top of page

Stjórnarfundir FsS 2024...

7. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS


2. október 2024 kl. 20:00 – Teams


Mætt voru Björn B. Jónsson, Ragnheiður Aradóttir, Sólveig Pálsdóttir, Hrönn

Guðmundsdóttir, Októ Einarsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Agnes Geirdal.


1. Frá því síðast

a.

Móttaka sænsku skógarstúdentanna tókst mjög vel. Skógurinn í Hrosshaga

hentar einstaklega vel fyrir móttöku hópa. Upplifunarstígurinn þar er mjög vel

heppnaður. Svona upplifunarstígar þyrftu að vera í öllum landshlutum. Það

sem stóð uppúr hjá sænsku skógarstúdentunum voru skjólbeltin í

Skeiðahreppi og hugmyndafræðin á bakvið þau. Skjólbelti hafa aldrei komið

upp í þeirra námi.


b.

Björn átti fund með starfsmönnum Bændasamtakanna og stjórn SkóBÍ, vegna

aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Hvernig ætlar landbúnaðurinn að standa

að aðgerðaráætlun, skógrækt kemur sterk inn. Fundurinn var í dag. Mjög

áhugavert.


c.

Björn hefur setið fjóra fundi vegna málþings um kolefni, losun og bindingu,

sem átti að vera á Sólheimum 4. október en málþinginu var frestað til 9. maí

2025.


d.

Námskeiðið Grænni Skógar I fer ekki af stað í haust, það náðist ekki næg

þátttaka.


2. Fundur með formönnum og LOGS

Björn sat fund með formönnum Skógarbændafélaga og LOGS. Þar var meðal annars

rætt um uppgjörsmál, en uppgjör hefur víða dregist fram á haust. Plöntugæði er

hlutur sem þarf að taka á. Hrefna tilkynnti að hér eftir yrði bara plantað tveggja ára

greni. Það verður svo annar fundur seinna í haust og aftur strax eftir áramót, en

stefnt er að fjórum fundum á ári.


3. Úr skógi

Hópurinn er að halda fundi. Björn er að reyna að stilla upp úrvinnsluhugmyndum

varðandi orku úr timbri. Hópurinn vinnur hratt núna, tveir fundir verða í þessum

mánuði og næsta. Betur verður farið yfir þetta á næsta fundi stjórnar. Svo er Björn

búinn að eiga tvo fundi með Uppbyggingarsjóði Suðurlands og skilaði nýrri umsókn

30. september.


4. Málþing Laugum

Það eru komnar um 40 skráningar á málþingið, ekki margir Sunnlendingar ennþá.

Rædd verður meðal annars framtíð félagskerfis skógarbænda.


5. Námskeið FsS í haust

Jól úr skógi – Björgvin tók að sér að tala við stelpur úr Garðyrkjuskólanum sem hafa

mikinn áhuga á að koma að námskeiði. Þar verður farið yfir hvað skógurinn getur

gefið okkur fyrir jólin. Verið er að skoða tvær dagsetningar, fimmtudaginn 7.

nóvember, seinnipartinn og laugardaginn 9. nóvember, fyrir hádegi.

Félagsfundur: Það væri skemmtilegt að halda félagsfund. Skógræktarfélag

Reykjavíkur ætlar að hafa fræðslufund með okkur í Heiðmörk, það er planað í mars.

Það gæti þá verið félagsfundurinn okkar.


6. Heimasíða og fésbókarsíða

Hrönn, Sigga Jóna og Agnes hafa skoðað þessi mál í sameiningu. Félagið er með FB

síðu en til að hún haldist virk þarf einhver að fara inn á hana daglega, setja inn

innlegg og svara spurningum. Þetta er vinna sem einhver þyrfti þá að taka að sér.

Þórarinn skógarbóndi í Lundareykjadal stofnaði FB síðuna Skógareigendur en hún er

ætluð öllum sem eiga skóg eða hafa áhuga á skógrækt. FB síða félagsins var sett

upp þannig að hún væri bara ætluð okkar félagsmönnum en þeir eru ekki mjög virkir

og meðlimir síðunnar eru fáir.

Á síðuna skogarbondi.is er Hlynur duglegur að setja inn tilkynningar frá okkur sem og

fundargerðir.

Lagt er til að við notum síðuna Skógareigendur til að koma okkur á framfæri. Þangað

gætu farið tilkynningar um fundi og aðra viðburði, sem einnig yrðu sendar með

tölvupósti og birtar á skogarbondi.is og hægt er að vísa á FB síðuna í tölvupósti.


7. Önnur mál

a.

Stjórnin ætlar að hittast á Selfossi 6. nóvember kl. 15 og borða svo saman

eftir fund.


b.

Elmia Wood pælingar: Spurning hvort leshópar hafi áhuga. Leshópastjórar

ætla að taka stöðuna hjá sínu fólki. Björn vill festa gistingu í nóvember, ef það

er nokkur möguleiki.


c.

Októ spyr hvað sé í gangi með leshópana. Hrönn segir að sameiginlegur

fundur hafi verið á dagskrá í nóvember. Leshópastjórar ætla að samræma sig

og skoða fundartíma. Tímasetning verður send út strax eftir helgi.


d.

Hvað er með ferð í Skaftafellssýslu, spyr Októ. Björn var búinn að lofa að

heyra í þeim fyrir austan í byrjun október og ætlar að drífa í því.



Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 21

Ragnheiður Aradóttir


 


6. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS


4. september 2024 kl. 20:00 – Teams

Mætt voru Björn B. Jónsson, Ragnheiður Aradóttir, Sólveig Pálsdóttir, Hrönn

Guðmundsdóttir, Októ Einarsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Agnes Geirdal.


1. Frá því síðast

a. Jónsmessuganga var í Haukadalsskógi undir leiðsögn Böðvars

Guðmundssonar, og heppnaðist vel.

b. Björn er í undirbúningshóp fyrir málþing í haust að Laugum í Sælingsdal, sem

haldið verður þann 12. október. Undirbúningur er langt kominn. Dagskráin er

þétt og endar á að ræða framtíð félagskerfisins á landsvísu. Í bígerð er að

formenn ásamt einum eða tveimur félagsmönnum frá hverju félagi hittist

kvöldið áður til að undirbúa samtalið fyrir þennan lið og stilla saman strengi.

Einnig verða kynntar niðurstöður könnunar meðal skógarbænda, sem er að

fara af stað.

c. Björn er í öðrum undirbúningshóp um málþing að Sólheimum sem verður

þann 4. október nk. Málþingið fjallar um kolefnismál og eru margir sem koma

að því. Allir geta skráð sig á þetta málþing.

d. Björn fékk heimsókn frá finnsku skógarfólki

e. Björn er að undirbúa komu 16 stúdenta frá Svíþjóð, þau munu fara víða en

það er flóknara en áður að taka á móti hópum eftir að Land og Skógur varð til,

vegna reglna um vinnutíma starfsfólks stofnunarinnar.


2. Verkefnið Úr skógi

Verkefnið er farið af stað og var nýlega haldinn góður fundur með Eflu. Meðal

annars er verið að ræða um það hverja verður talað við á næstunni og einn af

þeim er Sigurður Ormarsson, sem býr í Svíþjóð og er sérfræðingur í

krosslímingu á timbri. Það væri líka möguleiki að fá fulltrúa Límtrés á fund. Í

lok árs er meiningin að taka saman skýrslu fyrir stjórnina svo hægt sé að taka

ákvörðun fyrir næsta ár, hvað hugmyndir varðar. Björn ætlar nú á

haustmánuðum að sækja aftur um í Uppbyggingarsjóði Suðurlands og einnig

hjá Uppbyggingarsjóðnum Lóa, sem er sérstaklega fyrir landsbyggðina. Aðilar

í Evrópu hafa haft spurnir af verkefninu og hafa sýnt áhuga en það er ekki

tímabært að skoða það að sækja um Evrópustyrki ennþá.

Októ spyr hvort eitthvað sé komið á blað sem Björn geti sýnt stjórn en ákveðið

hefur verið að stjórnin fái skýrslu í lok árs en hugsanlega verður hægt að

koma gögnum til stjórnar til að skoða þegar líða fer á október.


3. Málþing að Laugum í Sælingsdal

Sjá undir lið 1.

Viðbót: Vonandi verður hægt að senda dagskrána á alla félagsmenn og hvetja

fólk til að mæta. Rætt um það hvort félagið styrki félagsmenn til að sækja

málþingið, eins og gert var í fyrra. Björn ætlar að koma með tillögu um þetta

sem hann mun senda á stjórn og svo verður tekin ákvörðun.


4. Starfið framundan.

Björgvin Eggertsson er að vinna að því að koma Grænni skógum I af stað,

skráningar gætu verið líflegri en vonandi verður af námskeiðinu.

Námskeið sem ekki varð úr í fyrra, Jól í skógi: báðar stelpurnar sem ætluðu

að hjálpa til við námskeiðið í fyrra eru útskrifaðar og Björn ætlar að heyra í

Gurrý eða Björgvini um það hvort það sé einhver sem getur tekið námskeiðið

að sér.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur áhuga á að halda fræðslufund með okkar

félagsmönnum í vetur. Skógræktarfélagið er farið að nýta skógana og er með

frábært starfsfólk, hefur einnig aðgengi að sérfræðingum. Björn sér fyrir sér að

þetta yrði í úrvinnslugeiranum þar sem Skógræktarfélagið eru sterkt, hann

fundar með Auði framkvæmdastjóra fljótlega og verður með fréttir á næsta

stjórnarfundi.

Eftir haustgróðursetningu ætlar Björn hefur samband við Austur-Skaftfellinga

til að koma af stað leshóp þar, hann ætlar að heimsækja þau með fleirum og

hitta fólk sem vill leiða starfið.

Það þarf að ákveða hvenær almennur félagsfundur með fræðsluefni verður í

vetur. Í fyrra mætti fjöldi manns á fræðslufund, það væri gaman að reyna aftur

í vetur. Hrönn stingur uppá að fá starffólk Lands og Skóga til fundar til að

upplýsa um gang mála, Björn veit að Hrefna hefur áhuga á góðu sambandi við

skógarbændur. Hrönn finnst nauðsynlegt að halda einn fund á ári með

starfsfólki Lands og Skóga.


5. Heimasíða og fésbókarsíða

Hrönn sendi póst á stöllur sínar, þær ætla að heyrast í netspjalli og ætla að

rífa þetta í gang.


6. Fundartími stjórnar í vetur og tilhögun funda

Ákveðið er að funda í vetur fyrsta miðvikudag í mánuði kl. 20 á teams,

framhaldið verður ákveðið með vorinu.

Einn fundur verður í nóvember hjá Landi og Skógum á Selfossi og Mathöll á

eftir.


7. Önnur mál

SkógBí: Verið er að skoða ,,íslenskt staðfest“ merkingu innan

bændasamtakanna, það þarf að skoða hvort það hentar skógarbændum,

kostnaður er talsverður á hvern framleiðanda. Þetta gæti hentað til dæmis

fyrir jólatré og greinar sem væri hægt að merkja á þennan hátt. Agnes stingur

uppá að þetta fari inn í ,,Úr skógi“ vinnuna.

Björn er að kanna hvort leshópar geti farið á Elmia Wood í Svíþjóð í júní 2025.

Björn vill fá þetta staðfest frá leshópunum fyrir miðjan nóvember hve margir

hafa áhuga, ekki fleiri en 16 manns komast í ferðina því þá verður skipulagið

erfiðara.


Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 21:00

Ragnheiður Aradóttir


5. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS

23. maí 2024 kl. 20:00 – Teams


Mætt voru Björn B. Jónsson, Ragnheiður Aradóttir, Sólveig Pálsdóttir og Hrönn

Guðmundsdóttir.


1. Frá því síðast

a. Aðalfundur

Það hefði verið gaman að sjá fleiri á aðalfundinum. Fundurinn er sammála um

að það sé tímabært að prófa nýtt fyrirkomulag og tímasetningu. Fundurinn

samþykkir að prófa næst að halda kvöldfund á fimmtudegi og bjóða uppá til

dæmis kótilettur.

Fundurinn ákveður að senda tillögu, sem samþykkt var á aðalfundi, á stjórn

SkógBÍ, svo sú stjórn geti hamast í ráðherra til að fá meira fjármagn. Sé það

gert er tillagan einnig komin í formlegt ferli innan Bændasamtakanna.


Tillagan:

Aðalfundur Félags skógarbænda á Suðurlandi haldinn á Hótel Stracta Hellu

4. maí 2024 skorar á stjórnvöld að standa við áætlanir um nytjaskógrækt á

bújörðum. Mikill niðurskurður síðustu ára til samningsbundinna

skógræktarverkefna á bújörðum kemur í veg fyrir að Land og Skógur geti

staðið við skuldbindingar til skógarbænda um allt land. Mikið er í húfi þar

sem skógrækt á bújörðum er ein af forsendum kolefinsjöfunar í landinu og

uppbyggingu nýrrar auðlindar sem skógar landsins verða er fram líða stundir.

Á aðalfundi var samþykkt lagabreyting og Ragnheiður tekur að sér að senda

breytinguna á Hlyn Gauta svo hann geti birt hana á skogarbondi.is


b. Ráðstefnan „Nýsköpun í mannvirkjagerð“ var haldin 15. maí 2024

Mjög áhugaverð ráðstefna sem Björn og fleiri úr stjórn sátu í fjarfundi.



2. Kosið í embætti stjórnar

Ákveðið að Ragnheiður verði áfram ritari og Hrönn verði áfram gjaldkeri.

Sólveig og Októ verða meðstjórnendur. Björn á tvö ár eftir sem formaður.


3. Tímasetning stjórnarfunda

Ákveðið að hafa fundi fyrsta miðvikudag í mánuði kl. 20. Reynt verður að hafa

tvo fundi á tímabilinu þar sem við hittumst (ekki á netinu).


4. Úr skógi.

Staða verkefnisins og umræða um framhald verkefnisins og fjármögnun

þess. Efla verkfræðistofa hefur áhuga á að koma af fullum krafti inn í verkefnið og

Björn hefur fundað með þeim. Efla er tilbúin til að koma inn með töluvert

fjármagn, en félagið myndi taka það sem uppá vantar. Uppbyggingarsjóður

Suðurlands hefur skorað á Björn að sækja um aftur.

Stjórnin samþykkir að halda áfram með verkefnið Úr skógi í samstarfi við Eflu

verkfræðistofu og samþykkir að félagið standi straum af þeim kostnaði sem

fellur til á haustmánuðum. Til þess verði m.a. notaður afgangur af styrk sem

fyrri stjórn fékk til afurða og markaðsmála.


5. Jónsmessugangan

Jónsmessugangan verður í Haukadal, sunnudaginn 23. júní kl. 14. Björn er að

vinna í því að fá Böðvar Guðmundsson til að vera með okkur. Boðið verður

uppá ketilkaffi, vatn, gos og kleinur og kex. Tilkynning verður send út fljótlega.

Gangan verður létt. Hrönn ætlar að setja tilkynningu á FB síðuna.


6. Skógarpósturinn

Björn ætlar að setja saman einn skógarpóst sem verður sendur út fljótlega á

félagsmenn. Svo verður sendur út skógarpóstur aftur í haust.


7. Starfið í haust

Varðandi jólanámskeiðið sem er á dagskrá í haust, Björgvin ætlar að finna

gott fólk í Garðyrkjuskólanum til að koma að því með okkur. Svo eru Grænni

skógar 1 að byrja í haust. Skógardaginn, sem við héldum sl. sumar, er

passlegt að hafa annað hvert ár. Svo er spenningur fyrir leshóp fyrir austan, á

Höfn, Björn ætlar að halda annan fund þar í haust. Gott er ef fleiri úr stjórn

hafa tíma til að fara með á þann fund. Hann yrði kannski í september eða

byrjun október.


8. Önnur mál

Björn á von á fólki frá Svíþjóð í haust, sem hann mun taka á móti og sýna

íslenska skóga á Suðurlandi og nálægt Grindavík.

Sólveig hefur verið að vinna aðeins úr ösp. Hún útbjó stærðarinnar fjalir sem

voru notaðar til að bera fram mat á. Hún pússaði þær og bar á matarolíu.

Fjalirnar eru vinsælar innan fjölskyldunnar eftir að það spurðust út og hafa

verið notaðar í veislum. Svo hefur hún fengið fyrirspurnir um að framleiða fjalir

og selja.



Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 20:40

Ragnheiður Aradóttir




4. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS

8. apríl 2024 kl. 20:00 – Teams


Mætt voru Björn B. Jónsson, Ragnheiður Aradóttir og Hrönn Guðmundsdóttir.

Björn setti fundinn kl. 20:00.


1. Frá því síðast

Fræðslufundur á Reykjum tókst vel, margir mættu eða um 40 manns og var almenn

ánægja með fundinn.


Fagráðstefna skógræktar, haldin af Landi og Skógum, var haldin 20. – 21. mars í

Hofi á Akureyri. Björn sat ráðstefnuna ásamt Hirti Jónssyni formanni SkógBí.


Uppbyggingarsjóður Suðurlands mun tilkynna um úthlutanir í hádeginu 9. apríl.

Stýrihópurinn sem settur var saman um verkefnið hefur fundað og einnig hefur verið

fundað með Eflu verkfræðistofu. Ef þetta gengur eftir á að fara á fullt í haust og

gerð verður skýrsla sem mun hjálpa við umsóknir úr stærri sjóðum á næsta ári.


Undirbúningshópur fyrir málþingið á Laugum í Sælingsdal í haust hefur fundað á

Teams. Undirbúningur gengur vel.


2. Nýtt gmail fyrir félagið

Ragnheiður stofnaði gmail fyrir félagið, netfangið er fskogsud@gmail.com. Ætlunin

er að stjórnin hafi aðgang að þessum reikningi og tölvupóstur á félagsmenn verður

framvegis sendur úr þessu netfangi.


3. Aðalfundur 4. maí 2024 á Hótel Stracta, Hellu

Björn er tilbúinn með dagskrá sem verður send út á næstu dögum.

Sólveig Pálsdóttir og Rafn A. Sigurðsson eiga að ganga úr stjórn. Sólveig er tilbúin

til að sitja áfram. Rafn er tilbúinn til að færa sig í varastjórn og Októ Einarsson hefur

lýst yfir áhuga á að koma í aðalstjórn. Rafn myndi koma í staðinn fyrir Þórarinn

Þorfinnsson í varastjórn. Aðrir verða áfram í sínum sætum.


Fundurinn stingur uppá að rætt verði við Agnesi Geirdal um að verða fundarstjóri og

að ritari verði Ragnheiður Aradóttir.


Gestir fundarins verða Ágúst Sigurðsson forstöðumaður Lands og Skóga og Hjörtur

Bergmann Jónsson formaður SkógBí.


Boðið verður upp á létta morgunhressingu á hótelinu.


Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 20:40

Ragnheiður Aradóttir





3. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS

13. mars 2024 kl. 14:00 – Reykjum, Ölfusi


Mætt voru Björn B. Jónsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Sólveig Pálsdóttir. Frá Landi og Skógi mættu Hrefna Jóhannesdóttir, Hallur Björgvinsson og Jón Þór Birgisson. Einnig mætti nýr formaður SkógBÍ, Hjörtur Bergmann Jónsson.

Björn setti fundinn kl. 14:00.


1. Uppbyggingarsjóður Suðurlands

Björn sótti um styrk hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, en umsóknarfrestur rann út 5. mars sl. Sótt var um styrk upp á tvær og hálfa milljón fyrir þriggja ára verkefni um afurða- og markaðsmál, Úr skógi. Björn er búinn að tala við fjóra aðila um að koma í stýrihóp með sér um verkefnið. Stýrihópinn skipa, ásamt Birni, Hrefna

Jóhannesdóttir, sviðstjóri ræktunar og nytja hjá Landi og Skógi, Eva Björg Árnadóttir, sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar hjá LHÍ, Björk Gunnbjörnsdóttir, hönnuður og kennari og Alexandra Kjeld hjá verkfræðistofunni Eflu.


Verkefnið Úr skógi verður unnið í þremur þrepum á jafnmörgum árum:


Fyrsta árið:

Leitað verði að þeim vöruflokkum/úrvinnsluleiðum sem koma til greina í vinnslu skógarafurða.

Niðurstöður væntanlegra úrvinnsluleiða verði flokkaðar eftir:

a. Úrvinnsla úr timburbolum/timbri

b. Úrvinnsla úr verðminni bolum, greinum og afsagi á timbri

c. Úrvinnsla úr öðrum skógarafurðum eins og sveppum, laufi, berjum o.fl., jafnvel ferðaþjónustu.


Hver og ein skráning skal hafa stutta greinagerð um úrvinnsluleið og möguleika til árangurs í vinnslu við íslenskar aðstæður.

Að lokinni skráningu og flokkun verður gerð tafla með einkunargjöf á hverjum úrvinnslumöguleika fyrir sig, sem segir til um áherslu á frekari skoðun á framleiðslumöguleika vörunnar.

Skýrslugerð skal lokið fyrir miðjan janúar 2025. Stjórn FsS ákveður í byrjun febrúar 2025 með framhald verkefnisins.


Annað árið:

Þeir vöruflokkar sem fengu hæsta skor á fyrsta ári verkefisins verða skoðir frekar. Gerðir verða kostnaðar- og hagkvæmnisútreikningar á hverjum flokki/vöru fyrir sig. Taka skal til skoðunar hvort væntanleg vinnsla henti á Suðurlandi og hvort hráefni sé nægilegt til að hagkvæmni náist í úrvinnslu.


Þriðja árið:

Leita skal leiða til að finna áhugasama aðila til að setja af stað úrvinnslu á þeim skógarafurðum sem skoruðu hátt í hagkvæmisútreikningum eftir annað ár verkefnisins Úr skógi.


Björn hefur fundað með verkfræðistofunni Eflu, sem sér tækifæri í verkefninu. Einnig hafa komið fyrirspurnir frá Evrópu um hvort sótt verði um Evrópustyrki, en félagið er of lítið fyrir slíkt.

Lóa – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina, er sjóður á vegum Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins. Umsóknarfrestur rennur út 5. apríl og mun Björn sækja um styrk í samvinnu við Eflu. Þar eru hærri upphæðir og því kannski hægt að fá meira fé í verkefnið. Þetta er allt í ferli og verður vonandi að veruleika. Stýrihópurinn mun funda nánast eingöngu á netinu og á eftir að finna út verklag og skipuleggja starfið.


2. Fundir í Austur-Skaftafellssýslu

Fundir á vegum félagsins hafa ekki verið haldnir í Austur-Skaftafellssýslu síðan Suðurlandsskógar voru við lýði. Fyrirhugað var að halda fund 23. mars en hætt hefur verið við það. Í staðinn ætlar Björn að athuga hvort ráðgjafi Lands og Skógar fyrir austan, Kári Freyr Lefever, sé tilbúinn til að mæta með Birni á tvo fundi í Austur-Skaftafellssýslu. Einnig á að reyna að fá nýjan formann SkógBí, Hjört Bergmann Jónsson, til að koma á fundina. Stefnt er að því að halda tvo fundi um mánaðarmótin apríl/maí.


3. Fræðslu- og umræðufundur

Á fræðslu- og umræðufundinum í dag verða skógarbændur hvattir til að hugsa betur um skógana sína en of fáir bændur á Suðurlandi eru að hugsa um umhirðuþáttinn. Hallur Björgvinsson verður með fræðslu um umhirðu á fundinum og Jón Þór Birgisson fræðir félagsmenn um skráningu í Avensa. Hrefna Jóhannesdóttir frá Landi og Skógi mun einnig taka til máls á fundinum ásamt Birni Bjarndal.


4. Önnur mál

Aðalfundur FsS verður á Stracta á Hellu þann 4. maí nk. kl. 10. Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður SkógBí, ætlar að mæta á fundinn og vera með innlegg, einnig ætir Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og Skógar.


Björn spyr Hjört um taxtamálin. Samkvæmt Hirti tók Skógræktin að sér að vinna allt upp á nýtt (stokka upp) í taxtamálunum. Fulltrúi bændasamtakanna mun verða með í þessari vinnu. Það hefur ekki verið vinnumælt síðan snemma á tíunda áratug síðustu aldar og þá voru ekki allir vinnuliðir mældir.


Almennar umræður um umhirðu, uppkvistun og millibilsjöfnun. Munu bændur sinna þessu ef þeir fá ekki greitt fyrir það? Það hafa ekki allir efni á því og bændur eru misjafnlega staddir. Hrefna segir það eigi að vera sjálfsagt að fara út í skóg til að sinna skóginum. Þetta er spurning um að ávaxta þau verðmæti sem í skóginum

felast.


Björn tekur til máls: Á meðan Landshlutaverkefnin voru við lýði hittu skógarbændur oftsinnis þingmenn og ráðherra. Á hverju ári var farið í fjárlaganefnd til að tala máli skógarbænda og nytjaskógaræktar. Félögin fimm gerðu þetta saman og formaður Landssamtakanna dró vagninn. Eftir að Landshlutaverkefnin voru lögð niður tók Skógræktin þennan hluta að sér og skógarbændur misstu sambandið við ráðamenn. Bændur horfa nú á fjármagn til skógræktar lækka frá ári til árs. Það þarf að efla samtalið við Land og Skóg.


Hrefna segir að Land og Skógur sé að reyna að fóta sig í þessu. Haldnir séu árlegir samráðsfundir með félögunum en Hrefna lagði til að fundirnir yrðu fjórir á ári, á þriggja mánaða fresti. Þeir fundir eru haldnir á Teams og eru um klukkutíma langir. Hrefna segir fínt að fá Hjört inn sem formann því henni hafi gengið illa að fá Bændasamtölin til að skipuleggja fundi.



Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 13:50

Ragnheiður Aradóttir



2. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS

7. febrúar 2024 kl. 17:00 – Teams

Mætt voru Björn B. Jónsson, Ragnheiður Aradóttir, Agnes Geirdal, Hrönn Guðmundsdóttir og

Sólveig Pálsdóttir.

Björn setti fundinn kl. 17:12.


1. Deildarfundur SkógBÍ

Deildarfundir búgreina verða á Hilton Reykjavík Nordica mánudaginn 12. febrúar

2024. Fulltrúar FsS verða Björn B. Jónsson, Hjörtur Bergmann Jónsson,

Ragnheiður Aradóttir og Kári Steinar Karlsson. Til vara eru Agnes Geirdal og

Sigríður Jóna Sigurfinnsdóttir. Hrönn Guðmundsdóttir sækir fundinn sem

stjórnarmaður í SkógBÍ.

Á fundinum verður kosinn nýr formaður SkógBÍ. Stjórn FsS tilnefnir Hjört Bergmann

Jónsson til formennsku í skógardeild bændasamtakanna.

Hrönn Guðmundsdóttir vék af fundi undir þessum lið.


2. Fræðslu- og umræðufundur 9. mars 2024

Til stendur að halda fund/námskeið fyrir félagsmenn þann 9. mars nk. að Reykjum í

Ölfusi. Hallur Björgvinsson verður með erindi um umhirðu skóga og Jón Þór

Birgisson verður með erindi um skráningu í skógrækt. Björn hefur hug á að fá

Hrefnu Jóhannesdóttur til að koma og opna á almennar umræður á fundinum með

henni.


3. Aðalfundur FsS

Fundurinn ákvað að halda aðalfund FsS þann 4. maí 2024 kl. 10 á Stracta Hóteli á

Hellu. Boðið verður upp á morgunmat fyrir fundarmenn. Hugmyndir eru uppi um að

fá Ágúst Sigurðsson, nýjan forstjóra nýrrar stofnunar Lands og Skóga, til að sækja

fundinn og vera með erindi.

Sólveig Pálsdóttir og Rafn A Sigurðsson eiga að ganga úr stjórn. Sólveig gefur kost

á sér áfram í aðalstjórn. Rætt var um kandidata fyrir stjórnarsetu og Björn ætlar að

kanna málið.


4. Jónsmessuganga

Fundurinn ákvað að hafa næstu jónsmessugöngu í Haukadal í Biskupstungum.

Hugmyndir eru uppi um að bjóða Trausta Jóhannssyni skógarverði og Böðvari

Guðmundssyni, fyrrverandi skógarverði. Björn ætlar að hafa samband við þá.


5. Almennir fundir í Austur-Skaftafellssýlsu 23. mars 2024.

Fundurinn felur Birni að skoða möguleika með fundarstaði fyrir tvo fundi með

félagsmönnum í Austur- Skaftafellssýslu. Björn myndi sækja fundina ásamt að

minnsta kosti einum öðrum stjórnarmanni.


6. Afurða og markaðsmál

Björn fundaði með Trausta Jóhannssyni og Hreini Óskarssyni hjá Landi og Skógi.

Það er komin fram krafa um vottun á timbri og er vinna í gangi hjá þeim við að

koma þessu á. Vottunin verður vonandi tilbúin í haust.

Kaupendur að timbri á Suðurlandi hafa ekki fundist ennþá.

Björn fór á fund hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands (sass.is/uppbyggingarsjodur) á

dögunum því hann er með hugmynd fyrir umsókn úr sjóðnum. Frestur til að sækja

um styrk rennur út 5. mars nk. Hugmyndin gengur út á þriggja ára verkefni og

taldar eru góðar líkur á að umsókn verði samþykkt.

Stjórnin felur Birni að vinna málið áfram og klára umsókn hjá Uppbyggingarsjóði

Suðurlands um afurða- og markaðsmál.


7. Fræðsla á Reykjum

Björn fór á fund með Björgvini Eggertssyni og Guðríði Helgadóttur hjá

Garðyrkjuskólanum. Staðan er sú að framhaldsskólar hafa ekki leyfi til að halda úti

endurmenntun. Garðyrkjuskólinn á Reykjum má því ekki halda

endurmenntunarnámskeið fyrir skógarbændur eins og staðan er í dag. Búið er að

semja bréf sem sent hefur verið á Menntamálaráðherra til að fá undanþágu frá

þessum lögum en heimild er í lögum fyrir ráðherra til að veita undanþágu.

Námskeiðið Grænni Skógar II fór af stað í byrjun febrúar 2024. Grænni Skógar I og

Grænni skógar III eru á dagskrá á haustmánuðum 2024.


8. Kynningarmál

Fundurinn ýtir á Hrönn, Agnesi og Siggu Jónu að klára vinnu varðandi FB síðu

félgasins og framtíðarfyrirkomulag á henni.


9. Móttaka skógarfólks

11. – 17. september 2024 mun Björn taka á móti skógarfólki er hann tekur á móti

hópi stúdenda frá Umea í Svíþjóð. Fleiri áhugasamir aðilar erlendis eru reglulega

að leita til hans og biðja um að fá að koma. Björn mun leiða þennan hóp vítt og

breitt um Suðurlandið.


Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 18:10

Ragnheiður Aradóttir



1. stjórnarfundur 2024

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS

3. janúar 2024 kl. 20:00 – Teams


Mætt voru Björn B. Jónsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Agnes Geirdal, Hrönn Guðmundsdóttir og Sólveig Pálsdóttir.

Björn setti fundinn kl. 20:12.


1. Vetrarstarf FsS

Björn fékk tölvupóst frá Hlyni um Skóbí fund í febrúar á Hótel Berjaya í Vatnsmýri. Fyrir þátttakendur er ferðakostnaður greiddur og greitt er fyrir mat. Gisting á hótelinu verður á tilboðsverði.


Rætt var um möguleg formannsefni fyrir aðalfund Skóbí.


Björn er að fara að funda með Guðríði og Björgvini hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum, veit ekki hvert fundarefnið er.


Grænni skógar II eru að fara af stað, ef næg þátttaka fæst, og Björn ætlar að senda út tölvupóst á félagsmenn um þetta. Björn er einhvern næstu daga að fara að funda með Hreini Óskarssyni, sviðstjóra hjá Landi og Skógi, og ætlar að heyra í honum hvernig hann sér fyrir sér samvinnu félagsins (FsS) og Lands og Skógar. Björn mun einnig funda með Gunnlaugi Guðjónssyni sviðstjóra miðlunar og nýsköpunar hjá Landi og Skógi.


Björn er búinn að heyra í Hrefnu Jóhannesdóttur, sviðstjóra ræktunar og nytja hjá Landi og Skógi, hún til tilbúin að koma suður og hitta okkur hvenær sem er. Björn fær leyfi fundarins til að heyra í henni með fundartíma og ákveða tíma.


Björn rifjar upp að til stóð að endurvekja Facebook síðu félagsins, Hrönn, Agnes og Sigga Jóna ætla að koma með tilllögur um framtíðarfyrirkomulag síðunnar á næsta fundi.


Til stendur að halda fund/námskeið fyrir félagsmenn í mars. Hallur Björgvinsson hjá Landi og Skógi er tilbúinn með erindi um snemmgrisjun og samhengi upphafsþéttleika og umhirðu. Á sama fundi ætla Björn og Jón Þór að fjalla um skráningu gróðursetninga og mikilvægi góðrar skráningar.


Huga þarf að aðalfundi félagsins í vor og finna stað fyrir hann. Aðalfundurinn verður haldinn í apríl. Björn mun skoða mögulegar staðsetningar fyrir hann og kostnað við það.



Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 20:35

Ragnheiður Aradóttir

 


Comments


bottom of page