málþing á Varmalandi, samantekt BBL




Skógur er matarkista

Umfjöllun um málþing skógarbænda á Varmalandi

– Fyrri hluti.


Víða var komið við á vel sóttu málþingi skógarbænda sem haldið var að Þinghamri á Varmalandi í Borgarfirði laugardaginn 14. október síðastliðinn. Í þessari grein verður sagt frá fyrri hluta þingsins sem fjallaði um matvæli sem hægt er að hafa í og af skógi. Í næsta Bændablaði má vænta umfjöllunar um seinni hluta þingsins sem gekk út á skógarumhirðu og gagnvið. Fyrir áhugasama má nálgast frekari upplýsingar um málþingið undir fréttir á skogarbondi.is þar sem meðal annars er aðgengilegur hlekkur á myndupptöku af Youtube síðu Bændasamtaka Íslands

Samstaða

Þemu málþingsins voru tvö, þ.e. „matur úr skóginum“ og „umhirða skógarins“. Áður en komið var að fræðsluerindum bauð Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður búgreinadeildar skógarbænda, gesti velkomna á málþingið og lýsti gleði sinni með að skógarbændur væru aftur komin saman til að vera með á viðburði sem þessum. Honum var í sínum opnunarorðum hugleikið hversu mikilvægt það væri að að bændur stæðu saman og minntist á hvimleitt orðaskak bænda á milli vegna íhaldssamra búskaparhátta. Nær væri ef bændur ættu samræður en væru ekki í eltingarleik við laganna bókstaf, en svo virðist sem einmitt sá bókstafur sé valdur að óþarfa ágreiningi milli búgreina.


Meiri samstaða

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, kom einnig inn á þessi vandræði og sammæltust formennirnir, hann og Jóhann Gísli, um að þessi kurr yrði ekki leystur með einhverju skóhorni í aflögðu fjárhúsi heldur yrði að gera það með víðtækri sátt. Að öðru leyti sagði Gunnar frá fjölbreyttu starfi sem starfsmenn Bændasamtakanna vinna dags daglega. Hann sagði meðal annars frá stóru verkefni sem snýr beint að loftslagsmálum og senn kemur að því að Kolefnisbrúin taki til starfa á sínu sviði. Að lokum sagði hann frá ömurlegu ástandi í landinu vegna skipulagsmála.


Frumbyggjahyggjar

Í erindi Þrastar Eysteinssonar, skógræktarstjóra, sem flutt var af Aðalsteini Sigurgeirssyni, fagmálastjóra Skógræktarinnar, var einnig komið inn á skipulagsmál en frá hinum endanum. Það er nefnilega þannig að skipulagsmál eru mannanna verk; byggð á ábúðarfullum ákvörðunum valdamanna hverju sinni. Náttúran er lítið að skipta sér af skipulagsmálum og allra síst á umbreytingartímum loftslags eins og flestir sérfræðingar sammælast um að nú séu í loftinu. Í erindi Þrastar var kynnt til sögunnar nýyrðið „frumbyggjahyggja“ þar sem átt er við að manneskjan á það til að setja merkimiða á allt, ólíkt náttúrunni. Það lýsir sér til að mynda í þröngsýninni við að skipuleggja inn í framtíðina eftir því hvernig hlutirnir voru áður, en ekki eins og náttúran þróast. Staðarefniviður er sem sagt sjaldnast heppilegasta hráefnið.


Sjálfbærni

Eygló Björk Ólafsdóttir, matvælaframleiðandi hjá Móður Jörð í Vallanesi á Fljótsdalshéraði, sagði frá lífrænum búskap og ræktun í skjóli skóga og skjólbelta. Ræktarlandið í Vallarnesi er um 70 hektarar og er skýlt af 230 hektara skógi og skjólbeltakerfi sem telur um 9 kílómetra. Matvæli þeirra eru seld um land allt og nemur magn þeirra 120 tonnum á ársgrundvelli. Skógrækt og skjólbeltarækt hefur verið stunduð í Vallanesi í 40 ár og er grundvöllur gjöfullar og ræktunar á jörðinni, ár eftir ár. Ekki er nóg með að skjól auki ræktunina vegna hækkandi hitastigs heldur auðgast lífvænlegur jarðvegurinn einnig. Ekki nóg með að á Vallanesi sé ræktað lífrænt korn og suðrænt grænmeti heldur nýta þau nú aukaafrakstur skógarins búinu til framdráttar. Skóginn og skjólbeltin þarf að grisja. Viðurinn er notaður í borð og planka til uppbyggingar á staðnum og afsagið er notað í kurl í göngustíga og til húshitunar. Auk alls þess er heimaræktaða kornið þurrkað með viði skógarins.


Sveppapepp

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði frá sambýli sveppa. Það er bæði erfitt og einfalt að útskýra sveppi en það er eins og sveppir séu alls staðar, þeir eru límið sem gerir líf mögulegt á jörðinni og sveppir eru stærstu lífverur jarðarinnar. Mjög lítill hluti sveppa er ætur og hér á landi er helst að finna góða matarsveppi í skógum. Tré hafa mikla þörf fyrir samlífi með sveppum. Þar sem sveppaflóran er rík dafna trén betur. Í birkiskógum er gjarnan góð sveppaflóra enda hefur það vistkerfi fengið langan tíma að mótast. Í þeim má meðal annars finna eftirsóttustu skógarsveppi Evrópu, þ.e. kóngsveppir og kantarellur.


Skógarmatarkistan

Elisabeth Bernard er mannfræðingur og vinnur hjá Skógræktarfélagi Íslands. Hún sagði frá öllum þeim tækifærum sem leynast í skóginum er við kemur mat. Forðabúr skógarins gefur einnig tekjur og í Skógræktarritinu ár hvert má sjá yfirlit ýmissa flokka með skógafurðir og magn og tekjur af viðkomandi flokki. Ber eru til dæmis náttúruauðlind sem Íslendingar hafa nýtt óspart í gegnum tíðina og í Finnlandi er sala bláberja að skila þúsund milljarða króna tekjum árlega. Með aukinni skógrækt hefur einnig orðið vakning í nýtingu á sveppum og nú eru sveppir tíndir víða um land. Við erum þó enn að átta okkur á aðstæðum og getum nýtt þessa matarkistu enn betur. Með fleiri skógum skapast óteljandi tækifæri.


„Suðfjárrækt“

Agnes Geirdal hefur verið býflugnabóndi í rétt tæpan áratug. Að vera bóndi er lífsstíll en að vera býflugnabóndi er suðandi hamingja. Það er einmitt hljóðsins vegna að fólki fannst viðeigandi að kenna búgreinina við „suðfé“. Agnes sagði skemmtilega frá lífsferli hunangsflugnanna, allt frá tilhugalífi, skemmtanahaldi og lífshættulegum systkinaerjum. Það er ekkert grín að vera býfluga. Samfélagið er mjög stéttskipt og allir hafa sitt hlutverk. Líf flugnanna snýst um að þjóna drottningu með einræðistilburði og felst fyrst og fremst í að fljúga á milli blóma og koma heim með sætindi handa henni sem kallað er hunang. Þótt drottningin sé stór þá er hún ekki jafn heimtufrek og manneskjan, en til að þóknast henni þurfa 12 flugur að strita allt sitt líf til að útvega hunang í eina teskeið. Hunang er munaðarvara.


Vöggufífill

Cornelis Aart Meijles, sérfræðingur hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, sagði frá mörgu fróðlegu í fyrirlestri sínum sem nefndist „Verður bóndinn læknir framtíðarinnar?“. Grasrótastarf þrífst best í heilbrigðum jarðvegi. Þróunin í landbúnaði um heim allan hefur haft þá tilhneigingu að drepa jarðveginn jafnt og þétt. Hann fær ekki að dafna með allri þeirri flóru og fánu sem til þarf. Lífið undir fótum okkar á að iða af örverum, svepprótum og vera uppfullt af næringarefnum sem plönturnar nýta þegar þær stækka með tilstuðlan sólarinnar. Matvæli í dag eru mun rýrari af næringarefnum og allt öðruvísi en þau voru áður en dauðhreinsaður landbúnaður kom við sögu með öll sín kemísku efni og uppróti. Við megum ekki líta niður til jarðvegsins, hann er undirstaða allrar ræktunar. Cornelis endaði erindi sitt á því að segja frá vöggufífli, en það er planta sem mögulega getur verið ný nytjaplanta til fóðurs hér á landi.

Kornrækt

Egill Gautason, sérfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði frá mikilvægi skjóls í kornrækt. Uppskera á norðlægum stöðum ræðst mikið af verðri. Með skjóli af trjám má jafna vind og þar með hækka hitastig. Þar sem sumur eru stutt, eins og á Íslandi, má lítið út af bera ef ræktun á að skila þeirri afurð sem vænst er, svo sem í ræktun korns. Korn hefur lengi verið ræktað á Íslandi og eru aðstæður mjög misjafnar eftir landshlutum. Alla jafna gera skjólbeltin mikið gagn en það er þó ekki algilt. Góð kornuppskera sýnir sig best í þunga kornsins og því lengur sem hægt er að skýla plöntunni aukast líkur á að korn þroskist og þyngist. Nánar er fjallað um korntæk í nýlegri skýrslu sem ber nafnið „Bleikir akrar“.


Samantekt

Matarkista skógarins er auðlind sem við getum nýtt okkur í mun ríkari mæli en verið hefur. Víða nýtist skjólið til að rækta matvörur til manneldis, eins og dæmin sýna hjá frumkvöðlunum Vallanesi, en löngu er orðið tímabært að gefa skógarbotninum gaum og leita markvisst að sveppum, berjum og sinna býflugarækt. Skógurinn og nytjar hans eru grundvallarþættir í sjálfbærni þjóðar.




 

Umhirða skóga er aukinn hagur

Umfjöllun um málþing skógarbænda á Varmalandi

– Seinni hluti

Af mörgu var að taka á vel sóttu málþingi skógarbænda sem haldið var að Þinghamri á Varmalandi í Borgarfirði laugardaginn 14. október síðast liðinn. Í þessari grein verður fjallað um seinni hluta þingsins sem gekk út á skógarumhirðu og gagnvið. Í tuttugasta tölublaði Bændablaðsins má nálgast fyrri hluta umfjöllunarinnar sem fjallaði um matvæli sem hægt er að hafa í og af skógi. Fyrir áhugasama má nálgast frekari upplýsingar um málþingið undir fréttir á skogarbondi.is þar sem meðal annars er aðgengilegur hlekkur á myndupptöku af Youtube síðu Bændasamtaka Íslands.


Hagaskógar

Jóhann Frímann Þórhallsson er sauðfjárbóndi austur í Fljótsdal. Þar hefur hann ræktað 100 hektara skóg á jörð sinni Brekkugerði í 30 ár. Hann nýtir skóg sinn til framleiðslu jólatrjáa og viðarvinnslu. Hann hirðir vel um skóginn sinn, uppkvistar og tvítoppakippir trén, og þannig mun skógurinn einn daginn skila gæðaviði í hæsta verðflokki. Hann beitir sauðfénu skipulega í hólf í skóginum. Það gerir skóginum mjög gott. Til að mynda bítur búpeningurinn sinuna úr botni skógarins og minnkar þannig stórlega hættu á gróðureldum. Þegar fé gengur um skóginn bítur það fyrst og fremst nýgræðinginn að vori. Það er því mikilvægt að trén, sem ætlunin er að rækta til nytja, séu nægilega stór og þroskuð þegar fénu er sleppt í hann og í lerkiskógi er gott að miða við 15 ára skóg. Ekki er annað að sjá en féð njóti þess að vera í skjóli trjánna.


Trén eru eins og við

Lárus Heiðarsson, sérfræðingur hjá Skógræktinni og skógarbóndi í Fljótsdal, sagði frá mikilvægi umhirðu. Skógrækt er ræktun eins og önnur ræktun. Til að hámarka ávöxtun afurðanna og ná sem bestum árangri þarf að sinna henni. Í tilfelli skógræktar hérlendis er lykilatriði að velja réttan efnivið í viðeigandi umhverfi, eins og að velja trjátegundir eftir því hvað vex best við viðkomandi aðstæður. Eftir gróðursetningu skal fylgjast með lifun plantnanna og sé hún slakari en vænst var má íhuga hvort huga ætti að íbótum; það þýðir að endurgróðursetja nýjar plöntur í stað þeirra sem drápust á fyrsta sumri. Þær þurfa ekki endilega að vera af sömu tegund. Í uppvexti þarf sérstaklega að huga að því að klippa trén til svo þau vaxi sem einn stofn. Með nokkurra ára millibili eru lökustu trén fjarlægð til að gefa eftirstandandi trjám færi á að gildna. Trén stækka á nokkrum áratugum og því má gera má ráð fyrir að næsta kynslóð ábúenda komi að lokahögginu, þ.e. þegar komið er að uppskeru á lokaafurðinni. Loks eru trén flutt í sögunarmyllu þar sem loksins má sjá hvernig ræktun síðustu áratuga gekk. Sem sagt „trén eru eins og við“; ekki skal dekra þau um of en samt nægilega svo þau verði að við.


Skógtæknir

Björgvin Eggertsson, brautarstjóri skógtæknibrautar hjá Garðyrkjuskólanum að Reykjum, sagði frá öllum þeim möguleikum sem fylgja því að vinna í og við skógrækt. Námið í Garðyrkjuskólanum er fjölbreytt enda nýtist það fjölmörgum starfsstéttum og starfssviðum þjóðfélagsins. Má þar nefna skipulagsfræðinga hjá sveitarfélögum, skrúðgarðyrkju, plöntuframleiðslu á öllum stigum, grisjunarverktaka, trjáklifrara, ferðaþjónustu, gróðursetningaverktaka, hönnuði og miklu fleira. Skógrækt snýr líka að félagslegum gildum og skógar eru tilvaldir staðir til útivistar eða íhugunar og svo má lengi telja. Björgvin gat þess einnig að skýrt hafi komið fram í fyrirlestrum annarra að skógrækt snúist þó fyrst og fremst um viðurværi. Þeir sem nú þegar stunda skógrækt og einnig þeir sem eiga eftir að stunda hana munu reyna byggja skógana upp til að hafa tekjur af viðarframleiðslu og jafnvel kolefnisbindingu. Það er í mörg horn að líta í skóginum og hægt er að nálgast fræðslu þess efnis hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum / FSU.


Viðarmiðlun

Eiríkur Þorsteinsson, trétækniráðgjafi, er einn reynslumesti trétæknir landsins. Hann rakti sögu viðarvinnslu í grófum dráttum og kom meðal annars inn á smíði fyrstu límtrébrúar landsins sem smíðuð var úr íslensku lerki. Brúin er enn til en bíður endaloka sinna vegna vöntunar á viðhaldi. Vinnslu viðar hefur aftur á móti fleytt fram, allt frá því að forystumenn í skógrækt opnuðu viðarmiðlun í samvinnu við BYKO á áttunda áratug síðustu aldar yfir í nýlegt kennsluverkefni úr norrænu samstarfi sem kynnir sig sjálft á heimasíðunni treprox.eu. Eiríkur sagði frá flokkunarkerfi þar sem timbur er útlitsflokkað með tilliti til viðargæða og styrks. Búið er að útbúa kennsluefni um flokkunarkerfið og eftir áramót verður fyrsta rennsli á kennsluefninu. Markmiðið er að fólk sem kemur að viðarvinnslu og meðhöndlun viðar skilji mikilvægi viðargæða og hafi getu til að flokka timbur eftir stöðlum. Timburiðnaðurinn á Íslandi er kominn á það stig.


Skandinavía

Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, sagði frá nýútkominni bók um þátttöku Norðmanna í skógrækt hérlendis. Bókin er mjög vegleg og segir frá langri sögu frænda vorra við að koma upp skógarreitum víðs vegar um Ísland ásamt ýmsu öðru áhugaverðu. Við eigum Norðmönnum margt að þakka við uppgang skógræktar á Íslandi. Bókin heitir „Frændur fagna skógi“.

Á meðan Brynjólfur sagði frá sögu fyrri tíma opnaði Dagbjartur Bjarnason, skógarbóndi og stjórnarliði í búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ, augun fyrir því öfluga starfi sem unnið er meðal skógarbænda á Norðurlöndunum. Södra, fyrirtæki í eigu skógarbænda í Suður-Svíþjóð, er til dæmis að hefja framleiðslu á textíl sem búinn er til úr við. Helstu tískufyrirtæki heimsins eru nú þegar farin að nýta þann efnivið í fatalínur sínar. Dagbjartur hvatti okkur skógarbændur til að gera eins og frændur okkar ytra og endaði á að fjalla um hugtakið „family forest“ eða fjölskylduskógrækt sem er grundvöllurinn að þeirri skógrækt sem skógarbændur á Norðurlöndum stunda.


Samantekt

Skógar hafa heilmargt fram að færa. Það er göfugt og gæfulegt að opna einstaka rjóður og gera aðgengilegt en það skilar sér margfalt til baka þegar skógarbændur hafa farið um skóginn, tvítoppaklippt, snyrt og grisjað yfir allan ræktunartímann. Timburgæðin aukast með alúð ræktandans og verðmiði timbursins hækkar að sama skapi. Því má ekki gleyma að timbur er það hráefni sem mest hefur verið nýtt til húsbyggingar á Norðurlöndum yfir aldirnar. Skógrækt er grunnurinn að sjálfbærni stoltrar þjóðar.

Félögin sem stóðu að málþinginu voru búgreinadeild skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands ásamt félögum skógarbænda á Vesturlandi, Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi. Samstarfsaðilar voru Skógræktin, Skógræktarfélag Íslands, Landbúnaðarháskólinn, Garðyrkjuskólinn og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Styrktaraðilar voru Ölgerðin, Kaupfélag Borgfirðinga, Kvistabær, Kolefnisbrúin, Móðir Jörð, Holt og heiðar, Hraundís og Agnes Geirdal. Hótel Varmaland veitti ómælda aðstoð við skipulag. Allir sem hér eru taldir upp ásamt fleiri og fleiri sjálfboðaliðum eiga miklar þakkir skildar, ljóst er að án þeirra hefði málþingið ekki orðið eins fínt og fróðlegt eins og raun bar vitni.


Flaggað var að morgni við félagsheimilið þinghamar. Gestir koma á málþingið einn af öðrum.

Veðurguðirnir fögnuðu deginum með nettu glimmeri á jörð. Félagsheimilið þinghamar er fyrir miðri mynd. Horft til Suðurs í átt til Hafnarfjalls.

Varmaland í allri sinn dýrð að morgni málþings. Hótel Varmaland á miðri mynd og var Málþingið haldið á Þinghamri sem er byggingin lengst frá. Horft til norður í átt til Baulu.

Nokkrir framsögumenn á málþinginu. Mynd tekin eftir málþingið. Á myndinni eru fv. Brynjólfur Jónsson, Egill Gautason, Eygló Björk Ólafsdóttir, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Lárus Heiðarsson, Jóhann Frímann Þórhallsson, Agnes Geirdal, Dagbjartur Bjarnason, Björgvin Eggertsson og Eiríkur Þorsteinsson.

Á myndina vantar: Bjarna Diðrik Sigurðsson, Björn Bjarndal Jónsson, Cornelis Aart Meijles, Elisabeth Bernard, Gunnar Þorgeirsson og Jóhann Gísla Jóhannsson.

Umhirða og fjárhirða. Mynd Jóhann Þórhallsson

Umhirða í fallegum furuskógi: Mynd Björgvin Eggertsson

Uppkvistað beinvaxta lerki og uppvaxandi ungt greni. Mynd: Lárus Heiðarsson

Nýgræðingur á rauðgreni er lostæti. Mynd: Elisabeth Bernard

Umhirða bætir viðargæði. Falleg ösp í góðum vexti. Mynd: Lárus Heiðarsson



Eftir málþingið var glatt á hjalla og málin rædd í skógarrjóðri á Varmalandi. Mynd: Guðmundur Sigurðsson

Gestir á málþingi fengu mikinn fróðleik þennan dag. Mynd: Guðmundur Sigurðsson

Eftir málþingið var glatt á hjalla og málin rædd í skógarrjóðri á Varmalandi. Mynd: Guðmundur Sigurðsson

Girnilegir matsveppir í skógarbotni. Mynd: Elisabeth Bernard

Eygló Björk segir frá heilbrigðri ræktun á Vallanesi. Mynd: Guðmundur Sigurðsson

Jóhann Gísli, formaður skógarbænda færir Gunnari, formanni BÍ þakklætisvott, ilmandi körfu með matvælum út skóginum, fyrir góð störf í þágu skógarbænda. Mynd: Bjarni Diðrik Sigurðsson

Býfluga að störfum Mynd: Agnes Geirdal

Fé fagnar skjóli af vindi sem og sól. Mynd Jóhann Þórhallsson











 

Aðdragandinn

Um árabil héldu Landssamtök skógareigenda (LSE) úti málþingi í tengslum við sína árlegu aðalfundi. Síðasta slíka málþing var haldið í Kjarnalundi í Eyjafirði í október árið 2019 en þá var megin umfjöllunarefnið viðargæði og afurðir. Þá var einkum horft til viðarvinnslu og notkun þess viðar sem kom úr skóginum. Aðsóknin var með eindæmum góð og máttu sáttir þröngt sitja.


Það er einkum tvennt sem hafði áhrif á þessa löngu pásu málþinga. Þar ber helst heimsfaraldurinn Covid. Hitt voru breytingar í félagsumhverfi íslenskra bænda þegar flestar búgreinafélög sameinuðust undir merkjum Bændasamtaka Íslands á miðju ári 2021. Þar á meðal skógarbændur. Nú eru fjögur ár liðin frá málþinginu í Kjarnalundi og þótti forystu félaganna, sem stóðu að LSE, orðið tímabært að koma saman aftur, fræðast og hafa gaman. Það var úr að Búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ ásamt skógarbændafélögunum fimm ákváðu að efna til málþings og halda árshátíð skógarbænda í kjölfarið.


Það var haldið í hefðirnar þegar staðarvalið var ákveðið. LSE hafði þann háttinn á að hver landshluti myndi halda viðburð með fimm ára millibili og nú var komið að Vestlendingum. Það var að þeirra tilstuðlan að Varmaland í Borgarfirði varð fyrir valinu. Í lok síðast vetrar tók alvaran við og undirbúningshópur hóf störf. Á sumarmánuðum var dagskrá mótuð, vinna við fjármögnun hafin og loks í lok sumars voru samstarfsaðilar allir boðnir og búnir. Loks var ákveðið að málþingið yrði hluti af viðburðaríkri dagskrá Degi Landbúnaðarins sem BÍ hafði veg og vanda af.


Í aðdraganda málþings gátu áhugasamir skráð þátttöku sína á heimasíðunni skogarbondi.is. Upphaflega var ætlunin að málþingið yrði haldið Hótel-Varmalandi en vegna ofsafengins áhuga stefndi í að þörf var á stærra húsnæði. Þá var ákveðið að halda þingið í Þingamari, sem er félagsheimilið á staðnum. Tvær formlegar auglýsingar fyrir málþingið en þær birtust í tveimur tölublöðum Bændablaðsins í septembermánuði sem og á samfélagsmiðlum skógarbænda. Þingmönnum kjördæmisins var boðið á málþingið. Málþingið sóttu 80 manns og voru 15 fyrirlesarar.




Comments


bottom of page