Ábúð og örtröð
- Skógarbændur
- Jul 13, 2024
- 37 min read
Í Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1942 skrifaði Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, grein sem bar titilinn Ábúð og örtröð. Greini fjallar um ógnananir sem að landi steðja og eru fyrst og fremst veður, jarðhræringar og síðasta og sú vegamesta, ágangur búfjár. Í greininni fer Hákon yfir stöðuna eins og hún var fyrir 82 árum, krifjar eldri gögn húsdýra og kemst að ýmsu áhugaverðu. Þó landgræðsla og skógræktar dafni nú með mun meiri ágætum í sátt við land, bændur og þjóð, er margt sem á vel við enn þann dag í dag. Greinin er því orðin sígild og nokkuð sem unnendur sögu og landgræðslu ættu að lesa.
Hlynur Gauti hefur nú lesið þessa grein inn á myndband sem hann gaf út í dag. Hann hefur nútímavætt orðalag þar sem honum fannst það eiga við.
Hákon Bjarnason
Hákon Bjarnason skógræktarstjóri fæddist 13.júlí 1907, eða fyrir 117 árum. Hann var skógræktarstjóri +i yfir fjóra áratugi á miðri tuttugustu öld. Hann vakti athygli á undraverðum og framúrstefnulegum sjónarmiðum um landgræðslu og skógrækt. Hann komu miklu í verk, þrátt fyrir mótlærti. Mótlætið kom úr ýmsum áttum, meðal annars frá stétt sem hann helst vildi hjálpa, landbúnaðinum. Hákon var frumkvöðull á erfiðum tímum. Honum eigum við landgræðslu og skógræktarfólk margt að þakka.
Hér er pistill á síðu Land og skóg um Hákon
Hér má nálgast upphaflegu greinina:

Grein Hákonar eftir að Hlynur Gauti lagaði textann að nútímanum.
Ábúð og örtröð.
Inngangur.
Enginn veit með neinni vissu, hversu mikill hluti Íslands er vaxinn nytjagróðri. Allar hugmyndir, sem menn hafa gert sér um það, eru byggðar á getgátum einum. Úr þessu verður ekki skorið til hlítar, fyrr en nákvæmt gróðurkort hefur verið gert af öllu landinu.
Enginn veit heldur, hve mikið af landi hefur áður borið nytjagróður, og enn síður vita menn, hve þroskamikill sá gróður hefur verið.
Allir vita, að landkostir hafa áður verið miklu meiri en nú. Þeir hafa gengið mjög til þurrðar síðan land byggðist. Þótt við vitum, að orsakir gróðureyðingar á landi hér geti ekki verið nema þrjár, veðrátta, rányrkja og eldsumbrot, höfum við ekki nema óljóst hugboð um, hver af þessum þrem þáttum hafi verið drýgstur við eyðingu gróðurs og jarðvegar. Verst er þó, hvað snertir þekkingu okkar á gróðri landsins, að við höfum ekki minnstu hugmynd um, hvort landið er enn að eyðast af gróðri og blása upp.
Enginn vafi leikur á því að það hlýtur að skipta miklu máli fyrir framtíð þjóðarinnar að kunna skil á þeimur atriðum, sem hér hafa verið upp talin. Svo framarlega sem landbúnaður á að vera einn af aðal atvinnuvegum okkar. Framtíð og vöxtur þjóðarinnar er algjörlega undir því kominn, að landgæði gangi ekki meira til þurrðar en orðið er, en vaxi hins vegar og aukist, er tímar líða. Það þætti háðlegt mjög, ef kaupmaður vissi ekki svo vel um viðskipti sín, að hann gæti ekki sagt, hvort hann hagnist eða tapi á þeim. Það er álíka háðlegt fyrir okkur að hafa ekki hugmynd um, hvort við drögum fram lífið á rányrkju og eyðum landkostum eða við séum komin svo langt í ræktunarmálum, að landið sé nú loks að gróa upp að nýju?
Gróður landsins og jarðvegur þess eru langþýðingarmestu verðmætin, sem okkur hafa hlotnast. Öll önnur náttúrugæði, í og á landinu, eru ekki nema örlítið brot af þessum verðmætum. Þekking vor á gildi þessara verðmæta, gróðri og jarðvegi, er raunalega lítil, en kunnátta vor á meðferð þeirra er enn minni.
Enski heimspekingurinn Francis Bacon sagði endur fyrir löngu, að menn gætu ekki haft full not af gæðum náttúrunnar nema með því að hlýða lögmálum hennar. Með rannsóknum verðum við að afla okkur vitneskju um, á hvern hátt megi búa þannig í landinu, að afköst af vinnu okkar verði sem mest, jafnframt því að auka landgæði. Verðgildi peninga minnkar og þeir hætta að gefa vexti, en hver gróðurlaus melur, sem græddur er að nýju, og hver mói, sem ræktaður er, verða verðmæti, er gefa af sér ávöxt um alla framtíð, svo framarlega sem ekki er gengið of nærri gróðrinum.
Í grein þeirri, sem hér fer á eftir, verður reynt að rekja nokkuð þau atriði sem getið er um hér að framan. Ekki verður þó unnt að kryfja þau til mergjar, því enn vantar rannsóknir. Ályktanir þær, sem dregnar verða, munu þó geta getið bendingu um, í hvaða átt niðurstöðurnar hnigi að lokum, þegar nægrar þekkingar hefur verið aflað til þess að gera máli þessu full skil.
Stærð gróðurlendisins.
Búið er að gera uppdrátt af Íslandi, þar markar fyrir hæðalínum í 100 metrum, 200 metrum, 400 metrum og 800 metrum. Uppdrátturinn er aðgengilegur í mælikvarðanum 1:500.000. Gerðar voru flatarmælingar á þessum uppdrætti, til þess að fá betri hugmynd um hæðahlutföll landsins. Þar voru mældir hve margir ferkílómetrar lands væru á milli hæðalínanna. Stærð landsins reyndist um 103.500 ferkílómetrar og skiptist þannig í hæðabeltin.
Milli strandlínu og 100 m hæðar eru 17.000 ferkílómetrar
Milli - 100 m - 200 m hæðalínu eru- 9.500 ferkílómetrar -
Milli - 200 m - 400 m - eru- 17.000 ferkílómetrar -
Milli - 400 m - 800 m -eru - 38.500 ferkílómetrar -
Og Ofan við 800 m hæðalínu eru- 21.500 ferkílómetrar –
Á landi því, sem er ofan við 800 metra hæð yfir sjó, er enginn nytjagróður, enda er helmingur lands þessa hulinn jökli.
Á því svæði sem er ofan við 400 metra, en neðar en 800 metrar, er furðu lítill gróður. Ofan við 400 metra hæð er aðeins um afréttarlönd að ræða, en þau eru nytjuð um á tveggja til þriggja mánaða tíma á ári hverju. Afréttarlöndin eru langt frá því eins víðlend og nytjadrjúg og halda mætti að órannsökuðu máli. Graslendið á hálendinu fylgir venjulega ám og vatnsdrögum. en oft er komið langt inn í land, áður en árdalirnir komast upp yfir 400 metra. Að öllu samanlögðu mun gróður sá, sem vex ofan við 400 metra hæð, ekki hafa verulega þýðingu fyrir búskap þjóðarinnar í heild. Sú beit sem fæst á sumrum ofan við þessi mörk, hefur talsverða þýðingu í einstöku byggðarlögum og þá einkum af því, að það léttir mjög mikið á örtröðinni á landi því, er neðar liggur.
Milli 200 og 400 metra hæðar eru og aðallega beitarlönd. Ræktun er lítil ofan við 200 metra hæð, enda eru ekki nema örfáir bæir, er liggja hærra. Allir eða langflestir þessara bæja eru á Norður- og Norðausturlandi. Víðs vegar um land liggja þó gömul eyðibýli, enda náði byggðin áður fyrr bæði hærra og lengra inn til fjalla. Orsök þess, að þessi býli hafa lagst niður, er oftast hin sama. Það er að landið hefur blásið upp og gróður eyðst. Enda munu landskemmdir og gróðureyðing hafa verið einna stórfelldast á þeim 17.000 ferkílómetrar., sem eru milli 200 og 400 m hæðar. Hve mikið af landi þessu hafi áður fyrr borið gróður, er vandsvarað, en hitt er víst, að væri nú lagt saman allt gróðurlendi, sem er ofan við 200 metra hæð, þá yrði ekki nema tæpur þriðjungur þessara 17.000 ferkílómetrar. þakinn nytjagróðri.
Milli 100 og 200 m hæðar eru ekki nema 9.500 ferkílómetrar. Sennilega hefur land þetta allt verið gróið áður fyrr, þar sem nokkur skilyrði voru fyrir gróður að dafna. Á þessu svæði hafa landspell af völdum uppblástrar og gróðureyðing verið minni, heldur en ofan við 200 metra hæð. En samt sem áður væri mjög óvarlegt að telja meira en helming lands þessa bera samfelldan gróður.
Neðan við 100 metra hæð eru um 17.000 ferkílómetrar af öllu flatarmáli landsins. Á þessu svæði búa nær allir landsmenn, og af þessu landi eru langmestu gróðurnytjarnar. Mikið er af gróðurlausu
landi milli sjávar og 100 metra hæðar, og sumt af því er óræktanlegt með öllu. Hinir miklu sandar sunnanlands liggja svo undir ágangi vatns og jökulhlaupa. Þessir sandar verða því að teljast ónýtingarhæfir.
Skeiðarársandur er þeirra stærstur. Á öllu því flæmi er einungis hægt að beita 100 kindum sumarlangt og er beitin ekki betri en það að ærnar koma með rýra dilka að hausti.
Að öllu samanlögðu er flatarmál stóru sandanna og annarra smærri við árósa, sem einnig liggja undir ágangi vatna og eru ógrónir, um 4.000 ferkílómetrar. Það má því hæglega draga það land frá hinu undirlendinu undir 100 metra línunni og skilgreina sem nytjalaust land. Af þessum 17.000 ferkílómetrum eru því 13.000 ferkílómetrar eftir, en samt sem áður fer það fjarri því að þessi 13.000 ferkílómetrar., sem eftir eru, megi teljast vaxnir samfelldum gróðri. Það er erfitt að geta sér til, hve mikill hluti þessa lands er gróinn, án þess að styðjast við gróðurkort. Virði menn hinar einstöku sveitir fyrir sér, má sjá ótrúlega mikil lönd, sem annað hvort eru afblásin og bera lítinn sem engan eða mjög strjálan gróður.
Í sumum héruðum er um helmingur lands eyddur gróðri. Á nokkrum stöðum er eyðingin langtum meiri, eins og t. d. á Rangárvöllum og í Landsveit. Mjög víða eru líka mikil og lítt gróin hraun, svo sem Eldhraunið í Skaftafellssýslu, hraunin á Reykjanesi, Grábrókarhraun í Borgarfirði, hraunin vestur í Hnappadal og hraunin í utanverðum Aðaldal. Þar sem hraunanna gætir minna eru víða mikil og grýtt holt eða berir klapparásar eins og í nágrenni Reykjavíkur, í Borgarfirði, norður á Skaga og Sléttu og austur á Héraði. Væri nú gróður sá, sem er í hraunum þessum og klapparholtum og ásum, orðinn að samfelldri gróðurbreiðu, mundi hún ekki þekja nema lítinn hluta þess lands, sem gróðurinn nú er dreifður yfir. Það má heldur ekki gleyma því, hve hlíðar margra dala eru eyddar og blásnar, og er ytri hluti Fnjóskadals, glöggt dæmi þess. Þar er meira en helmingur lands blásinn og ber.
Að endingu verður að draga frá stöðuvötn og fallvötn, þegar reiknað er út flatarmál gróðurlendisins. Og þegar öll kurl koma til grafar er mjög hæpið að telja meira en helming þess lands, er liggur undir 100 m. hæð, vaxið samfelldum gróðri. Áður var búið að draga sandana frá og getur því flatarmál gróins lands undir 100 metra hæð vart talist meira en 6.500 ferkílómetrar. Samkvæmt þessum áætlunum á allt gróið land undir 400 metra hæð að nema um 17.000 ferkílómetrum. Þetta er minna en menn hafa giskað á hingað til, og sennilega er það langtum minna en menn gera sér almennt í hugarlund. Samt sem áður hefur svo varlega verið í sakirnar farið að þegar áætlun þessi var gerð er sennilegt að þegar nákvæmt gróðurkort verður gert af öllu landinu, muni þessi áætlun um gróðurþekju fremur verða of há en of lág.
Myndtexti af Sandgræðslu-girðingunni í Sauðlauksdal. Þar segir:
Girðingin var sett upp árið 1929. Gróðurinn innan girðingarinnar hefur vaxið upp af sjálfsdáðum jafnskjótt og beit var aflétt. Við Sauðlauksdal fýkur hvítur skeljasandur á land upp og eyðir gróðri.
Gróðurinn fyrr á öldum.
Enginn mun draga í efa að gróðurlendi Íslands hefur verið langtum víðlendara en nú en þegar land var numið. Áður en húsdýr voru flutt hingað, voru engar grasætur hér á landi. Allur gróður hefur þá getað náð eðlilegum þroska, svo fremi sem veðráttan leyfði. Eðlileg afleiðing þessa er sú, að hér hefur allt land verið gróið upp undir 400 metra hæð, nema þar sem fallvötn og umbrot náttúrunnar eyddu landi að staðaldri. Í landi yfir 400 metrum hefur gróður og verið meiri, en hve miklu meiri, verður aldrei sagt.
Öllum gróðri á landi hér eru sköpuð kröpp kjör af hálfu veðurfarsins. Gróður sá, sem vex upp við erfið veðurskilyrði, hlýtur að hafa minna mótstöðuafl gegn hvers konar áverkum heldur en sá gróður, sem býr við betri skilyrði.
Framan af öldum var langtum þéttbýlla hér en síðar varð. Þá stunduðu menn og meiri kvikfjárrækt heldur en síðar, og hefur þetta án efa hrundið mikilli landeyðingu af stað strax á fyrstu öldunum eftir land byggðist. Mestallur jarðvegur er kominn til af fokjarðarmyndun, en þess háttar jarðvegi er langtum hættara við eyðingu af völdum vinda og vatns en nokkur annar jarðvegur. undir eins og gróður eyðist, - er síst að furða þótt fljótt hafi kveðið mikið að landskemmdum.
Eyðing gróðursins á landinu er að líkindum enn óskaplegri en nokkur getur gert sér í hugarlund. Og gróður sá, sem við nú þekkjum, er langtum nytjaminni og kostarýrari heldur en hinn upphaflegi gróður landsins og frjósemi landsins hlýtur að vera aðeins svipur hjá sjón.
Enginn núlifandi maður myndi þekkja landið ef það gæti klæðst hinum forna skrúða sínum aftur. En það er hægt að fá ofurlítið hugboð um hin miklu stakkaskipti, sem landið hefur tekið, með því að skoða hin fáu skóglendi, sem notið hafa friðunar um fáa áratugi. Með því að bera frjósemina og gróskuna innan friðunargirðinganna saman við örtröðina utan þeirra, má alveg furða sig á því, hve gróðurinn getur tekið miklum stakkaskiptum, undir eins og honum er hlíft við beit. Það þarf þó ekki skóglendi til þess að sjá hvað gróðurinn er kyngimagnaður, þegar honum er hlíft við beit. Allar sandgræðslugirðingarnar bera þess augljós merki. Hvert sem litið breiðist nýgræðingur svo óðfluga út um blásna og bera jörð, að undrum sætir.
Orsakir landskemmda.
Orsakir gróðureyðingar hér á landi geta ekki verið nema með þrennu móti.
Í fyrsta lagi getur veðráttan valdið gróðureyðingu. Sérstaklega ef veðurfar breytist til hins verra.
Í öðru lagi getur of mikil beit og hvers konar rányrkja eytt gróðri.
Í þriðja lagi geta hamfarir náttúrunnar eyðilagt gróður á ýmsum slóðum með eldgosum og, afleiðingum þeirra, svo sem öskufalli, hraunflóðum og jökulhlaupum.
Hinar þrjár orsakir gróðureyðingar geta ýmist unnið saman eða sjálfstætt. Þegar þær vinna saman, getur verið erfitt að greina hver þeirra hefur minnst áhrif á eyðingunni. Og það verður erfiðara
sökum þess, að áhrif veðráttunnar eru margþætt. Þau geta unnið í öfuga átt við hin eiginlegu eyðingaröfl svo sem ef veðrátta batnar frá því sem hún var áður.
Nú skal reynt að lýsa nokkuð áhrifum hvers hinna eyðandi afla fyrir sig, en þess er ekki að vænta, að sú lýsing verði fullnægjandi, þar sem hér eru ekki til neinar rannsóknir við að styðjast. En með því að draga fram það sem við vitum af reynslu, og hitt, sem ráða má af líkum, getur verið, að hugmyndir okkar skýrist, hvað þessum þrem þáttum viðvíkur.
Veðráttan.
Veðráttan hefur margs konar áhrif á gróðurinn. Áhrif hennar eru bæði bein og óbein. Sumarhitinn ræður mestu um þroska gróðurs, svo framarlega sem úrkoma er hæfileg. Miklir vindar, og þá einkum þurrir vindar, hefta þroska hans en logn eða skjól er gróðrinum í vil.
Áhrif veðráttunnar á jarðveginn hafa óbein áhrif á allan gróður, sem eru engu minni en hin beinu áhrif. Frjósemi jarðvegarins er að mjög miklu leyti undir sumarhita komin, en þurrir vindar valda uppblæstri og gróðureyðingu.
Þannig geta hin einstöku áhrif veðráttunnar haft tvöfalt afl undir sumum kringumstæðum. Allur gróður er mjög næmur fyrir hvers konar hitabrigðum. Hver plöntutegund hefur sinn kjörhita. en það er sá hiti, sem hún dafnar bezt við yfir vaxtartímann. Tegundirnar þola ákveðin frávik frá kjörhita að einhverju vissu marki fyrir ofan og neðan kjörhitann. Eitt ljósasta dæmi þess, hve plöntur eru næmar fyrir lækkandi hita, er tómatplantan. Hún getur þolað allt ofan í 5 stiga hita, en ef hitinn fer niður úr því marki stutta stund, er henni bráður bani búinn. Í raun og veru er þessu svipað farið með allan gróður. Hver plöntutegund þarf eitthvað visst hitalágmark um vaxtartímann til þess að geta þroskað fræ. Þótt hitinn fari ekki nema brot úr stigi niður úr lágmarkinu, er það nóg til þess, að fræ nái ekki þroska. Fræþroskinn er hins vegarfyrsta skilyrðið til þess að gróðurtegundirnar geti breiðzt út, og sé meðalhiti vaxtartímans ekki nógu hár um visst árabil til þess að einhverjar tegundir nái ekki að þroska fræ, hljóta þær að deyja út að lokum.
Auðveldast er að gera sér grein fyrir þessu með því að hugsa sér að við göngum frá sjávarmáli upp gróna aflíðandi hlíð. Stöldrum við og skoðum gróðurinn nákvæmlega í hvert sinn, er við höfum farið 100 metra upp á við. Þegar við erum komin nokkuð upp í hlíðarnar, er eftirtektarvert, hve gróður allur verður minni vaxtar, og við erum ekki komin í 100 metra hæð, þegar ýmsar tegundir hafa alveg helzt úr lestinni.
Gróðurfarið í 100 metra hæð er allfrábrugðið því, sem var við sjávarmál, en þó tekur það meiri breytingum, er við förum næstu 100 metrana. Þá er fjöldi plantna horfinn, en fáeinar nýjar tegundir hafa komið í skarðið. Það eru hálendisjurtir, sem þykir hitinn of mikill niðri um hlíðarnar.
Í 300 metra hæð eru flestar blómjurtir horfnar, og runna- og kjarrgróður er orðinn kræklóttur og lítils vaxtar.
Í 400 metra hæð eru ekki nema sárfáar tegundir, sem hafa fylgt okkur alla leiðina.
En þegar við hugleiðum, að meðalhitinn lækkar ekki nema um rúmlega hálft stig eða 0,6 gráður við hverja 100 metra, er upp kemur, hlýtur okkur að furða á því, hve mikil áhrif smávegis hitabreytingar hafa á gróðurfarið. Margir hafa freistast til þess að halda að veðurfar hafi verið langt um betra hér á landi á fyrstu öldunum eftir að land byggðist, heldur en síðar, varð án þess að nokkur rök fyrir því. Það er alls ekki óhugsandi, að svo hafi verið, en líklegast er þó, að breytingar á meðalhita sumars hafi ekki verið miklar frá þeim tíma og fram til þessa. Að vísu hafa miklir harðindakaflar dunið yfir landið, og stundum hafa þeir staðið í nokkur ár samfleytt, en ef tekið væri meðaltal hitans um nægilega langt árabil, getur varla verið um mjög miklar breytingar að ræða. Við sáum það á göngu vorri upp fjallið, að smávægilegar hitabreytingar um hæfilega langan tíma, hlyti að hafa svo alvarlegar afleiðingar fyrir allan gróður, að það myndi breyta lifnaðarháttum okkar algerlega. Hefði nú meðalhiti vaxtartímans verið um 1 stigi lægri um langt árabil fyrr á öldum, myndi gróður landsins hafa færst í svipað horf og nú er í 200 metra hæð og þar yfir. Þá hefði sannarlega orðið svo harðbýlt hér á landi, að vafasamt er, að þjóðin hefði lifað það af.
Erfiðleikar þeir, sem steðjað hafa að þjóðinni á umliðnum öldum sakir harðæris, hafa efalaust verið langt um þungbærari af því, að menn voru illa undir, það búnir,það er að segja að mæta löngum innistöðum fénaðar. Hefðu menn þá haft meiri tækni til að afla sér heyja, myndi horfellir og mannfækkun oft hafa verið minni en varð. Samt sem áður má ekki gleyma því, að lítilsháttar lækkun á hita um vaxtartímann um nokkurra ára skeið, getur lamað mótstöðuafl gróðursins gegn öðrum eyðandi öflum. En fyrr en veðurfar fyrri alda verður rannsakað til hlítar, verður erfitt að kenna veðurfarinu og hugsanlegum breytingum á því um eyðingu gróðrar.
Það er alls ekki erfitt verk að fá allgóða hugmynd um veðurfar fyrri alda með því að rannsaka frjó plantna í mýrum, og í raun og veru er það mjög mikils vert, að slíkt verði gert sem fyrst, því að það er nauðsynlegur þáttur í rannsóknum á orsökum landskemmda.
Rányrkjan.
Þáttur ofbeitarinnar á eyðingu landgæða er svo umfangsmikill, að mjög er erfitt að gera honum viðunandi skil í stuttum kafla.
Það er kannski seilzt helzt til langt að skýra frá því í upphafi kaflans, að orsökin til þess, hve löndin umhverfis Miðjarðarhafið eru ófrjó og lítt gróin, á eingöngu rót sína að rekja til hinnar miklu rányrkju, sem þar var, þegar Rómaveldi stóð með mestum blóma. Á miðöldum var Noregur aðal-timburland Evrópu en rányrkja er einmitt ástæða þess hve vesturströnd Noregs er ber og blásin. Noregsstrendur og strandlengja Noregs hefur ekki enn borið sitt barr, þrátt fyrir mun betri veðurskilyrði en Ísland. Það er því ekki að undra að gróður á eyju úti á ballar hafi nái ekki fyrri styrk eftir aldalanga rányrkju. Á eyju sem kennd er við ís.
Eyðing birkiskóganna hér á landi er fyrst og fremst og nærri eingöngu beitinni að kenna. Reynslan hefur sýnt, að það er hægt að höggva birkiskóga alveg upp á nokkurra áratuga fresti án þess að nokkur hætta sé á að þeir deyi út. Ræturnar fá þá stundarfrið til þess að skjóta nýjum teinungum. En sé hinum nýju teinungum tortímt hvert árið á fætur öðru, fer svo að lokum, að ræturnar lúta í lægra haldi og deyja.
Í eyjum og hólmum; í ám og vötnum, vex oft og tíðum skógur eða kjarr. Alls staðar þar sem hægt hefur verið að komast að gróðri þessum, hefur kjarrið verið gjörfellt oft og mörgum sinnum á liðnum öldum, en það hefur jafnan vaxið upp aftur. Þjóðsagan um Öxarhólma í Sogi lýsir því vel hve mikla þörf menn hafa haft fyrir að afla sér viðar og hvað menn hafa lagt á sig til þess að ná í hann. Í Þjórsá eru margir hólmar og eyjar. Menn komast út í flesta hólmana, án þess að hætta lífi og limum, en það er erfitt eða illmögulegt að koma fé út í suma þeirra. Það getur ekki verið nein tilviljun að allir hólmar sem hægt er að flytja fé út í eru gjöreyddir að skógi og kjarri. Hinir eru undantekningarlaust vaxnir þéttu kjarri. Það er heldur engin tilviljun, að árgljúfur og klettaskorur, hvarvetna um land allt, eru mjög oft kjarri vaxin. Birkið varð að víkja fyrir búfé landsmanna. Besta vernd hinnar íslenzku moldar hefur vikið, ekkert ver moldina fyrir uppblæstri.
Þegar skógurinn og kjarrið hvarf, opnuðust allar gáttir fyrir uppblæstri og landskemmdum. Þegar birkiræturnar fúnuðu og dóu í sverðinum, þjappaðist moldin saman og frjósemi jarðvegarins stórminnkaði. Jurtagróðri fór öllum aftur og hann þoldi langt um minni beit en áður. Án þess þó að eyðast og tortímast. Þegar uppblástur er kominn á stað, ýfir sauðartönnin sárin á gróðurfeldinum, því að hún kroppar mest umhverfis sárin, þar sem helst er nokkur von nýgræðings. Traðkið í rofabörðunum, sem fénaðurinn safnast undir þegar eitthvað er að veðri eða hitar eru miklir, flýtir fyrir uppblæstrinum. Það er eins og allt hafi lagzt á eina sveif til þess að tortíma gróðri..., undir eins og skóganna missti við.
Örtröðin á landinu virðist mest fara eftir því hvernig snjóalögunum er háttað á vetrum. Þar sem snjór liggur lengi er landið jafn-grónast og þar er minnstur uppblástur. Það er engin tilviljun að Axarfjörður, ein norðlægasta sveit landsins, er enn viði vaxin milli fjalls og fjöru. Það er heldur engin tilviljun sem ræður því að margir dalabotnar austan lands og vestan eru enn grónir kjarri og skógi.
Þar sem snjólétt er eru skemmdir af völdum uppblástrar langt um meiri en annars staðar. Þetta hefur þó verið mörgum dulið, enda hefur tilviljunin hagað því þannig, að uppblástrarins gætir einna mest í sumum móbergshéruðum landsins. Hefur það valdið því, að margir hafa talið, að móbergsjarðvegi væri langt um hættara við uppblæstri en öðrum. Þetta er ekki rétt ályktun. Þar sem mestur uppblástur er, í móbergshéruðunum ( ...eða gosbeltunum), hefur frá alda öðli verið þéttbýli og víðast hvar er þar mjög snjólétt. Landið er flatlent og skjóllaust, en vindar af landi alla jafna þurrir. Munu allar þessar orsakir: snjóleysi, þéttbýli, flatlendi, skjólleysi og þurrir norðaustan vindar, langt um fremur orsök uppblástrar heldur en það, að myndun jarðvegar af móbergi sé um að kenna. Enda eru einhverjar hinar grösugustu sveitir á Norðurlandi, Axarfjörðurinn og Kelduhverfið, á miðju móbergssvæðinu.
Það er að vísu ekki hægt að neita því að ýmis líkindi eru fyrir því, að móbergsjarðvegi sé hættara en öðrum við uppblæstri. En ástæðulaust er að telja það aðal orsök landskemmda. Það hefur verið þjóðarvani hér að kenna óblíðu veðráttunnar og hamförum náttúrunnar um ótal margt sem aflaga hefur farið hér á landi. Áður fyrr, þegar menn fóru í skóg, var vaninn að höggva mest þar sem skógur stóð á moldarrofum og hirða hvert sprek og hverja tág af þeirra einföldu ástæðu, að þetta myndi eyðast hvort eð væri. Þegar ferðirnar til Ameríku stóðu sem hæst, var það heróp sumra, að Ísland væri að blása upp og við því mætti eigi sporna. Þegar skógurinn á Hálsi í Fnjóskadal var ruddur fyrir tæpum tveim öldum, var alkunna að þetta hefði verið nauðsynlegt, af því að skógurinn væri að eyðast og skemmast af sjálfu sér. Mönnum hefur sést yfir að búpeningur ætti nokkra sök á landskemmdunum.
Við vitum í raun og veru ekki neitt um tölu búpenings á landinu fyrr en um 1700 þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku saman Jarðabókina. Frá þeim tíma hefur búpeningur verið talinn öðru hverju fram að 1800. Eftir það hefur hann verið talinn flest árin. Framtölin eru samt öll þeim annmörkum bundin að tala gripa og fénaðar er of lág og getur það eflaust munað miklu frá því sem rétt reyndist. Sem dæmi um framtal má nefna árið 1903; þá var framtalið sauðfé um 500.000 (fimm-hundruð-þúsund), en samkvæmt böðunar-skýrslum voru hér um 650.000 (sex-hundruð-og-fimmtíu-þúsund) fjár.
Til fróðleiks er hér tekið upp framtal nokkurra ára, undanfarnar tvær aldir.
Árabilið er frá 1700 til 1925. Nú vík ég mér frá upplestrinum og ætla að reyna útskýra tölurnar. Til þess hef til aðstoðar Excel töflureikni og sett tölurnar upp í súlurit. Það sem ég greini fljótt er helst fernt. >Sauðfé er alls ráðandi allar aldir. >Á talningunni frá 1784 er mikill samdráttur í framtali. Sennilega sökum móðuharðindanna. >Hlutfallslega er mun meira um nautgripi framan af öldum. > og það síðasta sem ég les út er.. að hlutfall hrossaræktar eykst jafnt og þétt.
En nú vík ég aftur að upplestrinum þaðan sem frá var horfið.
Ár Hross Sauðfé Nautgripir
1703-12 26.909 279.812 35.860
1770 32.689 140.056 30.096
1784 8.683 49.613 9.804
1791 17.344 153.551 20.670
1795 22.599 241.171 22.488
1800 28.300- 304.198 23.296
1825 32.975 444.503 24.540
1849 37.557 619.092 25.523
1875 31.775 424.121 20.408
1900 41.654 469.477 23.596
1925 51.500 563.700 26.300
Tölur þessar eru teknar úr Lýsingu Íslands eftir Þorvald Thoroddsen. Af þeim, sést, að eign búpenings breytist all-mikið... og þó einkum sauðfjáreignin. Sauðfjársjúkdómar og hallæri valda oft miklu um sauðfjáreign frá ári til árs. Við Móðuharðindin fækkaði hratt búpening, en undravert er hve honum fjölgar ört að þeim loknum. Einnig er eftirtektarvert hve tala nautgripa er há árin 1703-12, en hlutfallið milli nautgripa og sauðfénaðar er talið, að hafa verið allt annað á fyrri öldum heldur en síðar varð. Þorvaldur Thoroddsen nefnir að nautgripir hafi verið um 100.000 á Sturlungaöld og má það vel vera, en líklegt er, að þá hafi sauðfé verið færra að tiltölu en síðar varð. Að vísu var prjónles mikil markaðsvara framan af öldum, og hefur það fremur aukið en minnkað sauðfjáreign manna.
Á þjóðveldistímanum hefur tala landsbúa verið miklu meiri en síðar. Björn M. Ólsen getur þess til, að þá hafi búið hér 51-68 þúsund manns. Síðar hafi tala íbúa komist upp í 75-80 þúsund þegar flest var. Aðalatvinnuvegur manna var kvikfjárrækt fram undir 1300, og hefur því búpeningseign landsbúa verið mjög mikil framan af. Síðan fækkaði íbúum og búfé, enda var tala búpenings mjög háð árferði. Í góðærum óx bústofn manna langt umfram það sem hóflegt var, en í harðærum féll hann og oft svo mjög, að af hlaust manndauði af hor og sulti. Heyfengurinn var oftast svo lítill, að beitina varð að nota til hins ýtrasta en ef hún brást, var sífellt voði fyrir dyrum.
Óhætt er að fullyrða, að í góðærum hafi búpeningi fjölgað svo frekast sem beitin leyfði og menn gátu við komið. En það þýðir, að beitin hefur ávallt verið notuð til hins ýtrasta, eftir því sem ástæður leyfðu á hverjum tíma. Geta má nærri, hvort slík beit hafi ekki flýtt fyrir landskemmdum. Í niðurlaginu verður nánar vikið að þessu, en hér mun rætt frekara um áhöfn þá, sem nú er hér á landi og verið hefur undanfarin ár.
Heimildir þær, sem hér eru lagðar til grundvallar, eru Búnaðarskýrslur Hagstofu Íslands. Því miður eru þær langt frá því að vera örugg og góð heimild, af því að framtal hefur löngum verið mjög lélegt. Þó eru skýrslur síðari ára mun áreiðanlegri en þær, sem út komu fyrir einum áratug. Þó vantar nokkuð upp á, að hægt sé að treysta þeim fullkomlega. Það er mjög slæmt, því að annars gæti skýrslur þessar komið að miklum notum, eins og síðar verður sýnt.
Tafla sú, sem her fer á eftir, sýnir heyfeng og búpeningseign landsmanna, samkvæmt Búnaðarskýrslum árin 1930-1939. Enn fremur á hún að sýna fóðurþörf búpeningsins yfir vetrarmánuðina og allt árið. Heyaflinn er tekinn úr skýrslu ársins á undan, af því að búpeningurinn er talinn á vorin, en hann hefur lifað á heyjum ársins áður. Fjöldi hrossa, nautgripa og sauðfénaðar er talinn í hundruðum. Aftan við dálkana um búpeningseignina er áætluð fóðurþörf og mismunur heyfengs. Næst er áætlað hve mikið fóðurmagn búféð þurfi allt árið sér til viðhalds og vaxtar og loks hve mikið fóður fæst af ræktuðu landi.
Áður en farið er að ræða um töfluna, er rétt að taka fram, að hún er öllu fremur til þess gerð að benda á aðferðir, sem nota megi til þess að fá úr því skorið, hvort búpeningur sé almennt vel fóðraður, heldur en til þess að draga af víðtækar ályktanir. Samt sem áður verður ekki hjá því komist að draga megi einhverjar ályktanir af niðurstöðunum. Væri framtalið ábyggilegt í alla staði mætti draga af því víðtækar og áreiðanlegar ályktanir, sem stæðust alla gagnrýni. Og þegar þekking manna á fóðurþörf búpeningsins er nægilega rannsökuð, má hafa líka aðferð og þá, sem hér er beitt, til þess að komast að raun um, hvort meðferð búpenings sé eins og best verði á kosið, og enn fremur, hvort land sé rányrkt, þegar stærð gróðurlendis og beitarþol er þekkt.
Við áætlanir um fóðurþörf búpenings var svo gert ráð fyrir, að allar skepnur fengi sómasamlegt fóður, og var reynt að miða við það, sem telja ætti meðalgjöf á öllu landinu. Raunar er erfitt að áætla slíkt, þar sem innistöðutími fénaðar er mjög misjafn, en reynt hefur verið að fara varlega í sakirnar og áætla fóðurþörfina fremur lága en of háa. Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, sem hefur með höndum rannsóknir á fóðri og fóðrun búpenings hér á landi, hefur verið með í ráðum um áætlun fóðurþarfarinnar.
Hverju hrossi voru áætlaðar 400 fóðureiningar að vetrargjöf, en 1.200 (tólfuhudnruð) fóðureiningar yfir árið.
Nautgripum var skipt í tvo flokka, mjólkandi kýr og geldan pening. Mjólkandi kýr eru taldar 72% af nautgripatölunni, en geldur peningur og naut 28%. Það er tekið eftir hlutfallinu milli kúa og annars nautpenings í Búnaðarskýrslum árin 1937-39. Mjólkandi kúm eru ætlaðir 35 hestburðir af töðu um gjafatímann eða 1750 fóðureiningar, en fóðurþörfin allt árið er áætluð 2500 fóðureiningar. Þar af fara 1500 til viðhalds en 1000 til mjólkurframleiðslu. Það svarar til 2.500 lítra af mjólk með 4 % fitu. Öðrum nautpeningi eru áætlaðar 1500 fóðureiningar að vetrargjöf, en 1900 til fóðurs allt árið.
Sauðfé er skipað í tvo hópa, á sama hátt og nautgripunum. Þannig að 72% eru taldar dilkær en 28% geldfé. Lembdum ám eru ætlaðar 100 fóðureiningar að gjöf, en geldfé 80. Fóðurþörfin á ári er 230 fóðureiningar, og er þá gert ráð fyrir, að 50 fari til mjólkur, og er geldfé því talið þurfa 180 fóðureiningar.
Um áætlun þessa er helst að segja, að geldneyti fá tiltölulega mest fóður, en það er gert af ásettu ráði, það er að hlutur kvígna að fyrsta kálfi sé ekki fyrir borð borinn. Við áætlun um fóðurþörf húsdýranna allt árið er sumarbeit dilka alveg sleppt, en hún er áreiðanlega all-mikil. En þar sem ómögulegt er að meta hana með neinni vissu, er henni alveg sleppt að öðru leyti en því, er nær til móðurmjólkurinnar.
Geitum er alveg sleppt við talningu búpeningsins; hins vegar verður farið nokkrum orðum um þær síðar.
Gefum okkur nú að skýrslurnar séu réttar og að fóðurþörf sé nærri sanni. Samkvæmt meðaltali 10 ára er heyaflinn rúmar 90 milljónir fóðureininga, - 92.642.000 -, en fóðurþörfin vetrarlangt fyrir allan bústofninn er á sama tíma nærri 140 milljón fóðureiningar, - 138.320.000 -. Þótt hér sé sagt „fóðurþörf vetrarlangt“, á það aðeins við það, hvað sómasamlegt væri að gefa húsdýrunum, því að bæði þurfa hross og fé meira fóður vetrarlangt en var áætlað. Ætlað er að jafna þann mismun með beit. Mismunurinn á því, sem aflað hefur verið af heyjum, og þess, sem gefa hefði átt, er um 45 milljónir fóðureiningar , 45.678.000. Það eru því ekki nema 2/3 hlutar þess fóðurs, sem gefa á húsdýrum vetrarlangt, sem aflað er með heyskap. Það er augljóst, að ekki nema hluti þessa sem er bættur með fóðurbæti. Enda þyrfti um 36 milljónir kílógramma af síldarmjöli til þess að jafna þennan mismun. En þegar framleiðsla síldarmjöls hefur verið hvað mest á landi hér, árið 1940, nam hún einmitt um 36 milljónum kílóa. Ef við ættum að fullnægja þörf húsdýranna á landi hér, samkvæmt útreikningum hér að framan, þyrfti allan heyskap landsmanna og alla framleiðslu á síldarmjöli eins og hún hefur mest orðið.
Undanfarin ár munu bændur hafa keypt síldarmjöl, sem nú er orðið aðal-fóðurbætirinn, svo að nemur um 5.000.000 -fimm-milljón- fóðureiningar. Þá eru eftir um 40 milljónir af mismuninum milli fóðurþarfar vetrarlangt og heyafla. Nú vitum við að hrossin eru oft látin nærast á litlu og þess vegna getum við sleppt þeim alveg í hugleiðingum okkar og dregið frá þessar 400 fóðureinignar, sem ætlaðar voru hverju hrossi vetrarlangt. En tæp 50.000 hross -47.270- éta ekki nema 19 milljónir fóðureiningar með 400 fóðureininga gjöf. Þá vantar samt rúmar 20 milljónir einingar til að við getum fóðrað nautgripi og sauðfé, eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Ef við drögum auk þess frá allt það, sem geldu sauðfé var ætlað til vetrarfóðurs, en það eru tæpar 15 milljónir fóðureiningar, þá verða samt eftir rúmar 5 milljónir sem vantar upp á, til að hægt sé að fóðra nautgripi og lembdar ær . Verður því enn að fækka lembdu ánum um 10 %, og þá loks er fóðurbætir og heyafli handa því sem eftir er. Hitt er sett á guð og gaddinn.
Því miður er ekki hægt að draga víðtækar ályktanir af þessu fyrrgreindu dæmi: af því hve undirstaðan er ótraust. Bústofn landsmanna er öllu meiri en skýrslur herma, en hversu framtal heyafla er, skal látið ósagt að sinni. Það er samt ekki hægt að skilja skýrslurnar öðruvísi en að mikill hluti bústofns landsmanna hljóti að vera vanfóðraður, og að treyst sé um of á vetrarbeit, langt umfram það, sem leyfilegt er. Það er alveg víst, að hefði komið harður og gjafafrekur vetur á árunum 1930 til 1939, mundi fjöldi hrossa og fjár hafa orðið hordauða. Það er hörmulegt að svo skuli vera, en þó er annað, sem er ef til vill enn verra. Það er víst, að bústofn landsmanna, að minnsta kosti síðustu sex aldirnar, hefur líkast til aldrei verið meiri. Það er ótvírætt, að beitin hefur verið notuð til hins ýtrasta og mun rányrkjan hafa keyrt úr hófi fram. Hafi bústofninn á þjóðveldistímanum verið meiri hér á landi en nú, hafði hann samt langtum meira graslendi og hagarými heldur en nú er til. Þótt fé og öðrum gripum hafi verið sýnd meiri harka þá en nú, mun rányrkjan aldrei hafa verið meiri á landinu en hin síðari ár.
„Hvað er þá orðið okkar starf
í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs
götuna fram eftir veg?“
Er ekki dæmalaust til þess að vita, að þrátt fyrir allar framfarir og framkvæmdir á sviði ræktunar, skuli rányrkja og örtröð hafa aukist stórkostlega. Það er ekki nema gott eitt að segja um aukna ræktun og hún mætti sannarlega vera meiri en hún er. En það er hörmulegt til þess að vita, að ræktunin hefur haft þann agnúa í för með sér, að rányrkjan á óræktuðu landi vex samfara aukinni ræktun. Þetta er öfugstreymi, sem kippa verður í lag hið bráðasta. Það getur ekki verið hagur neins, að bústofninn aukist svo, að örtröð í beitilöndum verði svo mikil, að arður búpenings minnki. En þetta á sér stað í flestum sveitum landsins. Alls staðar heyrast kvartanir um landþröng. Sums staðar spillir hrossabeit högum svo mjög að sauðfé á sama landi rýrnar. Annars staðar er sauðfé svo margt, að dilkar ná ekki eðlilegum þroska.
Páll Zóphóníasson hefur birt skýrslur í Frey um þunga sláturfjár á öllum sláturstöðum landsins. Skýrslur þessar eru hinar merkilegustu upplýsingar um fjárrækt landsmanna. Mismunur á þunga dilka á hinum ýmsu stöðum er svo mikill, að furðu sætir. Á Suður- og Suðausturlandi eru dilkarnir allt upp í 6 kílóum léttari, að því er kjötþunga snertir, heldur en á Norðvestur- og Norðurlandi. Ástæður til þessa mikla munar geta verið margar, en aðalástæðan hlýtur samt að vera vanfóðrun og of mikil beit á vetrum, samfara landþrengslum og of miklum ásetningi í haga á sumrum. Það munar sannarlega um minna en 6 kg mismun á fallþunga dilka að haustlagi .Svo bætist hér við flokkun kjötsins, þannig að verðmunur er langtum meiri en þungamismuninum einum nemur. Og þegar þess er gætt, að mismunur þessi er meðaltal. Hverju mundi þá ekki muna á þunga og gæðum dilka hjá góðum fjárbændum í Dölum og vestur á fjörðum og lélegum fjárhirðum á Suð-austurlandi? Skýrslur Páls Zóphóníassonar bera það með sér, að landþrengsli hljóta að vera víða um land.
Í 54. árgangi Búnaðarritsins er prýðileg grein eftir Halldór Pálsson í Nesi, þar, sem hann leitast við að gera grein fyrir því, hvernig ærnar borgi fóðrið sitt. Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að of mikill ásetningur í hagana á síðari árum hafi dregið til stórra muna úr gagni fénaðarins. Hann segir á einum stað orðrétt:
„Á afurðaskýrslunni sést það greinilega að ærnar eru nú á seinni árum, mikið tekjurýrari en þær voru fyrir 1930. Hver er ástæðan? Sennilega eru þær margar. Ein er líklega sú, að féð var hér fleira á þeim árum, sem lömbin eru rýrust. Þá var hér töluvert af fóðurfé, um 40 kindur. Það mun hafa meiri áhrif á vænleika fjárins en margur hyggur, hvort margt eða fátt fé er í sömu högum, sérstaklega í gróandanum, einkum þegar landið er lítið, eins og hér á sér stað“.
Þetta er reynsla athuguls bónda, en skyldi ekki fleiri hafa rekið sig á þetta sama. Skeiðamenn fengu að minnsta kosti miklu vænna fé af afrétti sínum heldur en Flóamenn sem urðu að hætta að reka fé sitt til fjalls fyrir fáum árum. Girðing var sett yfir Reykjanesið árið 1938. Fé Reyknesinga var þá bægt frá að rása norður yfir, en við það tók gróðurinn svo miklum stakkaskiptum, að fénaður þeirra, sem norðan girðingar búa, þyngdist og batnaði til stórra muna.
Það yrði of langt mál að telja upp fleiri dæmi landþrengsla, en þau skipta hundruðum; heldur verður nú vikið fáeinum orðum að afleiðingum þeirra. Því miður vitum við allt of lítið um beitarþol óræktaðs lands. Það er eðlilega mjög misjafnt og fer eftir gróðurlendi og ýmsu öðru. Í raun og veru væri mikil nauðsyn á, að það væri rannsakað sem víðast, því að það er jafn-víst og að tveir og tveir eru fjórir, að of mikil beit er vísasti vegurinn til þess að eyða gróðri og ryðja uppblæstrinum rás, jafnframt því sem of mikil beit er orsök þess, að afblásin lönd geta ekki gróið að nýju.
Það er eftirtektarvert, að allt fram á hin síðari ár hafa menn venjulega talið orsakir gróðureyðingar ýmsar aðrar en beitina sjálfa. Þorvaldur Thoroddsen segir til dæmis á þessa leið í Lýsingu Íslands (III. bls. 180):
„Gróðurinn á beitarlöndum Íslands hefur víða orðið fyrir skemmdum, bæði af völdum manna og náttúrunnar; eldgos, jökulár og roksandur hefur sums staðar spillt miklum hagalöndum, en eyðing skóganna hefur þó víða valdið meiri skemmdum, og sums staðar hefur melrif, lyngrif og víðirif spillt högum og jafnvel eyðilagt margar jarðir“.
Það er dálítið einkennilegt, að jafn glöggur maður og Þorvaldur Thoroddsen skuli ekki minnast á örtröð í þessu sambandi. Hann nefnir að vísu dæmi slíks á ýmsum öðrum stöðum í ritum sínum, en skýringin er ef til vill sú, að á þeim árum, sem hann ferðaðist um, var bústofninn langtum minni en nú og landþrengsli því minni.
Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna: Kansas, Nebraska o. fl. hafa stór landflæmi eyðst af ofbeit. Þar var sums staðar talið, að hæfilegt hefði verið að hver kýr hefði 16 ha beitilands, en kúnum fjölgaði svo að lokum, að hver kýr varð að láta sér nægja 4 ha lands og afleiðingin varð ógurlegur skepnufellir veturinn 1886, en óhemju landflæmi voru nöguð ofan í rót og feykilegur uppblástur hófst. Úr því að ætla verður kúnni 16 ha lands víða í Bandaríkjunum, mætti ætla að hér þyrfti ekki minna land. (Tekið eftir H. Lord: Behold our Land. Boston 1938).
Í Ferðabók sinni getur Þorvaldur Thoroddsen um byggð, sem reist var í Víðidal upp af Lóni. (Ferðab. I. bls. 76-80 og III. bls. 268-70). Þar virtist gnægð gróðrar, þegar menn settust þar að, en hann var allur upp urinn eftir einn áratug, svo að menn urðu að flýja staðinn. Í Árbók Ferðafélags Íslands segist Árna Óla svo frá um búskap manna á Þeistareykjum:
„Seinasti ábúandi á Þeistareykjum var Sigurður afi Friðþjófs Pálssonar .....
Þegar Sigurður reisti þar bú var þar mjög búsældarlegt og heyjaði hann ágætlega fyrsta sumarið. En það fór líkt hér og í Víðidal eystra, að jörðin þoldi ekki búskapinn, og gekk úr sér ár frá ári, þangað til hún var ekki byggileg og flýði Sigurður þaðan“.
Bæði þessi kot liggja svo hátt, að menn mundu varla hyggja til búskapar þar nú. Víðidalur er um 450 m og Þeistareykir um 350 m yfir sjó. En þessi dæmi sýna greinilega, að beitarþol gróðrar í þessari hæð hlýtur að vera mjög lítið. Það er aðeins stigmunur en ekki eðlismunur á beitarþoli gróðrar í þessari hæð og annars gróðrar, sem nær liggur sjávarmáli, og er líklegt, að menn telji beitarþolið víða langtum meira en það er í raun og veru. Með því að bera saman gróður á löndum þeim, sem notið hafa friðunar um fárra ára skeið, og hinna, sem liggja undir sífelldum ágangi, er auðséð, að hvar sem er á landinu, er sá gróður langtum kröftugri, sem friðar nýtur. Þar sem fé leikur lausum hala, er gróðurinn jafnan þróttminni, en búpeningur eyðir ekki gróðri aðeins á þann hátt að éta hann, heldur eyðileggur hann kannski alveg eins mikið með traðki. Traðk og spark þéttir jarðveginn svo, að hann verður ófrjórri af því, að loft og vatn fær ekki eðlilega rás um hann, og ræturnar ná þá ekki eðlilegum þroska. Þar, sem mikil beit er, verður svörðurinn þunnur og veikur fyrir, og beitin, ásamt blotum og þíðum á víxl, hefur þær afleiðingar, að sár koma á svörðinn. Íslenskur jarðvegur er með þeim ósköpum, að undir eins og moldin verður ber, er hætta á, að uppblástur byrji. Jafn skjótt og skriðan er komin á stað, verður hún ekki stöðvuð, fyrr en allur jarð- vegur er sorfinn af stórum svæðum. Því verður aldrei á móti mælt, að landskemmdir fara ávalt í kjölfar mikillar beitar, og að það er fyrst og fremst beitin, sem er hin upphaflega orsök gróðureyðingar og uppblástrar. Það er líka beitin, sem heldur uppblæstrinum við, framar öllu öðru. Sönnun þess er sú, að alls staðar, þar sem lönd eru girt og beit er hætt, stöðvast uppblástur af sjálfu sér á fáum árum eða áratugum. Þetta er reynsla, sem ekki verður hrakin, enda má sjá dæmi þessa í öllum skógræktar- og sandgræðslugirðingum landsins.
Í kaflanum um stærð gróðurlendisins var áætlað að flatarmál hins gróðurberandi lands væri um 17.000 (Sautján þúsund) ferkílómetrar. Ræktað land, skógræktar- og sandgræðslugirðingar, eru tæpir 1.000 ferkílómetrar samanlagt. Ef bústofninum er nú skipt jafnt niður á 16.000 ferkílómetra koma 3 hross, rúmlega 2 nautgripir og 42 kindur á hvern ferkílómeter gróins lands. Á rétthyrndu svæði, sem er Þúsund metrar á kannt (1.000 m á hvorn veg) á þessi fénaður að afla sér þess viðurværis, sem hann þarf, að frádregnu því, sem fæst af ræktuðu landi. Samkvæmt meðaltali síðustu tveggja dálkanna í töflunni hér á undan eiga 228.4 milljónir fjár að fást af á 16.000 ferkílómetra lands, en það verða um 14.000 fjár á ferkílómeter eða 140 fjár á hvern hektara óræktaðs lands. 140 fóðureiningar jafngilda 3.5 hestburðum af útheyi eða, ef reiknað væri í síldarmjöli, ætti arður sá, sem fæst af hverjum hektara lands að jafngilda um 112 kílóum síldarmjöls á ári. Þetta dæmi er fremur sett upp til fróðleiks heldur en að það megi taka bókstaflega. En væri þetta rétt, er það hreint ekki lítið verðmæti, sem dregið er úr skauti moldarinnar á hverju ári, án þess að nokkuð komi í staðinn.
Áður en lokið er við þáttinn um rányrkjuna, verður að víkja örfáum orðum að geitum og geitahaldi. Sem betur fer eru geitur ekki margar hér á landi. Hin síðari ár eru fram taldar um 2350 geitur að meðaltali. Geiturnar eru aðallega í Þingeyjarsýslum, en fáeinar eru við kauptún og á einstöku bæjum hingað og þangað. Geitahald er hvergi mikið nema þar, sem kvistlendi og skóglendi er í nánd. Lýsir það betur en annað, á hverju geiturnar eru látnar nærast. Þótt sauðfé fari illa með kjarrlendi, þá eru geiturnar margfalt verri. Aðal-fæða þeirra er lim og lauf biriks og víðis, ef þær ná til þess. Það er því engin tilviljun, að menn hafi seilzt til að hafa þær, þar sem gnægð er skóglendis eins og í Axarfirði og víðar. Þær eru harðgerðar og duglegar að bjarga sér á eigin spýtur og mjög léttar á fóðrum, þar sem þær ná til lims. En þær eru svo mikill vargur í skóglendi, að hið eina rétta væri að banna allt geitahald alls staðar í námunda við kjarrlendi. Meðan svo er eigi, er rányrkjan í raun og veru friðlýst .
Eldsumbrot
Eldsumbrot og afleiðingar þeirra, hvort heldur eru hraunflóð, öskufall eða jökulhlaup, geta eytt gróðri að fullu á takmörkuðum svæðum. Einnig geta þau spillt gróðri til muna um land allt, líkt og Skaftáreldar gerðu, en slíkt hefur örsjaldan komið fyrir.
Þó er líklegt, að menn hafi gefið eldsumbrotum of mikla sök á landskemmdum. Margar sveitir, sem menn hafa orðið að yfirgefa um stundarsakir vegna eldgosa, hafa byggst aftur, jafn skjótt og gróðurinn náði sér. Nokkur héruð hafa eyðst með öllu af völdum jökulhlaupa, en önnur hafa skemmst til muna. Annars staðar hefur hraunflóð runnið yfir byggðir, en þetta hvort tveggja veldur aðeins skemmdum á takmörkuðum svæðum, sem að vísu geta verið all-stór, eins og þegar Litla-Hérað eyddist og Eldhraunið í Vestur-Skaftafellssýslu rann. En öskufall, sem oft er samfara gosum, hefur sennilega unnið meira tjón en hraunflóð og jökulhlaup. Askan berst með vindum víðs vegar og getur kæft gróður á stórum svæðum. Stundum hefur askan verið eitri blandin, sem bæði hefur drepið gróður og sýkt búpening. Að líkindum eru það einhver flúorsambönd, sem valda gaddi í fé og gripum, en flúor er efni, sem skylt er joði og klóri. Aska veldur líka óbeinum spjöllum. Ef hún fellur þykkt yfir deiglendi þá getur vistkerfi landsins breyst í þurrlendi, og sem slíkt er landinu mun hættara við uppblæstri en sem deiglendi.
Auðveldast er að gera sér grein fyrir landskemmdum af völdum öskufalls, með því að skoða dæmi af einhverri sveit, sem hefur orðið fyrir slíkum búsifjum. Eitt besta slíka dæmið, sem völ er á, er Landsveitin í Rangárvallasýslu. Það eru til all-góðar upplýsingar um Landsveitina frá því Jarðabókin var saman tekin um 1711. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hefur Hekla gosið tvisvar, fjórum sinnum hefur gosið í nánd við Heklu, Katla hefir gosið fimm sinnum, og þótt Landsveitin liggi ekki mjög nærri Kötlu, hefur aska stundum borist þar yfir, og loks eru Skaftáreldarnir, sem einnig hafa gert nokkurn usla þar um slóðir. Önnur gos eru vart teljandi í þessu sambandi, en fá munu þau héruð vera, sem legið hafa fremur undir skemmdum af öskufalli heldur en þessi sveit.
Landsveitin liggur nokkuð hátt yfir sjó, víðast milli 100 og 200 metra. Landið er mjög jafnlent og fátt er þar um skjól af náttúrunnar hendi, nema á litlum bletti undir Skarðsfjalli. Það liggur því opið fyrir norð-austanvindi, en hann er hættulegasta uppblástrar-áttin á þessum slóðum. Sveitin er um 250 ferkílómetrar að flatarmáli, en af því landi eru ekki nema um 110 ferkílómetrar grónir. Því miður vitum við ekki, hve mikill hluti sveitarinnar var gróinn þegar Jarðabókin var tekin saman. Uppblástur var þá víða farinn að gera vart við sig, en samt hefur landið verið langtum grónara þá en nú um langt skeið. Bæði voru þá margar jarðir byggðar, sem nú eru í eyði og örfoka, og þess er líka getið, að menn hafi sótt slægjur á staði, sem nú eru uppblásnir. Enn fremur hafa margir bæir verið fluttir til undan uppblæstri undanfarin tvö hundruð ár.
Þegar Jarðabókin var tekin saman í Landsveit, voru liðin 18 ár frá einhverju mesta Heklugosi, er sögur fara af. Samt sem áður er furðu lítið kvartað undan spellum þeim, sem gosið hefur valdið. Þó er ýmislegt annað talið upp sem gerir lítið úr jörðunum.
Sé nú borinn saman búskapur manna í Landsveit árið 1711 og árið 1935, er hann furðu líkur um margt. Framteljendur eru 46 árið 1711, en 45 árið 1935. Árið 1711 eru þar 366 nautgripir, 420 hross og 5040 sauðfjár, en af því sauðfé eru lömb 1327 að tölu svo að sauðfjárstofninn er rúm 3600. Í raun og veru er mismunurinn á skepnufjölda þessi árin furðu lítill, hrossafjöldinn er hinn sami, nautgripirnir eru næstum helmingi fleiri en árið 1711, en sauðféð er um 1400 færra. Telja má líklegt að framtalið 1711 hafi eitthvað verið ýkt.
Meðferðin á fénaðinum árið 1711 hefur þó verið langtum verri heldur nú en, því að Jarðabókin skýrir svo frá, að í allri Landsveit sé ekki hægt að fóðra meira á heyjum en 197 kýr, 9 ungneyti, 92 lömb og 7 hross. Þess er getið, að á flestum jörðum verði að bjargazt við útigang að mestu, og sumstaðar er lim notað til heystyrks. Mikið er gert úr skemmdum af völdum uppblástrar og sandágangs á efri jörðum sveitarinnar, en á neðri býlunum er kvartað um hagaþröng. Á einum bæ eru kýr og hross heft um nætur vegna landþrengsla. Það er því ekki um villast, að um þetta leyti hefur verið beitt í hagana, sem frekast var hægt.
Hin síðari ár hefur fé bænda í Landsveit verið fremur rýrt, og er því aðallega um kennt, hve afréttur er gróðurlítill og hve landþröngt sé heima fyrir. Þótt hið gróna land sveitarinnar hafi verið þriðjungi meira fyrir tvö hundruð árum, mun beitin hafa verið öllu meiri þá en nú, af því að heyaflinn var sama og enginn, nema sultarfóður handa mjólkandi kúm. Að vísu er ekki hægt að segja, að áhöfn sú, sem talin er 1711, hafi verið meðaláhöfn allan þennan tíma, því að minnsta kosti tvö harðæristímabil hafa dunið yfir sveitina, auk þess sem fé var skorið niður um miðja síðustu öld og var nokkra stund að fjölga aftur. Harðæris-kaflarnir gáfu upp-blæstrinum byr undir báða vængi og spilltu stórum gróði. Þessu má ekki gleyma, þegar meta á orsakir landeyðingarinnar í Landsveit. En hins ber að minnast, að búpeningi fjölgaði jafn skjótt og harðindi voru um garð gengin, eins og minnst hefur verið á hér að framan.
Það dylst engum, að Landsveitin er nú full þröngt setin. Menn eru á einu máli um, að þar er of mikil átroðningur á landinu, sem heldur uppblæstrinum við, framar öllu öðru, og hindrar, að nýr gróður nái að vaxa á örfoka landi. Þess vegna virðist ekki ólíklega til getið að það sé fyrst og fremst örtröðinni um að kenna, hversu Landsveitin hefur skemmst og blásið upp síðustu tvær aldirnar. Þáttur eldgosanna við eyðingu gróðurs sé jafnvel enn minni heldur en hinna tveggja harðæriskafla.
Af því, sem hér hefur verið sagt um eldgos og afleiðingar þeirra í sambandi við eyðingu lands, virðist mega ætla að þáttur þeirra í landskemmdum sé all-takmarkaður og jafnan nokkuð staðbundinn. Mikið öskufall getur átt óbeinan þátt í því að auka uppblástrar-hættuna, en að öðru leyti eru áhrif þess á gróður yfirleitt smávægileg. Þegar skepnufellir hefur orðið samfara eldgosum, kann jafnvel svo að hafa farið, að öskufallið hafi ekki orðið gróðrinum til tjóns, heldur til bóta, því að fellirinn hefur veitt honum stundargrið áður en fé fjölgaði að nýju.
Þegar litið er samtímis á hinar þrjár orsakir, sem valdið geta eyðingu gróðurlendisins, er ljóst, að þær hafa allar átt nokkurn þátt í, hversu högum okkar er komið.
Þáttur eldgosanna er minnstur, og venjulega eru áhrif þeirra mjög staðbundin og myndi hverfa af sjálfu sér, ef hinir þættirnir tæki ekki strax við og yki þau.
Þáttur veðráttunnar er yfirleitt óbeinn, og eyðing sú, sem óhagstæð veðrátta getur valdið, sprettur fremur af því, að gróður hafi í upphafi skemmst af öðrum völdum en veðráttunnar. En á meðan veðrátta fyrri alda er enn órannsakað mál, verður ekki neitt um þetta sagt.
Þáttur rányrkjunnar er án efa þyngstur á metunum. Rányrkjan, ofbeitin, örtröðin, er sennilega frumorsök flestra og mestra landskemmda.
Niðurlag
Okkur er það hið mesta happ, að rekja má flestar orsakir landskemmda, gróðureyðingar og uppblástrar til rányrkjunnar. Því að af þeim þrem þáttum, sem geta verið orsök gróðureyðingar, þá er þetta eini þátturinn, sem er í okkar valdi til að breyta.
Hvílík ógæfa hefði það verið ef veðurfarinu einu væru um að kenna. Það væri þá til einskis að treysta á og byggja landið. Þá væri hið eina rétta að leggja árar í bát og hætta öllu búskapar amstri.
Búskaparlag allt hér á landi byggist fyrst og fremst á æfa-gamalli venju fremur en nútíma þekkingu. Það er mjög eðlilegt. Þjóðin hefur komist af á þennan hátt, fyrir nægjusemi og þrautseigju. En það sér hver heilvita maður, að okkur er ómögulegt að halda mikið lengur áfram á þeirri braut. Í fyrsta lagi er það ekki hægt sökum þess, að stærð og gæði gróðurlendisins þolir ekki að minnka frá því, sem orðið er. Í öðru lagi af því, að það er ekki lengur hægt að reka búfjárrækt, svo a nokkur hagur sé að til langframa, ef búféð líður tilfinnanlegan fóðurskort á einhverjum tímum árs.
Hringurinn Draupnir þótti hin mesta gersemi, af því að hann gat af sér aðra hringa jafnhöfga níundu hverja nótt. Á árunum 1922-1932 fór að meðaltali eitt býli í eyði níundu hverja nótt. Á hér um bil sama tíma hurfu 1600 manns frá landbúnaðarstörfum til annarra verka, en þjóðinni fjölgaði um sextán þúsund (16.000) manns. Til þessa liggja auðvitað ýmsar orsakir. Aðal ástæðan er þó sú, að menn hafa ekki haft jafn mikinn arð af vinnu sinni við búskap og við aðra atvinnu. Arðurinn af búskapnum fer auðvitað eftir landgæðum og búskaparlagi.
Nú hefur verið sýnt fram á það, hér á undan, að þessu hvoru tveggja er áfátt í ýmsu, og rökrétt afleiðing er sú, að brottflutningur fólks úr sveit er að miklu leyti af þessum rótum runninn.
Tveir Myndtextar af varnargarðinum Rangláti.
„Ranglátur“.
Þetta er hinn fyrsti sandvarnargarður, sem menn vita með vissu um að hlaðinn hafi verið hér á landi til þess að forða landi frá eyðingu af völdum sandfoks. Björn prófastur Halldórsson lét hlaða garðinn með því að leggja kvaðir á sóknarbörn sín. Af því dregur garðurinn nafn sitt.
„Ranglátur“.
Garðurinn var mikið mannvirki. Hann var um 600 metra á lengd, rúmur metri á breidd og 1,40 meter á hæð, hlaðinn úr torfi og grjóti. Þótt garðurinn sé nú löngu fallinn hefur hann varið túnið í Sauðlauksdal í nærri tvær aldir. Jörðin myndi vera komin í eyði, ef garðurinn hefði ekki verið hlaðinn.
Ræktun síðari ára og margs konar framkvæmdir í búnaði, svo sem áveitur, girðingar, bætt áburðarhirðing og margt fleira, hefur orðið til þess að bæta kjör manna, sem í sveit búa, og er það lofs vert. En sá er galli á þessu, að engin þessara framkvæmda hafa miðað að því að auka hinn náttúrlega gróður landsins utan túns og engja. Hins vegar hefur aukin ræktun gert mönnum kleift að fjölga búfé, en fjölgun búfjár hefur víða verið nauðsynleg, til þess að menn gæti risið undir þeim kostnaði, sem var samfara nauðsynlegum húsabótum og aukinni ræktun. Fjölgun búfjárins hefur, þrátt fyrir bætta meðferð og hirðingu, mjög aukið örtröð á óræktuðu landi. Þetta eru svo miklir gallar, að ljóminn af búnaðarframförum síðari ára mun hverfa að mestu eða öllu leyti þegar málið verður brotið til mergjar.
Úr þessum göllum verður að bæta, því að það hlýtur að vera auðskilið, að ekki dugir að halda lengra á rányrkjubrautinni en komið er. Í því sambandi er skylt og sjálfsagt að minna á, að margt af þeim nýbýlum, sem stofnað hefur verið til undanfarið, á alls ekki rétt á sér meðan ræktun land er ekki aukin mjög. Þótt hægt sé með góðu móti að fjölga býlum ofurlítið í einstöku sveitum, er annars staðar mjög hæpið, og víða alrangt, að gera slíkt. Fleiri býli í sveit er sama og aukin áhöfn, (þ.e. ofbeit), og meðan gróður-ræktunin eykst ekki hraðar en hún gerir nú, er stofnun nýbýla oft sama og aukin örtröð. Nýbýlastofnun á þeim grundvelli hefnir sín grimmilega, áður en langt um líður.
Eina starfsemin, sem rekin hefur verið hér á landi, og miðar að því að græða upp eydd lönd og hlynna að hinum náttúrlega gróðri landsins, er skógrækt og sandgræðsla. Framkvæmdir á þessum sviðum hefjast um síðustu aldamót. Framan framan af, og reyndar fyrstu tvo tugi aldarinnar, eru framkvæmdir hægfara. Þess vegna er árangur starfsemi þessarar ekki kominn svo greinilega í ljós að allur almenningur viti af honum. Almenningur veit því ekki hve mikinn árangur skógrækt og sandgræðsla hefur borið.
Sandgræðslan hefur girt og friðað um 35.000 hektara lands, sem að mestu var gróðursnautt, að skemmast eða að blása upp. Uppblásturinn, sem hefur verið heftur á sumum sandgræðslusvæðanna, var víða svo mikill, að hann ógnaði mörgum jörðum og byggðarlögum með algerðri eyðingu. Nytjar þær, sem áunnið hefur verið með sandgræðslustarfinu, er lítt mögulegt að meta til fjár. Það, sem vinnst og hefur unnist, er að 35.000 hektarar ógróins eða lítt gróins lands eru að klæðast gróðri að nýju. En þetta land er um það bil jafnt að flatarmáli og öll tún landsins, sem talin eru í búnaðarskýrslum árið 1939. Fjölda jarða hefur verið forðað frá stórskemmdum og mörgum frá eyðingu, og innan sandgræðslugirðinganna má nú heyja ágætis fóður, svo þúsundum hestburða nemur. Girðingarnar, sem umlykja þessi lönd, eru um 310 kílómetrar að lengd, og hefur uppsetning og viðhald þeirra verið aðal kostnaðurinn við þá miklu landvinninga, sem þegar eru fengnir og fást á næstu áratugum. En 310 km langar girðingar eru ekki meiri en þær, sem settar voru upp á einu ári, til þess að hefta útbreiðslu mæðiveikinnar.
Skógrækt ríkisins hefur ekki náð að girða meira en um tuttugu þúsund (20.000) hektara lands. Af því landi eru ekki nema tæplega þrjú-þúsund (3.000) hektarar vaxnir skógi og kjarri. Hitt eru aðallega eyðilönd, sem tekin hafa verið með skóglendinu, þar sem vel hefur hagað til, eins og í Þjórsárdal, en þar voru um þrettán þúsund (13.000) hektarar lands ógrónir að mestu. Stendur því líkt á um þau og lönd sandgræðslunnar. En með skógræktar-starfinu hefur verið sýnt fram á, að víða um land allt er auðvelt að fá úr sér gengið beitikjarr til þess að mynda sæmilega birkiskóga á 3-4 áratugum. Þannig hafa stór svæði á Hallormsstað og Vöglum breyst í ágætt skóglendi þar sem birki-nýgræðingur þýtur hvarvetna upp. Friðunar nýtur í nánd við þessa skóga. Og á síðustu árum hafa menn veitt því eftirtekt, að víða um land lifa bjarkarrætur í jörðu, sem geta vaxið upp og myndað nýja skóga ef friðunar nýtur. Af starfsemi skógræktarinnar er ljóst, að hér getur vaxið og dafnað langtum þroskameiri gróður en nokkurt mannsbarn hafði rennt grun í um síðustu aldamót.
Það er alveg víst, að starfsemi skógræktarinnar og sandgræðslunnar mun síðar verða talinn lang merkasti þátturinn í þeirri ræktun, sem hér hefur verið framkvæmd síðustu áratugi. Enda hefur þessi starfsemi þegar sýnt, og mun sanna mönnum enn betur síðar, hvern þátt beitin og rányrkjan á í eyðingu landsins. Hún mun gefa okkur það, sem mest er um vert í þessu sambandi, trúna á að takast megi að græða landið upp að nýju á auðveldan og ódýran hátt.
Þess vegna getum við hafist handa um að klæða landið, og nóg er verkefnið sem blasir við. Undir 200 metra hæð eru um 10.000 ferkílómetrar lands, sem nú ber annað hvort engan eða strjálan og lítinn gróður. Þetta land á allt að klæðast gróðri í einhverri mynd á næstu öldum, án þess að það, sem nú er gróið, minnki frá því sem er. Gróðurinn er og verður alltaf aðal-verðmæti þeirra, sem landið byggja, og gildi hans rýrnar ekki þótt tímar líði.
Til þess að stórfelld ræktun geti verið rekin með nokkurri fyrirhyggju, verður að hefja margþættar rannsóknir, til þess að ljóst verði, hvernig henni verði best hagað. Rannsóknum yrði að haga eitthvað á þessa leið:
Annars vegar væri rannsóknir á veðurfari fyrri alda með frjórannsóknum í mómýrum, samfara athugunum á sögulegum gögnum, sem kynni að geta gefið upplýsingar um allt, er varðaði búfjáreign og afrakstur búskapar á liðnum öldum, ásamt því að reynt væri að komast að, á hvaða tímum ýmis gróðurlendi hafi eyðst og hvenær ýmsar jarðir og byggðarlög hafi lagst í eyði.
Hins vegar yrði að mæla allt gróðurlendi landsins all-nákvæmlega, flokka það eftir gróðurfari, rannsaka vöxt gróðursins á mismunandi stöðum, komast fyrir um, hversu mikla beit hvert gróðurlendi þoli, án þess að nokkur hætta sé á að það gangi úr sér. Að því loknu þarf að meta, á hvern hátt landið verði best nytjað, hvaða búpening væri heppilegast að hafa á hverjum stað og hvaða gróður væri hagkvæmast að rækta.
Svona rannsóknir yrðu líklega enn fjölþættari í framkvæmd heldur en hér var líst. En án rannsókna verður þetta starf varla unnið að nokkru viti. Ætla má, að þessar rannsóknir yrðu til þess að gjörbreyta búskaparlagi og búnaðarháttum, ...en í slíkt má ekki horfa, þótt það kosti nokkra fyrirhöfn, ef það miðar að því að gera landið byggilegra fyrir þá, sem erfa það.
Commenti