Skógur alltaf til bóta
- Skógarbændur
- 3 days ago
- 4 min read
Skógur alltaf til bóta
Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir, blaðamaður BBL
Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orðin jákvæð eftir fáein ár og loftslagsávinningur nýskógræktar er ótvíræður
Fagráðstefna skógræktar fór fram í lok mars í Hallormsstað. Meginþemað var „frá plöntu til planka“ og sneri fyrri dagur ráðstefnunnar einkum að framkvæmd nýskógræktar, allt frá landvali til mismunandi skógarumhirðukerfa, miðað við þær lokaafurðir sem stefnt er að. Síðari daginn var farið yfir fjölbreytt málefni er tengjast skógum og skógrækt, rannsóknum, menntun, nýsköpun og tækni.
Neikvæð umræða farin að valda bakslagi í skógrækt
Bjarni Diðrik Sigurðsson, skógfræðiprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flutti erindið „Nýskógrækt og áhrif á jarðvegskolefni“. Hann galt varhug við villandi og skaðlegri umræðu um að nýskógrækt geti verið til óþurftar þegar kemur að loftslagsmálunum. Nú væri komin upp sú staða að neikvæð umræða í garð skógræktar ylli bakslagi sem lýsti sér í að sveitarfélög héldu að sér höndum í leyfisveitingum fyrir skógrækt og dæmi væru um að skógarplöntupantanir hefðu verið afturkallaðar.
Hann sagði stöðu þekkingar um áhrif nýskógræktar á kolefnisforða jarðvegs á Íslandi hafa stóraukist á síðustu 15–20 árum og hún sé meðal þess besta sem gerist í heiminum. Til dæmis hafi ekkert Norðurlanda gert eins margar rannsóknir á áhrifum nýskógræktar á jarðvegskolefni eins og Íslendingar. Loftslagsávinningur nýskógræktar hér á landi sé ótvíræður. Íslenskir skógar bindi árlega að jafnaði um 1,3 tonn af koldíoxíði á hektara eingöngu í jarðvegi og binding í nýjum skógum og jarðvegi sé nú að jafnaði samtals um tíu tonn á hektara á ári í ræktuðum skógum landsins samkvæmt nýjustu skógarúttektum.
Skógur og jarðvegur vinna saman
Nokkuð hefur verið tekist á um kolefnisbindingargetu skóga miðað við skóglaus svæði.
Rannsóknir hafa farið fram um 30 ára skeið á um 60 svæðum á því hvað á sér stað í jarðvegi við skógrækt, miðað við mismunandi trjátegundir og hvort heldur er jarðvinnslu eða ekki. Bjarni Diðrik segir þær hafa leitt í ljós að meðaltalsbinding sé 1,3 tonn af koldíoxíði á hektara á ári í jarðvegi fyrstu 8–55 árin eftir að nýskógræktin hefst, miðað við skóglaust land sem ekki hefur verið tekið til nýskógræktar.
Hlýnandi veður og breytt landnýting geri hins vegar að verkum að skóglaus jarðvegur landsins taki einnig upp meira kolefni en áður. Þegar þar sé ræktaður upp skógur verði binding í jarðvegi enn meiri. Nýskógrækt auki þannig árlega bindingu í jarðvegi, að jafnaði um tæplega 10 tonn á hektara í jarðvegi og trjám samtals. Bindingarog losunarjafnvægi náist svo á löngum tíma. Vistkerfið geymi þannig meira kolefni og kolefnishringrásin stækki við nýskógrækt á skóglausu landi.
Fram kom í máli Bjarna Diðriks að mikil uppsöfnun kolefnis væri í viði ofanjarðar yfir fyrstu 60 árin þar sem skógrækt tækist vel. Meðalbinding í viði í öllum ræktuðum skógum var árið 2020 um 8,5 t CO2 /ha sem eru nú að vegnu meðaltali ca 22 ára gamlir. Árið 2021 nam hún á landsvísu 510 þúsund tonnum CO2 sem var raunbinding sem mæld var af landsúttekt Lands og skógar, eða um 15% af beinni losun CO2 frá samfélaginu árið 2021.
Kolefnisríkustu landvistkerfin
Skógar mynda kolefnisríkustu landvistkerfi jarðar, að mómýrunum undanskildum, að sögn Bjarna Diðriks. Þegar horft er til allra skóga Evrópu í dag sé kolefnisforði í viði trjánna einungis 23% af heildarkolefnisforða alls skógarvistkerfisins, en skógarjarðvegur niður á 1 m dýpi geymi að jafnaði 59% kolefnisforða skóganna. Hvað gerist í jarðveginum eftir nýskógrækt sé því mjög mikilvægt fyrir loftslagsáhrif nýskógræktar til lengri tíma.
Forðinn eykst á átta árum
Á síðustu tíu árum hafa farið fram nýjar rannsóknir af hálfu Bjarna Diðriks og nemenda hans við Landbúnaðarháskóla Íslands á áhrifum nýskógræktar með og án jarðvinnslu á kolefnisforða jarðvegs sem allar sýna að kolefnisforðinn eykst eftir a.m.k. átta fyrstu árin í kjölfar nýskógræktar á þurrlendi.
Þegar nýir skógar eru ræktaðir þarf skv. Bjarna Diðriki að huga vel að því hvað gerist í jarðveginum. Á Íslandi séu um 1/3 nýskógræktar „landgræðsluskógrækt“ á rýru landi en um 2/3 fari fram sem „fjölnytjaskógrækt“ á grónu landi með einhverjum þroskuðum jarðvegi. Þar þurfi að nota jarðvinnslu til að draga úr samkeppni við staðargróður, til að tryggja að nýskógræktin takist.
Jarðvinnsla nýskógræktar
Jarðvinnsla nýskógræktar hefur verið mikið gagnrýnd á síðustu misserum og fullyrt að meira kolefni tapist þá úr jarðveginum en það sem skógarnir binda til lengi tíma, að sögn Bjarna Diðriks. Nýskógrækt fylgi alltaf jarðvinnsla á grónu landi (ca 33% nýskógræktar sem hefur farið fram til dagsins í dag). Jarðvinnsla geti verið í formi flekkingar, herfunar, plægingar eða heiljarðvinnslu þar sem er plægt, tætt eða teknar þökur. Spurt sé hvort jarðvinnsla skipti máli fyrir losun/ bindingu CO2 .
Bjarni Diðrik telur að staðfesta verði slíkt með beinum mælingum í hinum kolefnisríka íslenska eldfjallajarðvegi. Engar rannsóknir hafi gert svokallaðar beinar CO2 flúxmælingar fyrir og eftir jarðvinnslu, sem sé eina leiðin til að fá nákvæmar mælingar á „tímabundnu“ tapi frá jarðvegi á allra fyrstu árunum. Vonir séu bundnar við að slík rannsókn fari af stað næsta vor.
Alls staðar aukning kolefnisforða
Samkvæmt Bjarna Diðriki var á 17 rannsóknasvæðum og 95 mælistöðum á Austur- og Vesturlandi alls staðar aukning á kolefnisforða jarðvegs (0– 30 cm). Um var að ræða mismunandi jarðvinnslu sem ekki hafði marktæk áhrif á niðurstöður og var því ekki hluti af lokagreiningunni.
Kolefnisforði í efstu 10 cm jarðvegs jókst marktækt með aldri skóga á mólendi fyrstu 8–50 árin. Meðalaukning var 1,3 t CO2 /ha á ári. Mælanleg aukning var 8–12 árum eftir jarðvinnslu, miðað við ástand áður. Ný rannsókn (2025) sem var að koma út frá Sólveigu Sanchez, doktorsnema við LbhÍ, um áhrif endurnýjunar birkiskóga á kolefnisforða jarðvegs, sýnir að sögn Bjarna Diðriks að meðalaukning í efstu 30 cm jarðvegs var um 0,4 t CO2 / ha á ári í upphafi og meðalaukning á 30–60 árum eftir að birkið nam land var 1,5–2,6 t CO2 / ha á ári, sem rímar vel við fyrri niðurstöður.
Stór hluti lífmassa landsins í skógum
Bjarni Diðrik sagði flatarmál vistgerða og standandi lífmassi landsins skiptast þannig að birkiskógar væru nú um 1,5% landsins og ræktaðir skógar 0,5%, en þessi 2% flatarmálsins beri samtals 37% af ofanjarðarlífmassa landsins.
Ræktarland landbúnaðarins hafi um 13% standandi lífmassa landsins síðsumars. Um 14% af árlegum ofanjarðarvexti (árleg framleiðni; NPP) gróðurs myndist í lífmassa skóga en 26% í ofanjarðarvexti á túnum og ökrum landsins.
Fagráðstefna skógræktar var haldin í samstarfi Lands og skógar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands.

linkur
תגובות