top of page

Skógrækt í þágu betra loftslags

Skógrækt í þágu betra loftslags

Ýmiss konar mengun af mannavöldum hefur margvísleg skaðleg áhrif á náttúruna svo stórsér á umhverfi okkar og lífríki. Að sumu leyti er þar um langvinn áhrif að ræða. Þar á meðal eru óæskileg áhrif á loftslag. Margir vísindamenn telja að þessi áhrif valdi hlýnun jarðar, sem síðan hafi óæskileg áhrif á allt lífríkið, þar á meðal lífsskilyrði mannsins sjálfs. Með auknum umsvifum mannsins um alla jarðarkringluna hefur mengun stóraukist síðustu áratugi.


Samstaða um aðgerðir

Til að stemma stigu við óæskilegum áhrifum mengunar hafa þjóðir heims leitast við að ná samstöðu um aðgerðir. Með Parísarsamkomulaginu gangast samningsaðilar undir þá skyldu að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Að því leyti er við sjálfan hagvöxtinn að etja og erfitt um vik með skjótvirkar aðgerðir. Einnig má binda þessar lofttegundir í jarðvegi eða skógi til þess að draga úr óæskilegum áhrifum þeirra á loftslag.


Kaup á losunarheimildum

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og aukning hennar leiðir til þess að við uppfyllum ekki alþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt Kýótó bókuninni, á því tímabili sem lýkur nú um næstu áramót. Þar kennir umhverfisráðherra fyrri stjórnum um, en hefst ekki að sjálfur. Útlit er fyrir að við þurfum að kaupa losunarheimildir og kostnaður við það talinn hlaupa á milljörðum króna. Mikil óvissa virðist vera um hver sá kostnaður verði og afhjúpar sú staðreynd hversu ógagnsætt stjórnkerfið er þegar kemur að loftslagsmálum. Sú spurning er til að mynda áleitin hvert allt þetta fé, sem greiða á fyrir losunarheimildir, muni renna.


Aðgerðir ekki sama og árangur

Fjárframlög til loftslagsmála hér á landi hafa að sögn áttfaldast í tíð núverandi ríkisstjórnar og einnig stæra þau sig af aukningu til umhverfismála almennt. En hvert rennur þetta aukna fjármagn? Það dylst engum að stjórnkerfið í þessum málaflokki hefur bólgnað út. Aðgerðir snúast um hugsjónir og sleipihugtök eins og vistheimt, sem virðist vera annað orð yfir að gera helst ekki neitt. Það nýjasta er að hver fleyta er dregin á flot til að friða miðhálendið, þrátt fyrir að ekki hafi enn tekist að draga lærdóm af þeim ágöllum sem hafa verið á framkvæmd í hinum víðfeðma Vatnajökulsþjóðgarði.


Skaðlegur kolefnisskattur

Þá hyggst ríkisstjórnin leysa loftslagsmálin mestmegnis með skattlagningu. Neyðarlendingin er oft skattar þegar menn sjá ekki lausnir eða þora ekki að taka ákvarðanir. Kolefnisgjaldið er þar gott dæmi Gjaldið leggst á eldsneyti og hefur verið hækkað reglulega í tíð núverandi ríkisstjórnar og hækkar enn eftir áramótin. Stjórnvöld viðurkenna að ekkert sé vitað hvort skatturinn hafi yfir höfuð nokkur áhrif til minnkunar á útblæstri óæskilegra gróðurhúsalofttegunda. Tekjur renna að mestu í óskyld verkefni. Þar ofan á hefur Hagfræðistofnun HÍ staðfest að gjaldið kemur harðast niður á þeim lægst launuðu og hefur neikvæð áhrif á atvinnusköpun. En græna útlitið skiptir auðvitað öllu, árangur litlu.


Lítil aukning í skógrækt

Vinstri menn hafa staðið við stjórnvölinn í umhverfismálum hér í þrjú ár. Ætla mætti að kolefnisbinding, sem ein af lausnunum í loftslagsmálum væri komin vel á veg. En hver er raunin? Hvað varðar skógrækt þá hefur hún nánast staðið í stað síðasta áratug, eftir mikinn samdrátt eftir hrun. Hin litla aukning í skógrækt í tíð Vinstri grænna hefur aðallega verið í birki, sem bindur einungis brot af því sem afkastamestu trjátegundirnar gera. Þær tegundir hafa sannað sig og hafa getu til að vaxa bæði hratt og vel við íslenskar aðstæður.


Skógrækt árangursríkasta aðferðin

Skógrækt er vísindalega viðurkennd sem ein allra áhrifaríkasta leiðin til kolefnisbindingar. Þjóðir heims horfa mjög til þess að með ræktun nýrra skóga náist að hamla með umtalsverðum hætti á móti áhrifum af kolefnislosun, sem víða er enn í vexti. Ekki síður er nýskógrækt hugsuð til að vinna á móti vaxandi skógareyðingu víða um heim. Þær þjóðir sem gengið hafa hvað lengst í þessum efnum horfa einnig til þess að í framtíðinni munu íbúar njóta afurða þessara skóga.


Fjórföldun skógræktar

Í haust mælti ég á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um fjórföldun skógræktar með kolefnisbindingu fyrir augum. Stóraukin skógrækt hefur fjölmarga kosti. Hún rennir styrkari stoðum undir atvinnu til lengri og skemmri tíma og eflir landsbyggðina. Skógrækt sparar gjaldeyri, bæði hvað varðar loftslagssektir og innflutning á timbri í framtíðinni og minnkar útblástur í flutningum, eykur búsæld í sveitum og styður við hefðbundinn landbúnað. Tími er kominn til að hætta að fjölga störfum í stofnunum og ráðuneytum en láta þess í stað hendur standa fram úr ermum og græða upp skóga í þágu komandi kynslóða.


Hagstæð skilyrði

Við búum svo vel að eiga nægt land og þar að auki mikil landflæmi sem ekki eru nýtt, bæði auðnir og eyðisanda. Fyrir hundrað árum trúðu fáir því að hér gætu þrifist gróskumiklir skógar. Það hefur nú verið afsannað rækilega. Ágæt skilyrði eru til þess að við getum verið sjálfum okkur nóg um flest allt sem viðkemur skógarafurðum. Að auki getum við lagt heilmikið af mörkum til að bæta fyrir umgengni okkar við náttúruna með því að eftirláta nýjum skógum að binda meira af óæskilegum gróðurhúsalofttegundum.





Karl Gauti Hjaltason

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Commentaires


bottom of page